Aron Bjarnason - ÍBV
„Þetta var svo sannarlega draumabyrjun. Við erum mjög sáttir við þetta en vitum að þetta er bara einn leikur," segir Aron Bjarnason, leikmaður ÍBV, sem valinn hefur verið besti leikmaður 1. umferðar Pepsi-deildarinnar að mati Fótbolta.net og Domino's.
Eyjamenn voru á eldi gegn ÍA á Hásteinsvelli og unnu 4-0 sigur. Aron var þar gríðarlega ógnandi en hann skoraði annað mark sinna manna og lagði einnig upp mark. Það var vel mætt á leikinn og góð stemning.
„Það var hörkustemning í Eyjum enda íþróttadagur og fullt af fólki á vellinum. Það var bara virkilega skemmtilegt að byrja með svona markaleik."
Örugglega ódýr í Draumaliðsdeildinni
Aron er hæstánægður með að byrja tímabilið á þennan veg persónulega.
„Jú það er lykilatriði tel ég. Það er gott að komast af stað strax. Í fyrra byrjaði ég ekki nægilega vel og mjög gott að komast af stað með marki og stoðsendingu," segir Aron en líklegt er að margir spilarar í Draumaliðsdeildinni fjárfesti í honum. Hann mælir allavega með því sjálfur.
„Jú klárlega. Ég er örugglega ódýr svo þetta hljóta að vera kjarakaup. Ég mun gera mitt allra besta í því að skila stigum til þeirra sem veðja á mig."
Beinskeyttur fótbolti sem virkar
Þessi byrjun hefur örugglega skotið einhverjum Eyjamönnum fram úr sér í bjartsýninni en hversu langt getur þetta ÍBV lið farið?
„Fyrstu fimm til sex leikirnir eru okkur mjög mikilvægir. Ef við náum að byrja vel þá eru okkur allir vegir færir. Það er lykilatriði að byrja mótið vel og fyrsti leikurinn fór allavega vel. Vonandi höldum við þessu áfram," segir Aron.
Markvörðurinn Derby Carrillo átti flottan leik og var líkt og Aron valinn í úrvalslið umferðarinnar. Derby hélt hreinu ásamt því að vera fljótur að koma boltanum í leik.
„Þetta er flottur karakter og mjög gaman að honum. Hann byrjaði mjög vel í fyrsta leik. Hann hefur ekki verið lengi hjá okkur og við vissum ekki alveg hvað hann gæti en hann sýndi að hann er hörkumarkvörður og mun reynast okkur vel."
Hvað hefur Bjarni Jóhannsson, sem tók við ÍBV eftir síðasta tímabilið, komið með inn í liðið?
„Hann hefur myndað flotta stemningu og hefur búið til flott lið. Þetta er beinskeyttur fótbolti sem virkar. Hann hefur gert fína hluti," segir Aron sem fær pizzuveislu frá Domino's sem leikmaður umferðarinnar og mælum við með því að lesendur prófi hans uppáhalds pizzu. „Það er ekkert flókið. Kjötveisla mínus skinka. Pepperoni og nautahakk."
Athugasemdir