Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   fös 07. maí 2010 07:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 9. sæti
Mynd: Jón Örvar Arason
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Víðir Garði
Mynd: Halldór Rósmundur Guðjónsson
Mynd: Halldór Rósmundur Guðjónsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í tíunda sæti í þessari spá var Víðir Garði sem fékk 80 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Víðismenn.


9. Víðir
Búningar: Blá og hvít treyja, bláar buxur, bláir sokkar.
Heimasíða:
Lokastaða í fyrra: 9.sæti í 2.deild

Það hafa orðið miklar breytingar í Garðinum síðan í fyrra. Steinar Ingimundarson hætti sem þjálfari eftir gott þriggja ára starf og Jakob Már Jónharðsson tók við keflinu eftir að hafa þjálfað Þrótt Vogum undanfarin ár. Breytingarnar hafa ekki einungis verið í þjálfarastöðunni því að leikmannahópurinn hefur tekið stakkaskiptum. 26 leikmenn léku með Víði í annarri deildinni í fyrra en einungis sex þeirra komu við sögu hjá liðinu í Lengjubikarnum í vor.

Nokkrir máttarstólpar í liðinu undanfarin ár eru horfnir á braut. Markvörðurinn Rúnar Dór Daníelsson fór í Grindavík og bróðir hans, Einar Daníelsson, hefur ekkert leikið með Víðismönnum að undanförnu. Kantmaðurinn knái Haraldur Axel Einarsson fór í Njarðvík og Marko Blagojevic, Marko Cenic og Nebojsa Stankovic fóru aftur til Serbíu.

Í þeirra stað hefur Jakob Már fengið marga unga leikmenn frá Keflavík og Njarðvík auk þess sem nokkrir leikmenn fylgdu honum frá Þrótti Vogum. Fyrr í vetur kræktu Víðismenn líka í reynsluboltann Goran Lukic sem hefur leikið með Haukum undanfarin ár. Goran þekkir vel til í Garðinum því Víðir var fyrsta félagið hans á Íslandi og hann lék þar frá 1997-2000 þegar hann fór í Grindavík.

Fyrr í vikunni fengu Víðismenn einnig öflugan liðsstyrk þegar að Darko Milojkovic og Bojan Vranic komu frá Serbíu. Darko er sterkur miðjumaður sem þekkir íslenska boltann vel eftir að hafa leikið með nágrönnum Víðis í Reyni Sandgerði frá 2006-2008. Darko verður líkt og Goran Lukic 38 ára á þessu ári en þeir eru þrátt fyrir að báðir í fínu standi.

Markvarðarstaðan hefur verið dálítið spurningamerki hjá Víði í vetur en liðið þurfti meðal annars að nota aðstoðarþjálfarann Zivko Boloban í einum leik í Lengjubikarnum en hann er 44 ára og lék síðast deildarleik árið 2003. Bojan Vranic kom hins vegar í vikunni og Víðismenn binda miklar vonir við hann í markinu.

Í vetur hefur varnarleikurinn ekki verið nógu sterkur hjá Víðismönnum en það hafa þó verið batamerki þar á undanfarnar vikur og liðið virðist vera að slípa sig betur saman. Mikilvægt er fyrir Víðismenn að byrja betur en í fyrra en þá krækti liðið í fyrsta sigurinn í tíundu umferð. Eftir það tapaði liðið einungis þremur leikjum og endaði á því að sigla lygnan sjó í níunda sæti, sama sæti og liðinu er spáð í ár.

Hluta af uppsveiflunni í fyrra má rekja til þess að Björn Bergmann Vilhjálmsson kom aftur til Víðis í júlí í fyrra eftir að hafa leikið í nokkra mánuði í Noregi. Björn Bergmann er öflugur framherji sem hefur lengi verið lykilmaður hjá Víði og ljóst er að hann þarf að ná sér á strik í sumar ef liðið ætlar að enda ofar en spáin segir til um.

Styrkleikar: Reynsla Darko Milojkovic og Goran Lukic gæti vegið þungt fyrir Víðismenn í sumar. Serbneski markvörðurinn Bojan Vranic gæti einnig hjálpað liðinu mikið sem og Björn Bergmann ef hann nær sér á strik í fremstu víglínu. Í Garðinum er einnig metnaður fyrir því að gera vel og umgjörðin í kringum liðið er ávallt góð.

Veikleikar: Víðismenn mæta með nánast nýtt lið frá því í fyrra og spurning er hvernig liðinu tekst að stilla saman strengi sína en margir leikmenn hafa litla sem enga reynslu af því að spila í annarri deild. Heimavöllurinn skilaði ekki nægilega miklu hjá Víði í fyrra og mikilvægt er fyrir félagið að gera Garðsvöll aftur að því vígi sem það hefur oft verið.

Þjálfari: Jakob Már Jónharðsson (Fæddur: 1971):

Jakob var varnarjaxl á árum áður en hann lék lengi með Keflavík og um tíma í atvinnumennsku áður en hann neyddist til að leggja skóna á hilluna þrítugur að aldri vegna meiðsla.

Jakob var aðstoðarþjálfari hjá Keflavík áður en hann stýrði Reyni Sandgerði í fyrstu deildinni árið 2007. Um haustið það ár tók hann við Þrótti Vogum og stýrði liðinu í tvö ár áður en að hann tók við stjórnvölunum hjá Víði Garði eftir síðasta tímabil.


Komnir:
Albert Karl Sigurðsson frá Þrótti V.
Bjarki Þór Frímannsson frá Þrótti V.
Bojan Vranic frá Serbíu
Darko Milojkovic frá Serbíu
Davíð Már Gunnarsson frá Keflavík
Garðar Eðvaldsson frá Keflavík
Goran Lukic frá Haukum
Helgi Sigurjón Ólafsson frá Keflavík
Jóhann Baldur Bragason frá Njarðvík
Jón Oddur Sigurðsson frá Njarðvík
Jón Ingi Skarphéðinsson frá Njarðvík
Reynir Þór Valsson frá Þrótti V.
Tómas Karl Kjartansson frá Keflavík á láni

Farnir:
Arthur Kristján Staub í Leikni R.
Atli Þór Ólason í Dalvík/Reyni
Haraldur Axel Einarsson í Njarðvík
Marko Blagojevic til Serbíu
Nebojsa Stankovic til Serbíu
Ottó Marinó Ingason í Fjölni
Rúnar Dór Daníelsson í Grindavík

Lykilmenn: Björn Bergmann Vilhjálmsson, Darko Milojkovic, Goran Lukic.

Þrír fyrstu leikir sumarsins: KS/Leiftur (Heima), Afturelding (Úti), Völsungur (Heima)


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. Víðir Garði 80 stig
10. ÍH 73 stig
11. Hamar 50 stig
12. KV 35 stig
banner
banner
banner
banner