Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   þri 11. maí 2010 07:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 5. sæti
Mynd: Aðalsteinn Á. Baldursson
Mynd: Hafþór Hreiðarsson
Mynd: Hafþór Hreiðarsson
Mynd: Hafþór Hreiðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hrannar Björn Steingrímsson
Mynd: Hafþór Hreiðarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í fimmta sæti í þessari spá var Völsungur sem fékk 158 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Völsung.


5. Völsungur
Búningar: Græn treyja, hvítar stuttbuxur, grænir sokkar.
Heimasíða: http://www.volsungur.is og http://www.123.is/volsungur
Lokastaða í fyrra: 1.sæti í 3.deild

Völsungur var með ungt og skemmtilegt lið í annarri deildinni 2008 og það var því reiðarslag fyrir fótboltann á Húsavík þegar liðið féll niður í þriðju deild. Í stað þess að leggjast í volæði þá þjöppuðu Húsvíkingar sér saman og langflestir af ungu leikmönnunum héldu tryggð við Völsung. Það skilaði sér í fyrra því að Völsungur rúllaði upp þriðju deildinni og tapaði ekki leik.

Völsungur leikur því í annarri deildinni á nýjan leik í sumar og liðið ætti að vera reynslunni ríkari núna. Fyrirliðar og þjálfarar spá því í það minnsta að liðið nái mun betri árangri en 2008 og það er alls ekki óeðlileg spá miðað við gengi liðsins á undirbúningstímabilinu.

Leikmenn Völsungs eru mun reyndari nú en fyrir tveimur árum og liðið tapaði varla leik í vetur. Völsungur sigraði Soccerademótið þar sem liðið lagði meðal annars bæði KA og Þór. Þá fór Völsungur í úrslitaleikinn í B deild Lengjubikarsins en varð að lúta í lægra haldi gegn Víkingi Ólafsvík.

Litlar breytingar hafa verið á liði Völsungs frá því á síðustu leiktíð. Hermann Aðalgeirsson kom sterkur inn í úrslitakeppnina með liðinu í fyrra en hann hefur ekkert leikið með liðinu í vetur þar sem hann hefur veri að einbeita sér að námi. Boban Jovic, miðjumaðurinn reyndi, hefur einnig ákveðið að leggja skóna á hilluna en hann á fjölmarga leiki að baki með Völsungi.

Sveinbjörn Ingi Grímsson, sem varði mark Völsungs í fyrra, fór einnig í Hött í vetur. Í stað hans hefur Völsungur fengið markvörðinn stóra og stæðilega Steinþór Má Auðunsson frá KA. Þá er Jónas Halldór Friðriksson einnig kominn aftur í Völsung eftir að hafa leikið með Magna undanfarin tvö ár.

Margir spennandi leikmenn eru í leikmannahópi Völsungs. Þar má meðal annars nefna Elfar Árna Aðalsteinsson sem var valinn efnilegasti leikmaðurinn í 2.deildinni árið 2008. Í fyrra sló Elfar Árni hvergi af en hann skoraði 15 mörk í 18 leikjum í þriðju deildinni og það mun mikið mæða á honum í sumar. Hrannar Björn Steingrímsson er annar athyglisverður leikmaður hjá Völsungi en hann er sprækur kantmaður og er núna að hefja sitt þriðja tímabil í meistaraflokki þrátt fyrir að vera einungis 17 ára gamall.

Spennandi verður að fylgjast með Völsungi í sumar en leikmenn liðsins hafa leikið lengi saman og góð stemning er í leikmannahópi Húsvíkinga. Knattspyrnuáhuginn hefur alltaf verið mikill á Húsavík og ef liðið heldur áfram á sömu braut er ekki langt í að Völsungur komist upp í fyrstu deildina á nýjan leik. Hvort það takist í sumar verður tíminn að leiða í ljós en ljóst er að framtíðin er björt á Húsavík.

Styrkleikar: Stemningin gæti fleytt Húsvíkingum langt en leikmannahópurinn er nánast óbreyttur þriðja árið í röð og liðið er vel spilandi. Sóknarleikurinn er ekki vandamál hjá Völsungi en liðið er með spræka leikmenn fram á við. Heimavöllurinn er líka öflugur en liðið sigraði alla leiki sína þar í fyrra nema einn sem endaði með jafntefli.

Veikleikar: Leikmenn liðsins eru ungir og bregðast stundum illa við mótlæti. Markvarðarstaðan er spurningamerki en Steinþór Már er nokkuð óreyndur í meistaraflokki. Breiddin mætti einnig vera meiri auk þess sem að reyndasti leikmaður liðsins er einungis 28 ára.

Þjálfari: Jóhann Kristinn Gunnarsson (Fæddur: 1979):

Jóhann Kristinn Gunnarsson er að þjálfa meistaraflokk karla hjá Völsungi annað árið í röð. Í fyrra þjálfaði Jóhann Kristinn lið Völsungs ásamt Jóhanni Rúnari Pálssyni. Jóhann Rúnar hefur núna dregið sig í hlé en Jóhann Kristinn hefur fengið hinn reynda Guðna Rúnar Helgason sem aðstoðarþjálfara.

Auk þess að þjálfa meistaraflokk karla þá stýrði Jóhann Kristinn líka meistaraflokki kvenna hjá Völsungi í fyrra. Árið 2008 þjálfaði hann einnig meistaraflokk kvenna hjá Völsungi.


Lykilmenn: Aron Bjarki Jósepsson, Elfar Árni Aðalsteinsson, Kristján Gunnar Óskarsson.

Fyrstu þrír leikir sumarsins: Hamar (Úti), Höttur (Úti), Víðir (Úti)


Komnir:
Jónas Halldór Friðriksson frá Magna
Steinþór Már Auðunsson frá KA

Farnir:
Boban Jovic hættur
Halldór Fannar Júlíusson til Danmerkur
Hermann Aðalgeirsson hættur
Svavar Cesar Hjaltested í Víking R.
Sveinbjörn Ingi Grímsson í Hött


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. Völsungur 158 stig
6. Afturelding 152 stig
7. KS/Leiftur 148 stig
8. Höttur 99 stig
9. Víðir Garði 80 stig
10. ÍH 73 stig
11. Hamar 50 stig
12. KV 35 stig
banner
banner
banner