Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   þri 04. maí 2010 07:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 12. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Vilhjálmur Siggeirsson
Mynd: Jón Örvar Arason
Mynd: KV
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í tólfa og neðsta sæti í þessari spá voru nýliðar KV sem fengu 35 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um KV.


12. KV
Búningar: Svört og hvít treyja, svartarar buxur, svartir sokkar.
Heimasíða: http://www.fckv.com
Lokastaða í fyrra: 2.sæti í 3.deild

Árið 2005 tók KV, Knattspyrnufélag Vesturbæjar, þátt í deildarkeppni í fyrsta sinn. Síðan þá hefur félaginu vaxið fiskur um hrygg og í sumar leikur það í annarri deild í fyrsta skipti. Árið 2008 komst KV í undanúrslit í úrslitakeppni þriðju deildarinnar og í fyrra náði liðið að klára dæmið og komast upp. Þá sigraði KV lið Ýmis 2-1 samanlagt í undanúrslitunum. Ótrúleg stemning var á síðari leiknum í Vesturbæ þar sem áhorfendur fjölmenntu á KV Park og sáu KV vinna 2-0.

Leikmenn og stuðningsmenn KV fögnuðu sætinu í annarri deild ógurlega í leikslok en samkvæmt spá þjálfara og fyrirliða mun liðið ekki staldra lengi við í deildinni. Liðinu er spáð neðsta sæti og sú spá er kannski ekki óeðlileg miðað við gengi KV í Lengjubikarnum þar sem liðið vann einungis einn leik, gegn 3.deildarliði Ýmis.

Ljóst er að KV notaði Lengjubikarinn til að slípa liðið betur saman fyrir átökin í sumar en alls fengu 26 leikmenn tækifæri í mótinu. Í fyrra spiluðu alls 34 leikmenn með liðinu í þriðju deildinni eða meira en þrjú heil byrjunarlið. Mikilvægt er fyrir KV að finna réttu blönduna fyrir sumarið enda slæmt að gera svona margar breytingar á liðinu á milli leikja.

KV varð fyrir mikilli blóðtöku í vetur þegar Magnús Bernhard Gíslason og Steindór Oddur Ellertsson ákváðu að ganga í raðir nágrannanna í Gróttu. Þeir hafa báðir verið í lykilhlutverki hjá KV undanfarin ár og skoruðu til dæmis mörkin í 2-0 sigrinum á Ými síðastliðið haust. Auk þess sleit varnarmaðurinn Stefán Halldór Jónsson krossband en hann verður líklega ekkert með KV í sumar af þeim sökum.

KV hefur fengið nokkra leikmenn til sín í vetur og á dögunum fékk liðið til dæmis framherjann unga Hrein Bergs á láni frá KR en hann hefur leikið með yngri flokkum HK. Ekki er ólíklegt að KV eigi eftir að styrkja sig meira fyrir mót en félagið gæti til að mynda fengið unga leikmenn á láni frá KR.

Nokkrir sprækir leikmenn eru innan raða KV og má þar meðal annars nefna kantmanninn Örn Arnaldsson en faðir hans er metsölu rithöfundurinn Arnaldur Indriðason. Ef markaskorun kappans verður eitthvað í líkindu við bókasölu föðursins eiga andstæðingar KV ekki von á góðu. Tveir aðrir lykilmenn, Björn Ívar Björnsson og Halldór Ágúst Ágústsson eru að glíma við meiðsli og óvíst er hvort þeir verði klár fyrir mót.

Flestir leikmenn KV spiluðu upp yngri flokka KR og þekkjast því vel og stemningin innan hópsins er góð. Liðið hefur alla tíð spilað á gervigrasvelli KR og tengingin við stórveldið sést einnig í búningum félagsins sem eru svartir og hvítir. Í gegnum tíðina hefur KV oft á tíðum tekið hlutina mátulega alvarlega en núna er liðið komið upp í aðra deild þar sem meiri alvara er í gangi. Spurningin er hvort að liðið nái að fylgja góðum árangri í fyrra eftir í annarri deildinni í sumar en ljóst er að spennandi verður að fylgjast með KV í sumar.

Styrkleikar: Heimavöllur KV, KV-park, getur verið mjög öflugur og þá sérstaklega þegar að áhorfendur flykkjast á völlinn líkt og í úrslitakeppninni í fyrra. Liðið ætti einnig að hagnast á því að vera eina liðið í deildinni sem spilar alla heimaleiki sína á gervigrasi. Stemningin í leikmannahópnum gæti einnig fleytt KV lengra en spáin segir til um.

Veikleikar: Liðið missti tvo af sínum sterkustu leikmönnum í vetur og óvíst er með styrk leikmannahópsins. Flestir leikmenn KV hafa litla reynslu af því að leika í annarri deildinni og sumarið verður mikil prófraun fyrir félagið í heild sinni. Ef KV byrjar illa gæti það haft slæm áhrif á liðið enda oft erfitt fyrir nýliða að ná sér á strik ef þeir byrja illa.

Þjálfari: Gumundur Óskar Pálsson (Fæddur 1984):

Guðmundur Óskar Pálsson tók við liði KV síðastliðið haust. Guðmundur Óskar er einn af stofnendum félagsins og þekkir því vel til þar. Í fyrra stýrði Páll Kristjánsson liði KV en hann er formaður félagsins og verður Guðmundi innan handar í sumar.

Guðmundur Óskar þjálfaði yngri flokka KR áður en hann tók við HK/Víkingi haustið 2008. Hann náði fínum árangri með HK/Víkingi í fyrra en liðið komst í úrslitakeppnina í fyrstu deild kvenna. Guðmundur er 25 ára og því yngsti þjálfarinn í annarri deildinni í ár.


Lykilmenn: Björn Ívar Björnsson, Halldór Ágúst Ágústsson, Örn Arnaldsson

Fyrstu þrír leikir sumarsins: Víkingur Ó. (Úti), BÍ/Bolungarvík (Úti), KS/Leiftur (Heima)


Komnir:
Böðvar Schram frá KR
Egill Ólafsson frá KR
Halldór Svavar Sigurðsson frá Hömrunum
Hreinn Bergs frá KR á láni
Ingvar Rafn Stefánsson frá Fjarðabyggð
Jason Már Bergsteinsson frá Gróttu
Magnús Helgason frá Víkingi R.

Farnir:
Baldur Þórólfsson í Val
Magnús Bernhard Gíslason í Gróttu
Steindór Oddur Ellertsson í Gróttu


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. KV 35 stig
banner