Alonso, Neto, Eze, Greenwood, Ramaj, Alli, Son og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mið 18. maí 2016 11:30
Magnús Már Einarsson
Bestur í 4. umferð: Finnst fínt að hreyfa mig
Einar Hjörleifsson (Víkingur Ó.)
Einar Hjörleifsson.
Einar Hjörleifsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er búið að hrósa manni mikið af öllum vígstöðum. Það er gaman og mér þykir vænt um það," segir Einar Hjörleifsson, leikmaður 4. umferðar í Pepsi-deildinni, hjá Fótbolta.net.

Einar átti frábæran dag þegar Víkingur Ólafsvík sigraði ÍA 3-0 í Vesturlandsslag. Einar varði nokkrum sinnum vel í leiknum en hann varði meðal annars vítaspyrnu frá Garðari Gunnlaugssyni.

„Maður reynir að spila eins vel og maður getur. Ég átti ágætis dag og liðið átti fínan dag. Það er þægilegt að spila með þessum strákum. Aleix (Egea) er frekar nýr en það er ekkert mál að spila með honum. Ég þekki Tomasz (Luba) og ég þekki Emir Dokara og þeir hjálpuðu mér þegar þurfti."

Eftir að Víkingur Ólafsvík féll úr Pepsi-deildinni árið 2013 ákvað Einar að leggja hanskana á hilluna. Hann kíkti upp í hillu í vetur, náði í hanskana, og byrjaði aftur í boltanum.

„Maður er hérna fyrir vestan og hafði áfram gaman að því að æfa. Þeir leituðu til mín í vetur og ég ákvað að slá til eftir smá umhugsun. Ég kom mér í ágætis stand og er í ágætis standi. Ég reiknaði ekki með að spila eitthvað en ég vissi að ég yrði að vera klár ef ég þyrfti að spila. Það getur verið erfitt að fá stráka úr bænum til að vera á bekknum hér. Á mínum aldri, þegar maður var hættur, er auðveldara að sætta sig við það."

Einar er sjómaður en eins kom fram í viðtali við Jónas Gest Jónasson, formann Víkings Ólafsvíkur, í gær þá er markvörðurinn síungi duglegur að æfa.

„Mér finnst fínt að hreyfa mig. Það er skemmtilegast í fótbolta en ég hef verið duglegur að mæta í ræktina og halda mér við. Það hefur aðallega verið fyrir eigin heilsu, ekki endilega fyrir fótboltann."

Ólafsvíkingar féllu úr Pepsi-deildinni árið 2013 en þá vann liðið ekki leik fyrr en í níundu umferð. Nú er Víkingur með tíu stig eftir fjóra leiki.

„Stærsti munurinn er sá að við höfum fleiri mörk í liðinu í byrjun móts. Það er ekki bara Tokic heldur líka á miðjunni og vængjunum. Samt erum við þokkalega massífir," sagði Einar en hvað getur Víkingur farið langt í sumar?

„Þetta er erfið spurning. Við höfum markmið núna og það snýst um að tryggja sæti í deild. Það er fullkomlega eðlilegt markmið. Þegar það er tryggt þá geta menn hugsað lengra og búið til ný markmið. Þetta er gömul klisja en þetta er hlutur sem virkar og við vinnum út frá því."

Leikmaður umferðarinnar hjá Fótbolta.net fær pizzuveislu frá Domino's en hvað fær Einar sér á pizzuna? „Ég vil hafa mikið á pizzunni. Domino's Extra er fín. Ætli ég gefi samt ekki strákunum pizzuna, ég þarf enga pizzu," sagði hinn 38 ára gamli Einar.

Sjá einnig:
Bestur í 3. umferð - Heiðar Ægisson (Stjarnan)
Bestur í 2. umferð - Martin Lund Pedersen (Fjölnir)
Bestur í 1. umferð - Aron Bjarnason (ÍBV)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner