Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   þri 19. apríl 2016 14:00
Elvar Geir Magnússon
Spá Fótbolta.net - 7. sæti: Fylkir
Ásgeir Börkur Ásgeirsson fyrirliði.
Ásgeir Börkur Ásgeirsson fyrirliði.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Ingimundur Níels átti ekki gott tímabil í fyrra.
Ingimundur Níels átti ekki gott tímabil í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Varnarmaðurinn Ásgeir Eyþórsson.
Varnarmaðurinn Ásgeir Eyþórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert Brynjar Ingason hefur verið að glíma við meiðsli.
Albert Brynjar Ingason hefur verið að glíma við meiðsli.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Ragnar Bragi Sveinsson.
Ragnar Bragi Sveinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Floridana völlurinn, heimavöllur Fylkis.
Floridana völlurinn, heimavöllur Fylkis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að Fylkir endi í sjöunda sæti í sæti í Pepsi-deildinni í sumar. Fréttaritarar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. Fylkir endar í 7. sæti.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. Fylkir 44 stig
8. ÍBV 42 stig
9. Fjölnir 27 stig
10.ÍA 26 stig
11 Víkingur Ólafsvík 24 stig
12. Þróttur 14 stig

Um liðið: Síðasta sumar hjá Fylkismönnum var mjög sérstakt. Dramatík og kjaftasögur einkenndu tímabilið þar sem sæti Ásmundar Arnarssonar var heitt. Þegar Ásmundur var svo látinn taka pokann sinn og Hermann Hreiðarsson ráðinn rak enginn upp stór augu enda sögusagnir lengi verið í gangi um að Hermann hefði áhuga á starfinu. Á endanum hafnaði Fylkir í áttunda sæti, á svipuðum stað og Árbæingar eru vanir að sjá sitt lið.

Þjálfari - Hermann Hreiðarsson: Hemmi er gríðarlegur stemningskall eins og allir fótboltaáhugamenn vita. Mjög smitandi persónuleiki sem gerir það að verkum að hann getur fengið leikmenn til að trúa ýmsum hlutum og leggja sig alla fram. „Þú finnur ekki stjóra sem er betri maður á mann en Hemmi og hann er mjög hreinskilinn," sagði Ragnar Bragi Sveinsson, leikmaður Fylkis, í viðtali á dögunum. Þegar kemur að leikfræðinni er Hermann kannski enn smá óskrifað blað sem þjálfari en nú í sumar ætti handbragð þjálfarans ástríðufulla að sjást betur á Árbæjarliðinu.

Styrkleikar: Fylkismenn hafa verið smá sveiflukenndir á undirbúningstímabilinu, enda Hermann að reyna að koma inn sínum áherslum, en hafa verið ansi flottir þegar takturinn hefur fundist. Liðið hefur oft á köflum spilað stórskemmtilegan fótbolta og gæti myndast góð stemning fyrir liðinu í Árbænum í sumar. Spánverjinn Sito hefur komið öflugur inn á undirbúningstímabilinu og gæti orðið einn af mönnum mótsins.

Veikleikar: Varnarleikurinn var ekki nægilega öflugur í fyrra og mikilvægt að Árbæingar nái að laga það. Markvarðarstaðan er spurningamerki og enn óvíst hver mun vera í rammanum. Efasemdarraddir eru um hvort Ólafur Íshólm Ólafsson sé nægilega öflugur til að Fylkir geti náð að hífa sig upp töfluna. Áhuggjuefni fyrir Fylkismenn að sóknarmaðurinn Albert Brynjar Ingason hefur mikið verið í meiðslum.

Lykilmenn: Andrés Már Jóhannesson og Sito. Andrés spilaði sinn fyrsta A-landsleik í janúarmánuði. Afskaplega góður leikmaður sem allir andstæðingar þurfa að óttast ef hann nær sér á strik. Landsliðsvalið gæti gefið honum byr undir báða vængi. Spánverjinn Sito var sóttur frá Vestmannaeyjum og hefur verið afskaplega góður á undirbúningstímabilinu. Getur búið til mark hvenær sem er.

Gaman að fylgjast með: Hemma Hreiðars á hliðarlínunni. Það vantaði ekki lætin kringum hann síðasta sumar og dómararnir höfðu í nægu að snúast. Hemmi byrjar tímabilið núna í tveggja leikja banni. Þá verður spennandi að sjá samvinnu hans og Garðars Jóhannssonar sem er tekinn við sem aðstoðarþjálfari.

Spurningamerkið: Sérfræðingarnir eiga mjög erfitt með að festa fingur á sætið sem Fylkir mun enda í þetta sumarið og sveiflaðist upp og niður eftir spámönnum. Spurningamerkin eru mörg og gæti Fylkir gert góða hluti ef þau sveiflast í rétta átt. Liðið er vant því að sigla lygnan sjó í deildinni og gæti það enn og aftur verið niðurstaðan.

Völlurinn: Fylkisvöllur, eða Floridana völlurinn eins og hann heitir núna, hefur tekið stakkaskiptum með nýrri og glæsilegri stúku sem gefur Lautinni nýtt yfirbragð. Að mati margra er næsta skref að feta í fótspor Valsmanna og fá sér gervigras sem undirlag enda tekur grasið í Árbænum seint við sér.



Stuðningsmaðurinn segir - Þorsteinn Lár Ragnarsson
„Ég held að Fylkisliðið verði klárlega í efstu sex frekar en neðri sex. Hemmi hefur komið með ferska vinda í Árbæinn og þar líður honum vel. Leikmannahópurinn er mjög samheldinn og sem fyrr er Fylkir með hvað einna flesta uppalda leikmenn af liðunum í efstu deild. Það gefur ákveðinn gæða stimpil á starfið hjá Fylki að vera samfellt í efstu deild í öll þessi ár."

„Alli er smá spurningamerki vegna erfiðra meiðsla en við höfum fengið Sito sem virðist smellpassa í hópinn. Annars erum við með mjög solid byrjunarlið sem getur unnið hvaða lið sem er, og þarf þá ekki endilega að spila sinn besta leik til þess. Tonci Radovnicovic kom aftur og styrkir vörnina mikið. Á miðjunni og köntunum eru síðan engir aukvisar í þeim Andrési, Ásgeir Berki, Ingimundi ofl. Ég spái okkur 3-4 sæti að öllu óbreyttu."

Sjá einnig:
Líklegt byrjunarlið Fylkis
Hemmi Hreiðars: Verð silkislakur á hliðarlínunni í sumar
Sito: Verður sérstakt fyrir mig að leika gegn ÍBV

Komnir:
Emil Ásmundsson frá Brighton
Garðar Jóhannsson frá Stjörnunni
Jose Enrique „Sito” frá ÍBV
Styrmir Erlendsson frá ÍR
Víðir Þorvarðarson frá ÍBV

Farnir:
Bjarni Þórður Halldórsson í Aftureldingu
Hákon Ingi Jónsson í HK
Jóhannes Karl Guðjónsson í HK
Kjartan Ágúst Breiðdal
Kolbeinn Finnsson til Groningen
Stefán Ragnar Guðlaugsson í Selfoss

Leikmenn Fylkis sumarið 2016:
Ólafur Íshólm Ólafsson - 1
Ásgeir Börkur Ásgeirsson - 3
Tonci Radinokovic - 4
Ásgeir Eyþórsson - 5
Oddur Ingi Guðmundsson - 6
Ingimundur Níels Óskarsson - 7
Jose Sito Enrique - 8
Ragnar Bragi Sveinsson - 9
Andrés Már Jóhannesson - 10
Víðir Þorvarðarson - 11
Albert Brynjar Ingason - 14
Garðar Jóhannsson - 15
Tómas Joð Þorsteinsson - 16
Ásgeir Örn Arnþórsson - 17
Styrmir Erlendsson - 18
Hafliði Sigurðarson - 19
Daði Ólafsson - 21
Emil Ásmundsson - 22
Andri Þór Jónsson - 23
Elís Rafn Björnsson - 24
Valdimar Þór Ingimundarson - 25
Ari Leifsson - 26
Kristján Hauksson - 28
Axel Andri Antonsson - 29

Leikir Fylkis 2016:
2. maí Stjarnan - Fylkir
8. Fylkir - Breiðablik
12. maí Valur - Fylkir
16. maí Fylkir - ÍBV
21. maí ÍA - Fylkir
30. maí Fylkir - Fjölnir
5. júní Víkingur Ó. - Fylkir
24. júní FH - Fylkir
28. júní Fylkir - Víkingur R.
11. júlí Þróttur - Fylkir
17. júlí Fylkir - KR
24. júlí Fylkir - Stjarnan
3. ágúst Breiðablik - Fylkir
7. ágúst Fylkir - Valur
14. ágúst ÍBV - Fylkir
22. ágúst Fylkir - ÍA
28. ágúst Fjölnir - Fylkir
11. sept Fylkir - Víkingur Ó.
15. sept Fylkir - FH
18. sept Víkingur R. - Fylkir
25. sept Fylkir - Þróttur
1. okt KR - Fylkir

Spámennirnir: Arnar Daði Arnarsson, Alexander Freyr Einarsson, Elvar Geir Magnússon, Gunnar Birgisson, Hafliði Breiðfjörð, Arnar Geir Halldórsson, Jóhann Ingi Hafþórsson, Magnús Már Einarsson og Magnús Þór Jónsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner