Alonso, Neto, Eze, Greenwood, Ramaj, Alli, Son og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 06. júní 2016 11:30
Magnús Már Einarsson
Bestur í 7. umferð: Ekki farinn að læra færeyskuna
Davíð Þór Viðarsson (FH)
Davíð Þór Viðarsson.
Davíð Þór Viðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Fyrir þessa umferð vorum við tvisvar í röð búnir að missa unna leiki niður í jafntefli. Við erum gríðarlega sáttir með að ná að klára þennan leik í gær," sagði Davíð Þór Viðarsson, miðjumaður FH, en hann er leikmaður 7. umferðar í Pepsi-deildinni hjá Fótbolta.net.

Davíð var mjög öflugur á miðjunni hjá FH í 1-0 sigri á Breiðabliki í gær en Kópavogsliðið fékk varla færi í leiknum.

„Við vörðumst hrikalega vel frá fremsta til aftasta mann. Þeir fengu eitt ágætis skallafæri þegar Glenn hitti hann ekki almennilega en fyrir utan það náðum við að loka algjörlega á þá. Við erum búnir að verjast nokkuð vel í byrjun mót og höfum fengið fjögur mörk á okkur í sjö leikjum. Það eina sem við vorum ósáttir með var að halda ekki fókus í lokin í síðustu tveimur leikjum."

FH-ingar eru á toppnum á markatölu eftir sjö umferðir en einungis tvö stig eru niður í fimmta sætið. Kemur það Davíði á óvart hversu jafnt mótið er?

„Ég bjóst alveg við að þetta yrði jafnara en það hefur verið af því að liðin sem hafa ekki verið að berjast á toppnum undanfarin ár haf styrkt sig vel. Þetta kemur samt á óvart. Það kemur á óvart að Víkingur Ólafvík séu með jafnmörg stig og við á toppnum. Fjölnismenn og Vestmannaeyinga hafa líka komið á óvart."

Davíð og Bjarni Þór, bróðir hans, gætu spilað með færeyska landsliðinu í framtíðinni þar sem afi þeirra er þaðan. Davíð á sjö landsleiki að baki með Íslandi en engan mótsleik. Færeyingar kanna nú hvort hann megi spila með þeim.

„Þeir eru að skoða þetta mál og hvort að við getum fengið ríkisborgararétt. Ég veit að það eru til dæmi um það að leikmenn hafa spilað með öðru landsliði ef þeir hafa ekki spilað keppnisleik í undankeppni EM eða HM. Undankeppni HM byrjar í september og þetta þarf að koma í ljós fyrir það. Þeir eru að athuga þetta og ég er silkislakur og sef alveg á næturnar," sagði Davíð sem er spenntur fyrir því að spila með Færeyingum.

„Þetta er skemmtilegt tækifæri. Það hafa alltaf verið sterk tengsl við Færeyjar í föðurfjölskyldunni og það er smá Færeyingur í mér. Það væri mjög gaman ef það eru not fyrir mann að geta reynt að hjálpa til. Vonandi er þetta möguleiki og gengur eftir en við þurfum að bíða og sjá. Ég er ekki ennþá farinn að læra færeyskuna," sagði Davíð léttur.

Sjá einnig:
Bestur í 6. umferð - Gunnleifur Gunnleifsson (Breiðablik)
Bestur í 5. umferð - Viðar Ari Jónsson (Fjölnir)
Bestur í 4. umferð - Einar Hjörleifsson (Vikingur Ólafsvík)
Bestur í 3. umferð - Heiðar Ægisson (Stjarnan)
Bestur í 2. umferð - Martin Lund Pedersen (Fjölnir)
Bestur í 1. umferð - Aron Bjarnason (ÍBV)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner