Jesus gæti farið frá Arsenal - Möguleg stjóraskipti hjá Man Utd og Bayern - Dortmund vill halda Sancho
banner
   fös 19. ágúst 2016 12:30
Elvar Geir Magnússon
Sjö félög hafa ekki svarað fyrirspurn Fótbolta.net
Hvernig verður EM framlagið nýtt?
Hvernig verður EM framlagið nýtt?
Mynd: Getty Images
KR-ingar ætla að efla starf knattspyrnudeildar.
KR-ingar ætla að efla starf knattspyrnudeildar.
Mynd: Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
Uppaldir leikmenn eru í aðalhlutverki hjá Haukum.
Uppaldir leikmenn eru í aðalhlutverki hjá Haukum.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Fáskrúðsfirðingar ætla ekki til Benidorm.
Fáskrúðsfirðingar ætla ekki til Benidorm.
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH, Fjölnir, Víkingur R., ÍBV, Keflavík, Selfoss og Fjarðabyggð hafa ekki svarað fyrirspurn Fótbolta.net nú þegar tveir sólarhringar eru liðnir.

Fótbolti.net sendi fyrirspurnir til allra félaga í Pepsi- og Inkasso-deildunum varðandi EM framlagið frá KSÍ. Spurt var í hvað félögin ætla að nýta peningana og hve stór hluti færi í yngri flokka.

Sjá einnig:
Fyrri frétt Fótbolta.net um fyrirspurnina

KR ætlar að efla starf deildarinnar
„Knattspyrnudeild KR mun nýta þá fjármuni sem EM gaf til þess að efla starf deildarinnar enn frekar. Hæfir þjálfarar, uppeldisstarf og þjálfun er lykillinn af uppsprettu góðra félags- og leikmanna," segir í svari frá Kristni Kjærnested, formanni KR.

„Þeir fjármunir sem KR fær vegna EM munu nýtast til frekari uppbyggingar á deildinni og er góð viðbót við allan stuðninginn, sem deildin fær frá fyrirtækjum, foreldrum og velunnurum KR."

Ekki er farið nánar í með hvaða hætti peningarnir verða nýttir.

Fylkir vill skila af sér fleira afreksfólki
Ásgeir Ásgeirsson, formaður Fylkis, segir að Árbæjarfélagið vilji bæta aðstöðu iðkenda og efla þjálfun þeirra.

„Ekki hefur verið gefin út sérstök áætlun um nýtingu framlagsins en stjórn knattspyrnudeildar Fylkis mun á næstunni fjalla um málið og meta hvaða þætti í starfi deildarinnar hún telur mikilvægt að leggja frekari áherslu á. Þar verður haft að markmiði að framlagið verði nýtt með þeim hætti að það efli starf deildarinnar sem þá vonandi eykur líkur þess að hún skili af sér fleira afreksfólki í knattspyrnu í framtíðinni."

Haukar fjárfesta í grasrótinni
„EM framlagið er svo sannarlega kærkominn styrkur sem við viljum nota til að fjárfesta áfram í grasrót deildarinnar," segir Halldór Jón Garðarsson, stjórnarmaður Hauka.

„Það er ávallt í forgangi hjá okkur að greiða laun starfsmanna knattspyrnudeildar Hauka, sbr. þjálfara, og þetta framlag mun koma þar til hjálpar sem og að bæta æfingatæki, sbr. bolta, mörk o.s.frv. fyrir iðkendur í yngri flokkum félagsins."

„Mikill metnaður er lagður í yngri flokka starf Hauka og lögð er áhersla að ráða til félagsins vel menntaða þjálfara. Sú stefna hefur hjálpað Haukum að vera með ca. 85% hlutfall af uppöldum leikmönnum í meistaraflokkum félagsins á þessu tímabili"

„Fjárhæðin gefur ekki tilefni til mikillar áætlunargerðar en Haukar eru hins vegar almennt með á áætlun að byggja knatthús fyrir iðkendur félagsins, sem svo sannarlega er þörf á, og framlagið mun örugglega hjálpa til í þeirri vinnu."

Stefna Fram til lengri tíma að byggja á uppöldum leikmönnum
Hermann S. Guðmundsson, formaður Fram, segir að skipulega sé unnið að því innan félagsins að byggja upp alla aldurshópa beggja kynja. Ekkert sérstakt átak fari í gang vegna þessara framlaga.

„Fram mun fá um 12 milljónir í sinn hlut. Til samanburðar má geta þess að velta deildarinnar er um 75 milljónir á ári. Rekstur yngri flokka félagsins kostar rúmlega 30 milljónir á ári eða tæpur helmingur umfangsins," segir Hermann.

„Það er stefna félagsins til lengri tíma að byggja á uppöldum leikmönnum eins mikið og kostur er. Vegna þessa framlags mun Knattspyrnufélagið Fram vera skuldlaust um næstu áramót eins og þau síðustu, það er mikilvægast af öllu."

Ekki farið til Benidorm
Það verður áfram í forgangi að byggja upp unga knattspyrnumenn af báðum kynjum hjá Leikni Fáskrúðsfirði samkvæmt svari frá Magnúsi Ásgrímssyni formanni félagsins.

„Sennilega höfum við teflt fram flestum drengjum á 2. og 3. flokks aldri í efstu tveimur deildunum í sumar, samtals sex leikmönnum. Þess má geta að UMF Leiknir trúlega með ein af lægstu æfingagjöld hjá börnum og unglingum sem þekkjast á Íslandi og við munum örugglega halda áfram að niðurgreiða barnastarfið á næstu árum. Við höfum lagt áherslu á að mennta þjálfarana okkar og stutt þá dyggilega og erum með tvo með UEFA-A gráðu innan félagsins," segir Magnús

„Við höfum ekki fjallað um það sérstaklega hvernig EM-framlaginu verður varið, enda nýbúið að gefa þetta formlega út. Umfjöllun ykkar mun hins vegar vafalítið auka líkurnar á að við notum peningana á markvissan og jafnvel skynsamlegan hátt á komandi árum, í stað þess að kaupa ferð fyrir stjórnina til Benidorm."

Víkingur Ólafsvík, Þróttur og Huginn hafa svarað á þá leið að félögin eigi eftir að funda um málið



Fyrirspurn Fótbolta.net:

1. Hvað er í forgangi hjá þínu félagi í að nýta EM framlagið í?

2. Er skipulögð áætlun hjá félaginu í hvað framlagið fer?
- Ef svo er, hvernig er sú áætlun í stuttu máli og er hún opinber?

3. Hve stór hluti er hugsaður beint í starf yngri flokka og í að búa til öflugri leikmenn?

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner