Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 22. ágúst 2016 15:20
Elvar Geir Magnússon
Fjölnir heldur áfram að fjárfesta í afreksstarfi
Fjölnismenn fagna marki.
Fjölnismenn fagna marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net heldur áfram að fjalla um það fjármagn sem íslensk félög fengu í hendurnar vegna árangurs íslenska landsliðsins á Evrópumótinu.

Fótbolti.net sendi fyrirspurnir til allra félaga í Pepsi- og Inkasso-deildunum varðandi EM framlagið frá KSÍ. Spurt var í hvað félögin ætla að nýta peningana og hve stór hluti færi í yngri flokka.

Sjá einnig:
Fyrsta frétt Fótbolta.net um fyrirspurnina
Önnur frétt Fótbolta.net um fyrirspurnina

Fjögur félög sendur svör um helgina en FH, Keflavík og Selfoss hafa enn ekki svarað. Fjarðabyggð svaraði einfaldlega að það ætti eftir að funda um málið innan félagsins.

Búa vonandi til landsliðsmenn
Fjölnir sendi það svar að fjármunirnir yrðu nýttir í sömu verkefni og aðrir fjármunir deildarinnar hafa verið nýttir í.

„Á þessu tímabili, líkt og áður, hefur leikmannahópur meistaraflokks karla verið að stórum hluta skipaður uppöldum Fjölnismönnum. Hið sama á við um meistaraflokk kvenna sem nú leikur í 1. deild. Þessi staðreynd er afrakstur öflugs starfs í yngri flokkum félagsins þar sem frábærir þjálfarar okkar eiga mikið hrós skilið." segir í svari Fjölnis.

„Það hefur verið og mun áfram vera markmið stjórnar knattspyrnudeildar Fjölnis að leikmannahópar meistaraflokka karla og kvenna séu að verulegu leyti skipaðir uppöldum leikmönnum. Þessu markmiði verður ekki náð nema með áframhaldandi verulegri fjárfestingu í öflugu uppeldis- og afreksstarf sem m.a. snýst um að búa til framtíðarleikmenn fyrir meistararaflokka félagsins og vonandi íslensku landsliðin."

„Eins og fram hefur komið í fréttum þá höfum nýlega gengið frá ráðningu Þorláks Árnasonar í fullt starf yfirþjálfara hjá deildinni og verður hlutverk hans m.a. að efla enn frekar afrekshlutann í unglingastarfi deildarinnar."

Styður við framþróun í Fossvoginum
Víkingur Reykjavík hefur ekki tekið það fyrir formlega hjá sér hvernig peningarnir verða nýttir.

„Knattspyrnudeild Víkings mun hins vegar halda áfram að efla gott starf á öllum stigum og stuðla að því að fleiri afreksmenn komi upp úr starfinu. Yngri flokkar félagsins eru í miklum blóma og unnu m.a. 11 af 19 Reykjavíkurtitlum sem í boðið voru í vor. Við erum við hreyknir af starfi deildarinnar og þessi innspýting styður við enn frekari framþróun í Fossvoginum," segir Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Víkings.

Eyjamenn fara varlega í notkun fjármunanna
Óskar Jósúason framkvæmdastjóri ÍBV segir það forgang og markmið félagsins að hafa gott barna- og unglingastarf með það að markmiði að gera félagið helst sjálfbært í leikmannamálum.

„Það er engin áætlun komin hjá félaginu í hvað framlagið fer enda mjög stutt síðan það var gefið út. Félagið mun fara varlega í notkun fjármunanna. Vegna þess að ekki er komin skipulögð áætlun er ekki hægt að segja til um hve stór hluti er hugsaður beint í starf yngri flokka og í að búa til öflugri leikmenn. En við erum alltaf að reyna að búa til öflugri og betri leikmenn, alveg óháð þessum styrk. ÍBV er til að mynda að leita að yfirþjálfara fyrir yngri flokkana þessa stundina," segir í svari frá Vestmannaeyjum.



Fyrirspurn Fótbolta.net:

1. Hvað er í forgangi hjá þínu félagi í að nýta EM framlagið í?

2. Er skipulögð áætlun hjá félaginu í hvað framlagið fer?
- Ef svo er, hvernig er sú áætlun í stuttu máli og er hún opinber?

3. Hve stór hluti er hugsaður beint í starf yngri flokka og í að búa til öflugri leikmenn?

Athugasemdir
banner
banner