Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.
Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í áttunda sæti í þessari spá var Höttur sem fékk 99 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Hött.
8. Höttur
Búningar: Hvít treyja, svartar buxur, hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.hottur.blogdrive.com/
Lokastaða í fyrra: 7.sæti í 2.deild
Höttur endaði í sjöunda sæti í annarri deildinni í fyrra og samkvæmt spá þjálfara og fyrirliða mun liðið enda einu sæti neðar í ár. Njáll Eiðsson hætti sem þjálfari Hattar í fyrra eftir þriggja ára starf og Jón Páll Pálmason tók við skútunni af honum. Jón Páll er ungur og óreyndur þjálfari í meistaraflokki en hann hefur náð fínum árangri með yngri flokka FH undanfarin ár.
Höttur varð fyrir blóðtöku í vetur þegar að varnarmennirnir Rafn Heiðdal og Víglundur Páll Eiríksson ákváðu að róa á önnur mið. Rafn ákvað að semja við Fjarðabyggð í fyrstu deildinni en Víglundur Páll hélt til Noregs þar sem hann mun spila í sumar. Að auki hefur markvörðurinn Oliver Bjarki Ingvarsson þurft að draga sig í hlé vegna meiðsla á hné. Í hans stað hefur Höttur fengið markvörðinn Þóri Guðnason á láni frá Haukum auk þess sem Sveinbjörn Ingi Grímsson kom frá Völsungi fyrr í vetur. Bjarni Viðar Hólmarsson er einnig hjá Hetti eins og í fyrra og því hefur liðið þrjá unga markverði innan sinna raða.
Sigurður Donys Sigurðsson samdi einnig við Hött síðastliðið haust. Sigurður Donys er hæfileikaríkur leikmaður en undanfarin ár hefur hann verið á talsverðu flakki á milli félaga. Í fyrra lék hann með uppeldisfélagi sínu Einherja á Vopnafirði og skoraði grimmt. Ljóst er að mikið mun mæða á honum í sóknarleik Hattar í sumar.
Að öðru leyti hafa verið nokkuð litlar breytingar hjá Hetti og heimamenn bera liðið uppi líkt og undanfarin ár. Nokkrir spennandi ungir strákar hafa öðlast dýrmæta reynslu með Hetti undanfarin ár og þeir gætu sprungið út í sumar. Til að mynda skoraði framherjinn efnilegi Garðar Már Grétarsson fimm mörk í jafnmörgum leikjum í Lengjubikarnum. Óttar Steinn Magnússon kemur einnig aftur til Hattar á láni frá Grindavík eins og í fyrra og hann gæti spilað nokkuð stórt hlutverk í liðinu. Fyrirliðinn Stefán Þór Eyjólfsson verður einnig í stóru hlutverki hjá Hetti líkt og áður en hann ákvað að vera áfram hjá félaginu þrátt fyrir áhuga annars staðar frá.
Spilamennska Hattar í Lengjubikarnum var þokkaleg en liðið fékk sjö stig úr leikjunum fimm. Höttur sigraði Magna og Tindastól úr þriðju deild og gerði jafntefli við Dalvík/Reyni. Liðið tapaði síðan gegn KS/Leiftri og naumlega gegn Völsungi. Erfitt er að dæma Hattarliðið út frá þessum úrslitum en liðið gat ekki notað sína sterkustu menn í öllum leikjunum. Eins er ekki ólíklegt að Höttur fái liðsstyrk áður en mótið hefst eftir viku.
Höttur er núna að hefja sitt fjórða tímabil í röð í annarri deildinni en á þessum tíma hefur liðið endaði í sjötta, sjöunda og níunda sæti. Hattarliðið er ungt og ljóst er að gott uppbyggingarstarf er í gangi fyrir Austan en samkvæmt spánni þarf að bíða aðeins lengur í að það skili sér betur. Hins vegar eru forsendur fyrir því að liðið geti orðið öflugt á næstu árum ef það heldur áfram að halda tryggð við unga heimastráka.
Styrkleikar: Lið Hattar er byggt upp á heimamönnum og Hattarhjartað gæti fleytt liðinu langt í sumar. Margir af ungu strákunum í liðinu hafa fengið dýrmæta reynslu undanfarin ár og það gæti skilað sér ef þeir ná að springa út í sumar. Varnarleikurinn hefur verið öflugur hjá Hetti og fyrra var liðið með þriðju bestu vörnina í 2.deildinni á eftir liðunum sem fóru upp. Reyndar er spurning hvort varnarleikurinn verði jafn sterkur í ár eftir brotthvarf lykilmanna.
Veikleikar: Jón Páll er óreyndur í meistaraflokksþjálfun en hann hefur meira þjálfað í 7-manna bolta í gegnum tíðina. Breiddin í leikmannahópi Hattar er heldur ekki mikil en liðið gæti þó fengið liðsstyrk áður en mótið hefst. Heimavöllurinn verður einnig að skila fleiri stigum í ár heldur en í fyrra og hitteðfyrra þar sem hægt hefur verið að telja sigrana á fingrum annarar handar.
Þjálfari: Jón Páll Pálmason (Fæddur: 1982):
Jón Páll Pálmason er að stíga sín fyrstu skref sem þjálfari meistaraflokks. Jón Páll hefur þjálfað yngri flokka FH frá því árið 2003 með góðum árangri.
Á þeim tíma hefur hann orðið Íslandsmeistari sex sinnum með 4. 5. og 6. flokki auk þess þess að hafa unnið Shell mótið í Vestmannaeyjum og N1 mótið á Akureyri. Jón Páll þjálfaði lið Hattar á höfuðborgarsvæðinu í vetur áður en hann flutti á Egilsstaði í síðasta mánuði.
Jón Páll Pálmason er að stíga sín fyrstu skref sem þjálfari meistaraflokks. Jón Páll hefur þjálfað yngri flokka FH frá því árið 2003 með góðum árangri.
Á þeim tíma hefur hann orðið Íslandsmeistari sex sinnum með 4. 5. og 6. flokki auk þess þess að hafa unnið Shell mótið í Vestmannaeyjum og N1 mótið á Akureyri. Jón Páll þjálfaði lið Hattar á höfuðborgarsvæðinu í vetur áður en hann flutti á Egilsstaði í síðasta mánuði.
Lykilmenn: Anton Ástvaldsson, Sigurður Donys Sigurðsson, Stefán Þór Eyjólfsson.
Fyrstu þrír leikir sumarsins: Afturelding (Heima), Völsungur (Heima), Reynir S. (Heima)
Komnir:
Elmar Bragi Einarsson frá Huginn
Jörgen Sveinn Þorvarðarson frá Huginn
Óttar Steinn Magnússon frá Grindavík á láni
Sigurður Donys Sigurðsson frá Einherja
Sveinbjörn Ingi Grímsson frá Völsungi
Vignir Þór Bollason frá FH
Þórir Guðnason á láni frá Haukum
Farnir:
Ívar Karl Hafliðason í Spyrni
Oliver Bjarki Ingvarsson hættur
Rafn Heiðdal í Fjarðabyggð
Víglundur Páll Eiríksson til Noregs
Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. Höttur 99 stig
9. Víðir Garði 80 stig
10. ÍH 73 stig
11. Hamar 50 stig
12. KV 35 stig