Munu Man Utd og Liverpool berjast um Eze? - Pochettino tekur við Bandaríkjunum - Antony gæti verið lánaður til Tyrklands
banner
   mán 18. apríl 2016 14:00
Elvar Geir Magnússon
Spá Fótbolta.net - 9. sæti: Fjölnir
Danski miðjumaðurinn Martin Lund Pedersen.
Danski miðjumaðurinn Martin Lund Pedersen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Daniel Ivanovski.
Varnarmaðurinn Daniel Ivanovski.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðmundur Karl Guðmundsson.
Guðmundur Karl Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórður Ingason kastar frá marki sínu.
Þórður Ingason kastar frá marki sínu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
U21-landsliðsmaðurinn Viðar Ari Jónsson.
U21-landsliðsmaðurinn Viðar Ari Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að Fjölnismenn hafni í níunda sæti í Pepsi-deildinni í sumar. Fréttaritarar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. Fjölnir endar í 9. sæti.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. Fjölnir 27 stig
10.ÍA 26 stig
11 Víkingur Ólafsvík 24 stig
12. Þróttur 14 stig

Um liðið: Fjölnismenn áttu sveiflukennt tímabil í fyrra, náðu í 17 stig í fyrstu átta umferðunum en þá misstu þeir Daniel Ivanovski og Emil Pálsson úr sínum herbúðum. Félagaskiptaglugginn var nýttur vel og lék Kennie Chopart til dæmis frábærlega á lokasprettinum svo niðurstaðan var mesti stigafjöldi í efstu deild í sögu félagsins. Chopart er horfinn á braut í KR og liðið að stórum hluta byggt upp á nýjum erlendum leikmönnum sem eru óskrifað blað og hreinlega hrikalega erfitt að rýna í liðið.

Þjálfari - Ágúst Gylfason: Hefur verið í Grafarvoginum síðan 2008, kom fyrst sem leikmaður og var svo aðstoðarþjálfari áður en hann tók við sem aðalþjálfari fyrir tímabilið 2012. Ágúst á sér stóra drauma með Fjölni, drauma sem margir telja að séu ekki raunhæfir. Þessi geðþekki þjálfari þekkir hverja þúfu á Fjölnissvæðinu og hefur sýnt mikla færni í að ná því besta út úr sínum leikmönnum.

Styrkleikar: Það er klárlega stefnt hærra en níunda sætið hjá Fjölni og er þessi innflutningur félagsins á erlendum leikmönnum staðfesting á því. Metnaðurinn er svo sannarlega til staðar og leikmenn meðvitaðir um það. Liðið hefur verið að taka skref upp á við undanfarin ár. Samheldni hefur einkennt Fjölnisliðið í mörg ár og mikilvægt að halda í það þrátt fyrir miklar breytingar á hópnum. Fjölnir er erfiður andstæðingur fyrir hvaða lið sem er og ekki ekki ólíklegt að einhver af mörgum ungum leikmönnum félagsins skapi sér nafn í sumar.

Veikleikar: Fjölnir hefur misst gríðarlega öfluga leikmenn frá síðasta ári og það verður alls ekki auðvelt að fylla skarð miðvarðarins og fyrirliðans Bergsveins Ólafssonar, bæði á vellinum og í klefanum. Þá er Aron Sigurðarson farinn út í atvinnumennsku en hann gat boðið upp á óvænta hluti í sóknarleiknum. Fjölnir tekur þátt í útlendingalottóinu og eins og fótboltaáhugafólk veit eru sigurlíkurnar í því ansi misjafnar.

Lykilmenn: Daniel Ivanovski og Guðmundur Karl Guðmundsson. Allir stuðningsmenn Fjölnis fögnuðu þegar fréttir bárust af því að miðvörðurinn Ivanovski væri aftur á leið til félagsins eftir að hafa yfirgefið landið vegna persónulegra ástæðna um mitt mót í fyrra. Að þessu sinni kom fjölskylda hans með honum. Guðmundur Karl er í hópi skemmtilegustu leikmanna deildarinnar. Þessi fjölhæfi leikmaður leggur sig alltaf 100% fram og er Grafarvogsliðinu afar mikilvægur.

Gaman að fylgjast með: Það verður feykilega spennandi að fylgjast með markverðinum Þórði Ingasyni. Hann opnaði sig í eftirminnilegu viðtali eftir að hafa verið settur í agabann fyrir að mæta undir áhrifum áfengis á æfingu. Hann hefur snúið við blaðinu og ákveðinn í að mæta öflugur til leiks í sumar.

Spurningamerkið: Ágúst Gylfason hefur talað um að nú sé ákveðið millibilsár hjá félaginu. Ungir og efnilegir leikmenn séu á leið upp en meðan beðið er eftir þeim verða útlendingar í lykilhlutverkum. Vonandi fyrir Fjölni eru þetta ekki málaliðar sem mættir eru.

Völlurinn: Fjölnisvöllur er með 800 sæti í þaklausri stúku. Afar vinalegt vallarstæði við sundlaugina í Grafarvoginum. Fjölnismenn hafa verið í vinnu við að reyna að auka áhugann fyrir liðinu í hverfinu og fá betri mætingu á völlinn og fróðlegt að sjá hvernig það tekst til.



Stuðningsmaðurinn segir - Svavar Elliði Svavarsson
„Ég spái Fjölni í toppbaráttu í sumar. Þó þeir hafa misst Begga og Aron þá kemur maður í manns stað og er kominn heill útlendingaher af leikmönnum. Svo eru yngri flokkarnir í blússandi siglingu og er ég búin að kynnast því af eigin raun í þjálfun og það gætu þó nokkrir orðið atvinnumenn. Reynsluboltarnir frá því fyrra hafa gríðarlega mikið vægi og ég vona að þeir haldi áfram að spila góðan fótbolta. Ég skil það að sérfræðingar flokki liðið sem ólíkindatól eftir allar breytingarnar á hópnum en ég er fullur bjartsýni og spái Fjölni 4 sæti."

Sjá einnig:
Líklegt byrjunarlið Fjölnis
Guðmundur Karl: Á markmannsstöðuna eftir
Gústi Gylfa: Þetta mót verður eins og enska deildin

Komnir:
Daniel Ivanovski
Igor Jugovic frá Króatíu
Jónatan Hróbjartsson frá ÍR
Marcus Solberg frá Danmörku
Martin Lund Pedersen frá Danmörku
Mario Tadejevic frá Króatíu
Tobias Salquist frá Danmörku

Farnir:
Aron Sigurðarson til Tromsö
Bergsveinn Ólafsson í FH
Illugi Þór Gunnarsson
Jonatan Neftali
Kennie Chopart í KR
Mark Magee til Stratford
Ragnar Leósson í HK

Leikmenn Fjölnis sumarið 2016:
Steinar Örn Gunnarsson - 1
Mario Tadejevic - 2
Daniel Ivanovski - 3
Gunnar Már Guðmundsson - 4
Tobias Salquist - 5
Atli Már Þórbergsson - 6
Viðar Ari Jónsson - 7
Igor Jugovic - 8
Þórir Guðjónsson - 9
Martin Lund Pedersen - 10
Ægir Jarl Jónasson - 11
Þórður Ingason - 12
Ísak Atli Kristjánsson - 14
Guðmundur Böðvar Guðjónsson - 16
Magnús Pétur Bjarnason - 17
Marcus Solberg - 18
Arnór Eyvar Ólafsson - 19
Birnir Snær Ingason - 20
Jónatan Hróbjartsson - 21
Ólafur Páll Snorrason - 22
Torfi Tímoteus Gunnarsson - 24
Anton Freyr Ársælsson - 27
Hans Viktor Guðmundsson - 28
Guðmundur Karl Guðmundsson - 29
Jökull Blængsson - 30

Leikir Fjölnis 2016:
1. maí Valur - Fjölnir
7. maí Fjölnir - ÍBV
12. maí ÍA - Fjölnir
16. maí FH - Fjölnir
22. maí Fjölnir - Víkingur Ó.
30. maí Fylkir - Fjölnir
5. júní Fjölnir - Víkingur R.
15. júní Fjölnir - KR
24. júní Þróttur - Fjölnir
11. júlí Stjarnan - Fjölnir
17. júlí Fjölnir - Breiðablik
24. júlí Fjölnir - Valur
3. ágúst ÍBV - Fjölnir
7. ágúst Fjölnir - ÍA
15. ágúst Fjölnir - FH
21. ágúst Víkingur Ó. - Fjölnir
28. ágúst Fjölnir - Fylkir
11. sept Víkingur R. - Fjölnir
15. sept Fjölnir - Þróttur
19. sept KR - Fjölnir
25. sept Fjölnir - Stjarnan
1. okt Breiðablik - Fjölnir

Spámennirnir: Arnar Daði Arnarsson, Alexander Freyr Einarsson, Elvar Geir Magnússon, Gunnar Birgisson, Hafliði Breiðfjörð, Arnar Geir Halldórsson, Jóhann Ingi Hafþórsson, Magnús Már Einarsson og Magnús Þór Jónsson.
Athugasemdir
banner
banner