Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   sun 04. september 2016 14:10
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Efasemdarraddir heyrast í Úkraínu
Elvar Geir Magnússon skrifar frá Kænugarði
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
Shevchenko stýrir úkraínska landsliðinu.
Shevchenko stýrir úkraínska landsliðinu.
Mynd: Getty Images
Það hefur lent ansi oft á íslenska landsliðinu síðustu ár að mæta liðum sem eru nýkomin með nýjan þjálfara og eykur það flækjustigið fyrir okkar þjálfarateymi í undirbúningnum.

Hvað mun Andriy Shevchenko, nýr landsliðsþjálfari Úkraínu, bjóða upp á gegn Íslandi á morgun? Vonbrigðin á Evrópumótinu voru mikil hjá heimamönnum á meðan við böðuðum okkur í veislu sem aldrei mun gleymast.

Úkraína skoraði ekki fótboltamark á mótinu og fór stigalaust heim.

Shevchenko tók við sem aðalþjálfari eftir mótið og stýrir sínum fyrsta leik sem slíkur á morgun. Í sumar var hann hinsvegar aðstoðarþjálfari og ber klárlega sína ábyrgð á því að illa fór.

Shevchenko er goðsögn hér í Úkraínu. Allar auglýsingar fyrir sjónvarpsútsendinguna frá leiknum hérna snúast um hann. Nærmyndir af honum jakkafataklæddum að herða bindishnútinn og gera sig kláran í leikinn. Undir hljómar dramatísk tónlist.

Shevchenko skoraði alls 48 mörk fyrir úkraínska landsliðið og átti afar farsælan atvinnumannaferil. Öflugur markaskorari sem mun alltaf lifa í úkraínskum íþróttasögubókum.

En hvort hann sé góður þjálfari er spurning sem ekki er hægt að svara núna. Við höfum spjallað við nokkra úkraínska íþróttafréttamenn og enginn þeirra er viss um þjálfarahæfileika hans. Einhverjir leyfðu sér meðal annars að efast stórlega. Eins og sagan hefur oft sýnt þá er oft ekkert samhengi milli þess að vera magnaður leikmaður og góður þjálfari. Sem þjálfari er ekki komin reynsla á hann.

Shevchenko er ákaflega vinsæll meðal fótboltaáhugafólks í landinu, skiljanlega. Hann hefði klárlega fengið höfðinglegar móttökur á vellinum á morgun ef ekki væri fyrir þetta margumtalaða heimaleikjabann.

Bannið bitnar ekki bara á úkraínskum fótboltaáhugamönnum. Við hittum fimm Íslendinga í gær, einn af þeim er búsettur hér í Kænugarði en hinir eru hjá honum í heimsókn. Þeir eru mikið til í að sjá strákana okkar á morgun og þrátt fyrir tilraunir til krókaleiða er ómögulegt að fá að horfa nema í gegnum sjónvarp. Þeir missa af leiknum vegna kynþáttaníðs frá úkraínskum bullum.

Vonandi er Shevchenko dapur þjálfari. Það þarf þó alls ekki að vera.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner