Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   mið 12. maí 2010 07:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 4. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Valgeir Kárason
Mynd: Valgeir Kárason
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: BÍ/Bolungarvík
Mynd: BÍ/Bolungarvík
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í fjórða sæti í þessari spá var BÍ/Bolungarvík sem fékk 182 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um BÍ/Bolungarvík


4. BÍ/Bolungarvík
Búningar: Blá treyja, rauðar stuttbuxur, bláir sokkar.
Heimasíða: http://www.bibol.is
Lokastaða í fyrra: 5.sæti í 2.deild

Mikill uppgangur hefur verið í knattspyrnunni á Vestfjörðum undanfarin ár. Eftir mörg mögur ár ákváðu BÍ og Bolungarvík að sameinast árið 2006 og sú ákvörðun hefur borgað sig. BÍ/Bolungarvík fór upp úr þriðju deildinni sumarið 2008 og í fyrra endaði liðið í fimmta sæti í annarri deildinni. Menn á Vestfjörðum setja síðan stefnuna á að fara ennþá hærra á næstu árum.

Dragan Kazic hætti sem þjálfari BÍ/Bolungarvíkur í fyrra og í hans stað tók Alfreð Elías Jóhannsson við liðinu. Alfreð Elías er reynslubolti sem hefur látið til sín taka bæði frammi og í vörninni á ferlinum. Líklegt er að hann muni leika í vörninni hjá BÍ/Bolungarvík og við hlið hans verður væntanlega annar reynslubolti, Dalibor Nedic. Dalibor kom til BÍ/Bolungarvíkur frá Víkingi Ó. í vetur en hann og Alfreð hafa leikið saman í vörninni hjá Ólafsvíkingum.

BÍ/Bolungarvík hefur haldið sama kjarnanum í liðinu undanfarin ár. Liðið varð þó fyrir mikilli blóðtöku fyrir nokkrum vikum þegar Goran Vujic sleit krossband í leik gegn Hvöt í Lengjubikarnum. Goran hefur verið potturinn og pannann í sóknarleik Vestfirðinga undanfarin ár og því er afar slæmt fyrir liðið að missa hann.

Milan Ceran og Milos Vukcevic, sem léku með BÍ/Bolungarvík í fyrra, eru farnir en í staðinn er miðjumaðurinn Milan Krivokapic kominn til félagsins. Á dögunum fékk BÍ/Bolungarvík síðan mjög góðan liðsstyrk þegar Pétur Runólfsson ákvað að leika með liðinu í sumar. Pétur er uppalinn á Bolungarvík en hann hefur verið fastamaður í liði ÍBV undanfarin ár.

Að auki hefur BÍ/Bolungarvík unga og efnilega leikmenn innan sinna raða. Emil Pálsson er einungis sextán ára gamall en hann hefur leikið með liðinu undanfarin tvö ár og er núna orðinn fyrirliði. Emil var eftirsóttur af liðum af höfuðborgarsvæðinu síðastliðið haust en ákvað að taka eitt ár í viðbót á heimaslóðum. Annar athyglisverður leikmaður er kantmaðurinn Andri Rúnar Bjarnason sem hefur verið öflugur upp við mark andstæðinganna undanfarin tvö tímabil.

Í fyrra var BÍ/Bolungarvík lengi vel í toppbaráttunni í annarri deildinni en einungis sex stig úr síðustu fimm leikjunum bundu enda á möguleika á 1.deildarsæti. Í ár er stefnan sett hærra hjá BÍ/Bolungarvík og liðið hefur alla burði til þess að blanda sér í toppbaráttuna. Í Lengjubikarnum sigraði BÍ/Bolungarvík alla leiki sína í riðlinum sannfærandi og skoraði 22 mörk í fimm leikjum en sóknarleikurinn er öflugur með Pétur Geir Svavarsson uppi á topp.

Mikil stemning er á heimaleikjum BÍ/Bolungarvíkur en í fyrra tapaði liðið einungis tvívegis heima. Knattspyrnáhuginn á Vestfjörðum er að aukast og ánægjulegt er að sjá að þessi landshluti er kominn með öflugt fótboltalið á nýjan leik en spennandi verður að sjá hvernig BÍ/Bolungarvík mun vegna næstu árin.

Styrkleikar: Heimavöllurinn er góður og það er erfitt fyrir lið að sækja sigur á Vestfirðina. Leikmannahópurinn hefur verið nánast sá sami í nokkur ár og samheldnin er mikil. Sóknarleikurinn hefur einnig verið öflugur og miðað við markaskorun að undanförnu ætti markaþurrð ekki að hrjá BÍ/Bolugarvík í sumar.

Veikleikar: Alfreð Elías er óreyndur þjálfari og spurning er hvernig honum mun vegna í þjálfarastöðunni. Nokkrir leikmenn hafa verið að bætast í leikmannahópinn á síðustu stundu og einnig hafa nokkrir leikmenn verið í Reykjavík í skóla í vetur. Því gæti tekið smá tíma að slípa liðið betur saman.

Þjálfari: Alfreð Elías Jóhannsson (Fæddur: 1976):

Alfreð Elías Jóhannsson hefur nánast enga reynslu af þjálfun fyrir utan það þegar hann stýrði GG í þriðju deildinni fyrir nokkrum árum. Alfreð Elías er reyndur leikmaður en á ferli sínum hefur hann spilað með Grindavík, Njarðvík, GG, Sindra og síðast Víkingi Ólafsvíki og Stjörnunni í fyrra.

Í sumar mun Alfreð vera spilandi þjálfari hjá BÍ/Bolungarvíkur en á varamannabekknum er hann með Jóhann Króknes Torfason sér til aðstoðar. Jóhann er af gamla skólanum og hefur marga fjöruna sopið í boltanum og því gott fyrir Alfreð að hafa hann sér við hlið.


Lykilmenn: Dalibor Nedic, Emil Pálsson, Pétur Runólfsson.

Þrír fyrstu leikir sumarsins: ÍH (Úti), KV (Heima), Hvöt (Úti)


Komnir:
Alfreð Elías Jóhannsson frá Stjörnunni
Dalibor Nedic frá Víkingi Ó.
Guðmundur Björn Þorbjörnsson frá Skallagrími
Milan Krivokapic frá Armeníu
Pétur Runólfsson frá ÍBV

Farnir:
Goran Vujic meiddur út tímabilið
Kristján Fannar Ragnarsson í Magna
Milan Ceran til Serbíu
Milos Vukcevic til Svartfjallalands


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. BÍ/Bolungarvík 182 stig
5. Völsungur 158 stig
6. Afturelding 152 stig
7. KS/Leiftur 148 stig
8. Höttur 99 stig
9. Víðir Garði 80 stig
10. ÍH 73 stig
11. Hamar 50 stig
12. KV 35 stig
banner
banner
banner
banner