Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.
Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í tíunda sæti í þessari spá var ÍH sem fék 73 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um ÍH
10. ÍH
Búningar: Blá treyja, hvítar buxur, bláir sokkar.
Heimasíða:
Lokastaða í fyrra: 6.sæti í 2.deild
Íþróttafélag Hafnarfjarðar náði í fyrra sínum besta árangri frá upphafi þegar liðið endaði í sjötta sæti í annarri deildinni. Í fyrra var ÍH reyndar með sameinað lið ásamt Hömrunum/Vinum en í vetur var því samstarfi slitið og félagið heitir því ÍH á nýjan leik. ÍH er nú að hefja sitt fjórða tímabil í deildinni en samkvæmt spá þjálfara og fyrirliða mun gengi liðsins ekki vera jafn gott í sumar og í fyrra.
Eins og oft áður þá hafa orðið talsverðar breytingar á liði ÍH á milli ára. 29 leikmenn komu við sögu hjá liðinu í fyrra og hluti af þeim hefur horfið á braut. Markvörðurinn Hannes Rúnar Hannesson er á meðal þeirra en hann gekk í raðir Reynis í vetur eftir að hafa verið valinn bestur á lokahófi ÍH/HV í fyrra. Í hans stað hefur ÍH fengið markvörðinn Jón Kolbein Guðjónsson sem hefur staðið á milli stanganna hjá Huginn undanfarin ár. Daníel Einarsson, miðjumaðurinn öflugi, fór einnig í Hauka og það er skarð fyrir skyldi hjá ÍH.
Í fyrra var félagaskiptakóngurinn Hallur Kristján Ásgeirsson öflugur í fremstu víglínu hjá ÍH en hann var markahæsti leikmaður liðsins með átta mörk. Hallur ákvað að gulltryggja Íslandsmetið og bæta einum félagaskiptum við í safnið í vetur þegar hann gerðist spilandi þjálfari hjá Þrótti Vogum. Í stað hans hefur ÍH fengið framherjann Andra Björn Sigurðsson á láni frá ÍR. Þessi 21 árs gamli framherji hefur byrjað vel hjá ÍH en hann skoraði þrjú mörk í fjórum leikjum í Lengjubikarnum og hefur einnig skorað í æfingaleikjum að undanförnu.
ÍH hefur einnig fengið nokkra reynslubolta til liðs við sig í vetur og þar má nefna Brynjólf Bjarnason og Edilon Hreinsson frá Gróttu. Að auki er reynsluboltinn Óli Jón Kristinsson í vörninni hjá ÍH en hann lék alla leiki liðsins í fyrra og verður líka án efa í stóru hlutverki í ár. Þá urðu einnig breytingar í þjálfaramálum hjá ÍH en Mikael Nikulásson, sem hefur stýrt liðinu undanfarin ár, hefur núna fengið Brynjar Þór Gestsson sér við hlið og munu þeir stýra ÍH saman í sumar.
Félagið er sem fyrr í samstarfi við Hauka og nokkrir ungir leikmenn hafa komið þaðan í vetur. Annar flokkur Hauka leikur undir nafninu Haukar/ÍH og því eru leikmenn þar skráðir í ÍH til að þeir geti leikið með liðinu í sumar. Fleiri ungir strákar gætu einnig gengið til liðs við ÍH frá Haukum áður en mótið hefst. ÍH mun líka nýta sér félagsaðstöðu Hauka og leika á Ásvöllum þriðja árið í röð en áður lék liðið heimaleiki sína í Kaplakrika.
ÍH gekk ágætlega í Lengjubikarnum og liðið hefur burði til að enda ofar en spáin segir til um. Í fyrra sigraði ÍH bæði Njarðvík og Reyni Sandgerði og gerði jafntefli við Gróttu en þetta voru þrjú liðin sem enduðu í þremur efstu sætunum. Ljóst er að ekkert lið getur bókað sigur gegn ÍH í sumar en spennandi verður að sjá hvort liðið nái að fylgja eftir árangrinum síðan í fyrra.
Styrkleikar: ÍH er með reynsubolta innan sinna raða sem og unga og spræka stráka og það ætti að vera góð blanda. Í fyrra var liðið nokkuð erfitt heim að sækja en einungis þrjú lið fóru með sigur burt frá Ásvöllum. Góður árangur í fyrra ætti einnig að gefa liðinu byr undir báða vængi í ár.
Veikleikar: Nokkrar breytingar eru á liðinu í fyrra og spurning er hvernig liðinu gengur að fylla skarðið sem Hannes, Daníel og Hallur skilja eftir sig. ÍH hefur oft þurft að gera nokkuð margar breytingar á liði sínu á milli leikja og það sýndi sig í Lengjubikarnum í vor þar sem einungis fjórir leikmenn komu við sögu í öllum fimm leikjum liðsins.
Þjálfarar: Brynjar Þór Gestsson og Mikael Nikulásson (Fæddir 1974):
Mikael Nikulásson er að hefja sitt fjórða tímabil sem þjálfari ÍH en hann hefur núna fengið Brynjar Þór Gestsson sér við hlið. Brynjar og Mikael eru jafnaldrar en þeir hafa áður unnið saman.
Brynjar þjálfaði Huginn árið 2005 þegar Mikael lék með liðinu. Mikael kom einnig örlítið við sögu hjá Álftanesi sumarið 2007 þegar Brynjar þjálfaði liðið en síðar það tímabil tók Mikael við þjálfun ÍH og hann hefur haldið liðinu í annarri deild síðan þá..
Mikael Nikulásson er að hefja sitt fjórða tímabil sem þjálfari ÍH en hann hefur núna fengið Brynjar Þór Gestsson sér við hlið. Brynjar og Mikael eru jafnaldrar en þeir hafa áður unnið saman.
Brynjar þjálfaði Huginn árið 2005 þegar Mikael lék með liðinu. Mikael kom einnig örlítið við sögu hjá Álftanesi sumarið 2007 þegar Brynjar þjálfaði liðið en síðar það tímabil tók Mikael við þjálfun ÍH og hann hefur haldið liðinu í annarri deild síðan þá..
Lykilmenn: Andri Björn Sigurðsson, Edilon Hreinsson, Óli Jón Kristinsson.
Þrír fyrstu leikir sumarsins: BÍ/Bolungarvík (Heima), Hvöt (Heima), Hamar (Úti)
Komnir:
Alexander Freyr Sindrason úr Haukum á láni
Andri Björn Sigurðsson úr ÍR á láni
Annel Helgi Finnbogason frá Færeyjum
Brynjólfur Bjarnason frá Gróttu
Davíð Atli Steinarsson frá FH
Davíð Þorgilsson frá FH
Edilon Hreinsson frá Gróttu
Gunnar Richter frá Haukum á lani
Jón Hjörtur Emilsson frá Haukum á láni
Jón Kolbeinn Guðjónsson frá Huginn
Jökull Jónasson frá Haukum
Kristján Guðberg Sveinsson frá Álftanesi
Magnús Stefánsson frá FH
Marteinn Gauti Andrason frá Haukum á láni
Skúli Andrésson frá Huginn
Sævar Ingi Sigurgeirsson frá FH
Farnir:
Andri Geir Gunnarsson í Markaregn
Andri Hrafn Siguðrsson í Fylki
Daníel Einarsson í Hauka
Daði Kristjánsson í KFG
Fannar Baldvinsson í Aftureldingu
Guðmundur Freyr Pálsson í Hauka
Hallur Kristján Ásgeirsson í Þrótt V.
Hannes Rúnar Hannesson í Reyni S.
Róbert Óli Skúlason í Berserki
Viktor Ingi Sigurjónsson í Markaregn
Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ÍH 73 stig
11. Hamar 50 stig
12. KV 35 stig