Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 08. mars 2018 16:02
Elvar Geir Magnússon
Guðjón: Hélt fyrst að Berbatov væri leiðinlegur
Dimitar Berbatov í búningi Kerala.
Dimitar Berbatov í búningi Kerala.
Mynd: Kerala Blasters
Stjörnumaðurinn Guðjón Baldvinsson var í skemmtilegu viðtali í Innkastinu í dag þar sem hann ræddi dvöl sína hjá Kerala Blasters í Indlandi.

Meðal samherja Guðjóns var búlgarski sóknarmaðurinn Dimitar Berbatov sem lék áður með Tottenham og Manchester United. Berbatov náði ekki að sýna sínar bestu hliðar á Indlandi enda kominn yfir sitt léttasta skeið.

„Hann var eitthvað að glíma við meiðsli og var að skríða úr þeim þegar ég kom. Hann er með besta „touch" sem ég hef séð á æfingum. Hann var aldrei með neina stæla og var bara flottur. Hann var bara með sinn leikstíl, fá boltann í fætur og skila honum frá sér," segir Guðjón.

Ljóst er að Berbatov er ekki á leið aftur til Kerala Blasters því eftir tímabilið hraunaði hann yfir David James þjálfara.

„Ég veit ekki hvort hann hafi verið orðinn þreyttur á að vera þarna en það var einhver pirringur í lokin, ég veit ekki ástæðuna. Svo endar þetta með þessum ummælum hans. Þau komu mér rosalega á óvart því hann var alltaf jákvæður í kringum liðið, svo kemur þessi sprengja. Við hinir leikmennirnir ræddum þetta og enginn sá merki um að þetta væri á leiðinni," segir Guðjón.

Hann er ekki sammála Berbatov um þjálfarahæfileika James.

„Alls ekki. Hann gerði vel með þann hóp sem hann er með. Við vorum að vinna leiki og vorum óheppnir að komast ekki í úrslitakeppnina."

Berbatov hefur magnaða fótboltahæfileika, en hvernig persóna er hann utan vallar og í klefanum?

„Hann er náungi sem vill bara vera út af fyrir sig og lokar sig svolítið af. Þegar ég kom fyrst hélt ég að hann væri leiðinlegur en svo þegar maður talaði við hann þá var hann þvílíkt almennilegur og gott að spjalla við hann. En hann vill vera út af fyrir sig, borða á sér stað og vera á sér stað í flugvélinni. Menn eru misjafnir," segir Guðjón.

Hann segir að Wes Brown, fyrrum varnarmaður Manchester United sem einnig spilaði með Kerala, sé allt öðruvísi karakter og mun opnari. Allt viðtalið við Guðjón má nálgast hérna eða í Podcast forritum.
Athugasemdir
banner
banner
banner