Heiðar Ægisson - Stjarnan
Hinn tvítugi Heiðar Ægisson var hreinlega magnaður í liði Stjörnunnar sem rúllaði yfir Þrótt 6-0 í Pepsi-deildinni síðasta fimmtudag. Hann lék í hægri bakverði og var með stöðugar áætlunarferðir upp vænginn og réðu nýliðarnir ekkert við hann.
Fótbolti.net og Domino's hafa valið Heiðar leikmann 3. umferðar en hann viðurkennir að hafa ekki búist við þessum yfirburðum sem Stjarnan hafði í leiknum.
Fótbolti.net og Domino's hafa valið Heiðar leikmann 3. umferðar en hann viðurkennir að hafa ekki búist við þessum yfirburðum sem Stjarnan hafði í leiknum.
„Ég bjóst ekki við þessu fyrir leik. Þróttarar eru nýkomnir upp og við sáum alveg hvað þeir gátu gert í seinasta leik á móti KR. Við vorum staðráðnir í að vera ekki með neitt vanmat og mæta allir 100% til leiks," segir Heiðar en hvernig metur hann sína persónulegu frammistöðu?
„Ég myndi segja að þetta væri einn af mínum betri leikjum en þegar þú hefur svona gott lið í kringum þig þá er auðvelt að láta hlutina gerast."
Kann vel við mig sem bakvörður
Heiðar hefur fest sig í sessi sem hægri bakvörður hjá Stjörnunni en það er staða sem hann spilaði ekki í yngri flokkum.
„Ég kann vel við mig sem bakvörður þó þetta sé aðeins annað tímabilið mitt í þessari stöðu. Þegar ég var yngri var ég sóknarmaður og það kemur sér vel í þessari stöðu þar sem ég vil taka sem mestan þátt í sóknarleiknum," segir Heiðar en hann og Ævar Ingi Jóhannesson, kantmaður sem kom frá KA í vetur, náðu gríðarlega vel saman gegn Þrótturum.
„Þetta hefur gengið vel hjá okkur og er ég mjög ánægður hvernig samstarf okkar Ævars hefur gengið á hægri vængnum og ég held að þetta eigi bara eftir að verða betra."
Léttara á mönnum í klefanum
Stjarnan stóð engan veginn undir væntingum í titilvörn sinni í fyrra. Er munur á andanum innan hópsins núna og í fyrra?
„Já ég myndi segja það. Það er aðeins léttara á mönnum í klefanum og liðið er mjög samstillt í öllu sem það gerir þar sem við róum allir í átt að sama markmiðinu. Markmið mín eru þau sömu og fyrir allt liðið og það er að vinna þennan titil," segir Heiðar en hann segir að byrjun mótsins hafi ekki komið sér á óvart.
„Nei það hefur svo sem ekkert komið mér sérstaklega á óvart í byrjun móts en gaman að sjá að það virðist vera svo að allir geta unnið alla í þessari deild."
Sjá einnig:
Bestur í 2. umferð - Martin Lund Pedersen (Fjölnir)
Bestur í 1. umferð - Aron Bjarnason (ÍBV)
Athugasemdir