„Stefnan er alltaf sett á að bæta spilamennskuna og sjá hvert það fer með okkur," segir Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkis, um spá Fótbolta.net en liðinu er spáð 7. sæti í Pepsi-deildinni í sumar.
„Frá áramótum hefur verið góður stígandi og gott yfirbragð á liðinu. Það hefur verið stöðugleiki í þessu. Við höfum skorað mikið af mörkum, en það voru vandræði með það í fyrra."
Albert Brynjar Ingason, aðalframherji Fylkis undanfarin ár, hefur lítið sem ekkert verið með í vetur vegna meiðsla.
„Hann er búinn að spila fjórar mínútur eða eitthvað. Hann er að koma til og það er vonandi að það haldi. Hann er mikilvægur leikmaður fyrir okkur og við bindum alltaf vonir við hann. Hann er kominn á fullt og hefur æft eins og skepna í vetur þó að hann hafi ekki verið með boltann á tánum."
Vonast eftir oddatölu á æfingu
Garðar Jóhannsson kom til Fylkis sem spilandi aðstoðarþjálfari í haust og hann hefur spilað talsvert frammi í sumar.
„Það er mikið af litlum köllum fram á við og það er gott að geta haft þennan möguleika fram á við. Hann er frábær fótboltamaður sem kann þetta allt. Hann getur hjálpað til fremst á vellinum."
Hermann var sjálfur spilandi þjálfari hjá ÍBV sumarið 2013 en hann segir erfitt að slíta sig alveg frá boltanum.
„Ég var síðast með á æfingu í gær og var pottþétt í topp tveimur. Maður hefur alltaf jafn gaman að því að fara í fótbolta og svitna aðeins. Maður getur leikið sér hvar sem er og fer frekar í svokallaðan bumbubolta til að svala þeim þorsta. Maður vonast samt alltaf til að það sé oddatala á æfingu," sagði Hermann sem útilokar ekki óvænta endurkomu í sumar. „Ég hef aldrei hætt að gefa kost á mér í landsliðið, til dæmis. Maður bíður alltaf eftir kallinu en það fjarlægis alltaf," sagði Hermann brosandi.
Ekki reynt að fá stjörnur
Fylkir er í leit að markverði til að berjast við Ólaf Íshólm Ólafsson um stöðu í liðinu. Undanfarna daga hefur spænski framherjinn Alvaro Montejo Calleja einnig verið á reynslu hjá Fylki en hann hefur verið með liðinu í æfingaferð á Englandi.
„Ef hann lítur vel út, þá kemur hann með okkur til baka," sagði Hermann um Alvaro.
Hermann fékk David James til ÍBV árið 2013 og reyndi einnig að fá framherjann Benjani sem lék með honum hjá Portsmouth. Hermann hefur ekki reynt að fá einhverja fyrrum liðsfélaga í Árbæinn?
„Nei. Þá var maður nýhættur og þeir á svipuðu reiki. Það er alltaf svolítil ábyrgð sem fylgir því að ná í svona menn og það fer tími í það. Hópurinn var líka klár svo við erum ekki að hópa að okkur leikmönnum að ástæðulausu,"
Lærði á rauðu spjöldunum í fyrra
Hermann tók við Fylki um mitt síðastliðið sumar og fékk tvívegis rautt spjald. Hann fékk tveggja leikja bann eftir næstsíðustu umferðina í fyrra og byrjar því í banni þegar Fylkir heimsækir Stjörnuna í fyrstu umferðinni í ár. Hermann lofar bót og betrun í sumar.
„Maður kom inn um mitt sumar og fór að pirra sig á ótrúlegustu hlutum þegar aðalpirringurinn var sá að maður var ekki sáttur við spilamennskuna eða eitthvað því líkt. Ég lærði helling á þessum seinni hluta í fyrra. Þegar ég var í Eyjum fyrir þremur árum fékk ég ekkert rautt spjald og ég verð silkislakur á hliðarlínunni í sumar. Maður verður að læra af þessu og taka þetta á sig," sagði Hermann.
Garðar aðstoðarþjálfari gæti verið inni á vellinum gegn Stjörnunni en hver stýrir þá liði Fylkis í Garðabænum? „Ætli það verði ekki Valli (Valur Ingi Johansen) liðsstjóri. Honum hefur dreymt um þetta í mörg ár. Ætli hann taki þetta ekki á sig," sagði Hermann léttur.
Hér að ofan má hlusta á viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir