Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 21. febrúar 2017 11:10
Elvar Geir Magnússon
Guardiola leynir ekki aðdáun sinni á Monaco
Radamel Falcao æfir með Monaco á Etihad leikvanginum.
Radamel Falcao æfir með Monaco á Etihad leikvanginum.
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola er hrifinn af Monaco.
Pep Guardiola er hrifinn af Monaco.
Mynd: Getty Images
Manchester City fær Monaco í heimsókn í kvöld í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Pep Guardiola, stjóri City, leynir ekki aðdáun sinni á andstæðingunum og það er augljóst að sjá ástæðuna.

Til marks um hversu öflugt Monaco er má skoða tölfræðina og bera liðið saman við Paris Saint-Germain sem slátraði Barcelona 4-0 í síðustu viku. Monaco hefur skorað 76 mörk í 26 leikjum á tímabilinu, PSG 50 mörk. Monaco trónir á toppi frönsku deildarinnar og horfir þar niður til PSG.

Monaco hefur skorað fjögur mörk eða fleiri í tíu leikjum í deildinni heima fyrir. Meðal annars 7-0 gegn Metz. Monaco er sóknarglaðasta lið Evrópu.

Leonardo Jardim og lærisveinar hafa þegar unnið Tottenham heima og úti í Meistaradeildinni, unnu 2-1 í bæði skiptin.

„Fyrsta markið þeirra gegn Tottenham var fyrirgjöf frá bakverði og skalli frá hinum bakverðinum. Það er ekki auðvelt. Sem áhorfandi er rosalega gaman að sjá þá spila. Ég er mjög hrifinn af þessu liði og hversu gott það er," segir Guardiola.

„Bakverðirnir spila eins og þeir séu vængmenn, vængmennirnir spila eins og sóknarmiðjumenn. Sóknarmennirnir, Falcao og Germain, eru bardagamenn og stórhættulegir í teignum. Varnarmiðjumennirnir, Silva og Bakoyoko, eru snjallir og líkamlega sterkir. Ekkert lið í Evrópu á auðveldara með að skora mörk."

„Ég veit hversu gott lið PSG er en Monaco er ofar í deildinni. Það sýnir hversu gott starf Jardim hefur unnið. Franska deildin er venjulega varnarsinnuð en Monaco skorar og skorar."

„Ég biðla til leikmanna minna að njóta stundarinnar því hún er falleg. Allir í Evrópu munu fylgjast með okkur," segir Guardiola.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19:45.
Athugasemdir
banner
banner