Real Madrid setur Alexander-Arnold í forgang - Barella orðaður við mörg félög - Tekur Montella við af Ten Hag? - Liverpool horfir á varnarmann Sevilla
   sun 09. maí 2010 07:00
Magnús Már Einarsson
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 7. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Valgeir Kárason
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í sjöunda sæti í þessari spá var KS/Leiftur sem fékk 148 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um KS/Leiftur.


7. KS/Leiftur
Búningar: Blá treyja, bláar stuttbuxur, bláir sokkar.
Heimasíða: http://www.siglo.is/ks og http://www.leiftur.is
Lokastaða í fyrra: 8.sæti í 2.deild

Eftir að hafa fallið úr fyrstu deildinni árið 2008 þá sigldi KS/Leiftur lygnan sjó í annarri deildinni í fyrra þar sem niðurstaðan varð að lokum áttunda sæti. Samkvæmt spá þjálfara og fyrirliða mun KS/Leiftur einnig sigla lygnan sjó í sjöunda sætinu í ár en menn þar á bæ stefna hins vegar ofar.

KS/Leiftur hefur haldið flestum leikmönnum sínum síðan í fyrra og auk þess fengið nokkra leikmenn til liðs við sig í vetur. Þorvaldur Sveinn Guðbjörnsson er kominn aftur í vörnina eftir að hafa leikið með KA í fyrra og kantmaðurinn Þorsteinn Þorvaldsson er kominn til KS/Leifturs frá Magna.

Gamla kempan Hörður Már Magnússon skipti á dögunum yfir í KS/Leiftur. Hörður, sem er 38 ára, lék með Leiftri á sínum tíma og þekkir til fyrir Norðan. Serbneski miðjumaðurinn Milan Lazarevic kom líka til KS/Leifturs á dögunum en hann mun væntanlega fylla skarð Guðjóns Gunnarssonar sem var í láni frá Breiðablik á síðustu leiktíð. Einnig hefur KS/Leiftur fengið aftur nokkra unga Ólafsfirðinga og Siglfirðinga sem hafa leikið með öðrum félögum í öðrum flokki undanfarin ár.

Í fyrra var þjálfarinn Ragnar Hauksson allt í öllu í sóknarleik KS/Leifturs. Ragnar, sem er 34 ára, var markahæstur í annarri deildinni í fyrra en hann skoraði 18 af 44 mörkum KS/Leifturs og skapaði auk þess mörg marktækifæri. Ragnar skoraði fimm mörk í jafnmörgum leikjum í Lengjubikarnum í vor og ljóst er að hann verður afar skeinuhættur í fremstu víglínu í sumar líkt og undanfarin ár.

Í fyrra var Benis Krasniqi næstmarkahæstur hjá KS/Leiftri með sex mörk en hann er horfinn á braut til Reynis Sandgerði. Aðrir leikmenn skoruðu fjögur mörk eða minna í fyrra og því er mikilvægt fyrir KS/Leiftur að aðrir leikmenn finnni líka markaskóna til að ábyrgðin frammi liggi ekki öll á Ragnari.

Auk Ragnars hefur KS/Leiftur reynslubolta eins og fyrirliðann Agnar Sveinsson, Hörð Má, Heiðar Gunnólfsson og Þorvald Svein Guðbjörnsson en þessir leikmenn hafa marga fjöruna sopið í boltanum í gegnum tíðina.

Breiddin hjá KS/Leiftri er betri en oft áður og ekki er loku fyrir það skotið að liðið eigi eftir að fá meiri liðsstyrk fyrir leikinn gegn Víði í fyrstu umferð um næstu helgi. KS/Leiftur ætti því að hafa leikmannahóp til að gera atlögu að því að fara ofar en í fyrra.

Stígandi hefur verið í leik KS/Leifturs í vetur og hársbreidd munaði að liðið kæmist í undanúrslit Lengjubikarsins. KS og Leiftur hafa bæði leikið í efri deildum í gegnum tíðina auk þess sem sameinað lið félaganna lék í fyrstu deildinni 2008 og ljóst er að metnaður er fyrir því að ná lengra í Fjallabyggð en spáin segir til um.

Styrkleikar. Leikmannahópurinn virðist sterkari hjá KS/Leiftri en í fyrra og breiddin er meiri auk þess sem heimamenn eru í stóru hlutverki. Ragnar er einn öflugasti framherji deildarinnar og hann skilar alltaf fullt af mörkum. Reynslan ætti einnig að vera styrkur hjá KS/Leiftri en liðið hefur nokkra leikmenn sem hafa leikið í fyrstu og efstu deild.

Veikleikar: Það getur verið erfitt að halda úti sameiginlegu liði en 50 mínútna keyrsla er á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Æfingaaðstaðan hefur ekki verið upp á það besta í vetur og því gæti tekið smá tíma að slípa liðið saman. Útivöllurinn var ekki besti vinur KS/Leifturs í fyrra þar sem liðið náði einugis í tvo útisigra.
Þjálfari: Ragnar Hauksson (Fæddur: 1976):

Ragnar Hauksson hefur verið spilandi þjálfari hjá KS/Leiftri frá því árið 2006 þegar hann tók við liðinu af Marko Tanasic. Ragnar hefur leikið með KS og síðar KS/Leiftri lengst af á ferlinum fyrir utan nokkur ár hjá ÍA.

Ragnar kom KS/Leiftri upp í fyrstu deild á sínu fyrsta ári sem þjálfari en liðið féll beint aftur og endaði síðan í áttunda sæti í annarri deildinni í fyrra. Ragnar er mjög mikilægur hlekkur í leik KS/Leifturs og ljóst er að mikið mun mæða á honum inni á vellinum í sumar sem og í þjálfuninni.


Lykilmenn: Agnar Þór Sveinsson, Ragnar Hauksson, Þorvaldur Sveinn Guðbjörnsson.


Komnir:
Aron Ingi Kristinsson frá KR á láni
Eiríkur Ingi Magnússon frá HK á láni
Hörður Már Magnússon frá Carl
Ingimar Elí Hlynsson frá Þór
Kristófer Númi Hlynsson frá Þór
Milan Lazarevic frá Hvöt
Þorsteinn Þorvaldsson frá Magna
Þorvaldur Sveinn Guðbjörnsson frá KA

Farnir:
Grétar Bragi Hallgrímsson í Draupni
Guðjón Gunnarsson í Breiðablik
Benis Krasniqi í Reyni S.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. KS/Leiftur 148 stig
8. Höttur 99 stig
9. Víðir Garði 80 stig
10. ÍH 73 stig
11. Hamar 50 stig
12. KV 35 stig
banner
banner