Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   mán 25. apríl 2016 11:00
Elvar Geir Magnússon
Spá Fótbolta.net - 2. sæti: Stjarnan
Skellir Stjarnan sér í titilbaráttuna?
Skellir Stjarnan sér í titilbaráttuna?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Guðjón Baldvinsson.
Sóknarmaðurinn Guðjón Baldvinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Reynsluboltinn Veigar Páll Gunnarsson.
Reynsluboltinn Veigar Páll Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hilmar Árni kom frá Leikni.
Hilmar Árni kom frá Leikni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bakvörðurinn Hörður Árnason.
Bakvörðurinn Hörður Árnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjar Gauti Guðjónsson.
Brynjar Gauti Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jeppe Hansen.
Jeppe Hansen.
Mynd: Fótbolti.net
Í dag er komið að því að kynna þau tvö lið sem höfnuðu í efstu tveimur sætum í spá Fótbolta.net fyrir Pepsi-deildina. Fréttaritarar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. Stjarnan endar í öðru sæti í þessari spá.

Spáin:
1. FH 96 stig
2. Stjarnan 81 stig
3. KR 75 stig
4. Breiðablik 70 stig
5. Valur 64 stig
6. Víkingur R. 61 stig
7. Fylkir 44 stig
8. ÍBV 42 stig
9. Fjölnir 27 stig
10.ÍA 26 stig
11 Víkingur Ólafsvík 24 stig
12. Þróttur 14 stig

Um liðið: Stjarnan varð Íslandsmeistari 2014 í fyrsta sinn í sögu félagsins. Eftir það draumatímabil kom hrap í fyrra þar sem liðið byrjaði Íslandsmótið illa. Lykilmenn frá árinu á undan náðu sér engan veginn á strik. Liðið var aldrei líklegt til að verja titil sinn og var komið nokkuð nálægt botninum þegar það vaknaði til lífsins á lokasprettinum og náði á endanum að klifra upp í fjórða sætið. Stjarnan hefur verið öflug á leikmannamarkaðinum í vetur og fengið góða fótboltamenn og sterka karaktera til sín.

Þjálfari - Rúnar Páll Sigmundsson: Þjálfari ársins í íslenskum íþróttum 2014, átti draumatímabil á sínu fyrsta ári sem þjálfari Stjörnunnar. Eftir vonbrigðin í fyrra þurfti Rúnar að taka aðeins til í hópnum og hefur svo sannarlega gert það. Stjarnan er með teymi í kringum liðið sem er í algjörum toppklassa og þar hefur enn frekar verið bætt við. Umgjörðin kringum liðið er fyrsta flokks.

Styrkleikar: Síðasta tímabil á að hafa gríðarlega lærdómsríkt fyrir Stjörnuna. Ef þeir lærðu á því koma þeir sterkari til baka. Stjarnan hefur styrkt sig með mjög öflugum og spennandi leikmönnum og hefur gríðarlega öflugan hóp. Breiddin er mikil og liðið verður með vopn á bekknum sem geta breytt leikjum. Föst leikatriði voru akkilesarhæll Garðabæjarliðsins en þeir hafa lagað það vandamál með leikmannakaupum sínum. Eru með hráefni í að taka þátt í titilbaráttunni og ef leikmenn sem voru skugginn af sjálfum sér í fyrra stíga upp eru allir vegir færir.

Veikleikar: Það hefur verið töluvert um meiðsli í leikmannahópi Stjörnunnar og miklar breytingar á byrjunarliðinu. Eru þjálfararnir pottþéttir á því hvað er þeirra sterkasta lið? Markvörðurinn Duwayne Kerr er enn ekki kominn með leikheimild og þarf að venjast því strax að spila með nýjum mönnum þar sem hann hefur ekkert leikið. Breiddin er mikil og Rúnar og félagar þurfa að halda mönnum ánægðum sem eru fyrir utan liðið, eitthvað sem gæti reynst snúið. Í fyrra áttu andstæðingar Stjörnunnar ekki í mjög miklum vandræðum með að að lesa þá og loka fyrir þeirra aðgerðir.

Lykilmenn: Daníel Laxdal og Baldur Sigurðsson. Hjarta Daníels slær með Stjörnunni. Hann býr yfir mikilli reynslu og var einn besti leikmaður deildarinnar þegar Stjarnan hampaði Íslandsmeistaratitlinum. Baldur er heldur betur hvalreki fyrir Stjörnuna en hann er kominn heim á klakann eftir að hafa verið í atvinnumennsku í Danmörku. Leiðtogi sem gerir menn í kringum sig betri.

Gaman að fylgjast með: Hilmar Árni Halldórsson og Ævar Ingi Jóhannesson. Tveir gríðarlega áhugaverðir leikmenn. Hilmar var potturinn og pannan í sóknarleik Leiknis á síðasta tímabili og gæti blómstrað enn frekar með betri leikmenn í kringum sig. Ævar hefur verið frábær fyrir KA í 1. deildinni og er ákveðinn í að sýna sig og sanna í deild þeirra bestu.

Spurningamerkið: Eyjólfur Héðinsson. Gríðarlega reyndur leikmaður sem hefur verið í atvinnumennsku undanfarin níu ár. Eyjólfur hefur glímt við erfið meiðsli síðastliðin ár og lítið spilað. Ef hann nær sér heilum gæti hann verið í hópi bestu leikmanna deildarinnar.

Völlurinn: Samsung völlurinn í Garðabæ. Völlur þar sem hægt er að búa til góða „gryfjustemningu" og vonandi verður Silfurskeiðin skemmtilega öflug í sumar. Stjörnumenn voru liða fyrstir á gervigrasvagninn og nú hafa mun fleiri félög fylgt í kjölfarið.



Stuðningsmaðurinn segir - Viktor Hrafn Hólmgeirsson
„Við Stjörnumenn erum vægast sagt mjög spenntir fyrir komandi tímabili. Forráðamenn félagsins hafa verið duglegir á markaðnum og hefur leikmannahópurinn líklega aldrei verið jafn sterkur. Vegna meiðsla lykilmanna hefur Rúnar Páll ekki haft mikinn tíma til að finna sitt sterkasta byrjunarlið, og í rauninni er afar fátt vitað um hvernig hann mun stilla liðinu upp í fyrsta leik. Ef Stjarnan ætlar að vera í titilbaráttu er nauðsynlegt að byrja tímabilið af krafti og það er því afar mikilvægt að byrjunarliðið smelli strax í fyrsta leik þrátt fyrir að hafa spilað lítið saman á undirbúningstímabilinu.

„Stærsta áskorun þjálfaranna verður líklega að halda öllum leikmönnum liðsins sáttum, enda liggur það ljóst fyrir að margir sterkir leikmenn munu þurfa að eyða drjúgum hluta af tímabilinu á bekknum. Það er mikilvægt að allir rói í sömu átt og séu sáttir við sitt hlutskipti. Ef það tekst ekki er ég hræddur um að róðurinn verði erfiður. Það er einnig mjög mikilvægt að gera heimavöllinn aftur að því vígi sem hann eitt sinn var. Í fyrra gekk illa að safna stigum á heimavelli og það þarf klárlega að breytast. Ég hvet svo alla til að fylgjast vel með Hilmari Árna Halldórssyni í sumar; hann gæti reynst okkur Stjörnumönnum afar drjúgur. Þar er á ferðinni afar klókur leikmaður sem getur leyst margar stöður á vellinum. Hilmar hefur líklega verið besti leikmaður liðsins á undirbúningstímabilinu og hann mun klárlega koma mörgum Garðbæingum á óvart."


Sjá einnig:
Líklegt byrjunarlið Stjörnunnar
Rúnar Páll: Alltaf einhver óánægður
Baldur Sig: Verða ekki mörg lið að berjast um titilinn

Komnir:
Baldur Sigurðsson SönderjyskE
Duwayne Kerr frá Sarpsborg
Eyjólfur Héðinsson Midtjylland
Grétar Sigfinnur Sigurðarson frá KR
Guðjón Orri Sigurjónsson frá ÍBV
Hilmar Árni Halldórsson frá Leikni R.
Ævar Ingi Jóhannesson frá KA

Farnir:
Arnar Darri Pétursson í Þrótt
Atli Freyr Ottesen í Leikni R. á láni
Garðar Jóhannsson í Fylki
Gunnar Nielsen í FH
Kári Pétursson í Leikni R. á láni
Michael Præst í KR
Pablo Punyed í ÍBV
Þórhallur Kári Knútsson í Víking Ó. á láni

Leikmenn Stjörnunnar sumarið 2016:
Duwayne Kerr - 1
Sveinn Sigurður Jóhannesson - 25
Guðjón Orri Sigurjónsson - 27
Brynjar Gauti Guðjónsson - 2
Aron Rúnarsson Heiðdal - 3
Jóhann Laxdal - 4
Grétar Sigfinnur Sigurðsson - 5
Þorri Geir Rúnarsson - 6
Guðjón Baldvinsson - 7
Baldur Sigurðsson - 8
Daníel Laxdal - 9
Veigar Páll Gunnarsson - 10
Arnar Már Björgvinsson - 11
Heiðar Ægisson - 12
Hörður Árnason - 14
Hilmar Árni Halldórsson - 15
Ævar Ingi Jóhannesson - 16
Ólafur Karl Finsen 17
Jón Arnar Barðdal 18
Jeppe Hansen 19
Eyjólfur Héðinsson 20
Snorri Páll Blöndal 21
Halldór Orri Björnsson 23
Brynjar Már Björsson 24
Kristófer Konráðsson 26
Kristófer Ingi Kristinsson 28
Alex Þór Hauksson 29

Leikir Stjörnunnar 2016:
2. maí Stjarnan - Fylkir
8. maí Víkingur R. - Stjarnan
12. maí Stjarnan - Þróttur
17. maí KR - Stjarnan
23. maí Stjarnan - FH
30. maí Stjarnan - Breiðablik
5. júní Valur - Stjarnan
23. júní Stjarnan - ÍBV
29. júní ÍA - Stjarnan
11. júlí Stjarnan - Fjölnir
17. júlí Víkingur Ó. - Stjarnan
24. júlí Fylkir - Stjarnan
4. ágúst Stjarnan - Víkingur R.
8. ágúst Þróttur - Stjarnan
15. ágúst Stjarnan - KR
22. ágúst FH - Stjarnan
28. ágúst Breiðablik - Stjarnan
11. sept Stjarnan - Valur
15. sept ÍBV - Stjarnan
19. sept Stjarnan - ÍA
25. sept Fjölnir - Stjarnan
1. okt Stjarnan - Víkingur Ó.

Spámennirnir: Arnar Daði Arnarsson, Alexander Freyr Einarsson, Elvar Geir Magnússon, Gunnar Birgisson, Hafliði Breiðfjörð, Arnar Geir Halldórsson, Jóhann Ingi Hafþórsson, Magnús Már Einarsson og Magnús Þór Jónsson.
Athugasemdir
banner