Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 11. júlí 2016 14:00
Arnar Daði Arnarsson
Bestur í 9. umferð: Léttara að vakna á morgnana
Garðar Gunnlaugsson (ÍA)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta var hrikalega góður sigur hjá okkur. Við vorum mjög vel skipulagðir í þessum leik og gáfumst ekki upp þó við hefðum lent tvisvar sinnum undir. Það sýnir gríðarlega mikinn karakter í liðinu að koma til baka og vinna þennan leik," sagði sóknarmaður ÍA, Garðar Gunnlaugsson en hann er leikmaður 9. umferðar í Pepsi-deildinni hjá Fótbolta.net.

Garðar var Skagamönnum mikilvægur í 4-3 sigri á Stjörnunni og gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í leiknum. Garðar var þar með fyrsti Skagamaðurinn í rúmlega 10 ár til að skora þrennu í efstu deild.

Landsleikjahléið ákveðinn vendipunktur
„Við ákváðum eftir landsleikjahléið að KR-leikurinn yrði ákveðinn vendipunktur á tímabilinu og okkur hefur tekist það. Síðan fengum við aukið sjálfstraust eftir þann leik. Á móti Stjörnunni fórum við að halda boltanum miklu betur og fórum að spila miklu betri fótbolta en við höfum gert í sumar," sagði Garðar en Skagamenn hafa unnið síðustu tvo leiki sína í deildinni og eru þar með komnir uppúr fallsætinu.

„Ég tel að með hverjum leiknum eykst sjálstraustið hjá okkur. Við erum með fullt af góðum fótboltaleikmönnum í okkar liði. Við höfum alltaf lagt upp svipaða knattspyrnu síðustu ár en það hefur vantað einhvern neista í okkur í byrjun tímabils."

Auðveldara að vera í bæjarfélaginu
Garðar viðurkennir að allt sé töluvert auðveldara þegar vel gengur og sigrarnir tveir gegn KR og Stjörnunni hefur gefið liðinu mikið.

„Það er léttara að vakna á morgnana og vera í bæjarfélaginu. Það skiptir miklu máli fyrir bæjarfélag eins og Akranes hvernig okkur gengur."

„Stemningin í klefanum hefur alltaf verið góð og mun líklega alltaf vera það. Þetta er einstakur hópur af leikmönnum, þetta er allt vinir og flestir eru frá Akranesi. Þeir sem eru aðkomnir smellpassa í hópinn og það hefur alltaf verið stefna ÍA að fá þannig leikmann frekar en að fá góða fótboltamenn sem passa ekki inn í hópinn," sagði Garðar.

Þeir eru sært dýr
Skagamenn mæta Breiðablik í Kópavoginum í kvöld. Garðar segir að allir séu klárir í bátana en leikurinn átti upphaflega að vera spilaður í gær.

„Við bjuggumst við að leikurinn yrði í gær en honum var breytt til dagsins í dag og við erum því ennþá meira tilbúnir en í gær. Þeir eru sært dýr og þau eru aldrei auðveld viðureignar. Við mætum eins og við höfum mætt í síðustu leiki og hugsum um sjálfa okkur.

„Þetta yrði gríðarlega mikilvægur sigur fyrir okkur og myndi aðeins létta undir okkur pressuna," sagði Garðar sem vonast eftir því að stuðningsmenn liðanna í Pepsi-deildinni fari að láta sjá sig á leikjunum í deildinni á ný, eftir EM-ævintýrið.

„Það hefur verið óvenjulega slæm mæting á völlinn að undanförnu. Skagamenn hafa nú alltaf verið duglegir að mæta á leiki og ég er ekki frá því að það hafi verið fleiri stuðningsmenn frá okkur en hjá KR í Frostaskjólinu."

Sjá einnig:
Bestur í 8. umferð - Birnir Snær Ingason (Fjölnir)
Bestur í 7. umferð - Davíð Þór Viðarsson (FH)
Bestur í 6. umferð - Gunnleifur Gunnleifsson (Breiðablik)
Bestur í 5. umferð - Viðar Ari Jónsson (Fjölnir)
Bestur í 4. umferð - Einar Hjörleifsson (Vikingur Ólafsvík)
Bestur í 3. umferð - Heiðar Ægisson (Stjarnan)
Bestur í 2. umferð - Martin Lund Pedersen (Fjölnir)
Bestur í 1. umferð - Aron Bjarnason (ÍBV)
Athugasemdir
banner
banner
banner