Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   mán 10. maí 2010 07:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 6. sæti
Mynd: Afturelding
Mynd: Fótbolti.net - Ragnar Ólason
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Anton Ari Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í sjötta sæti í þessari spá var Afturelding sem fékk 152 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Aftureldingu.


6. Afturelding
Búningar: Rauð treyja, svartar stuttbuxur, rauðir sokkar.
Heimasíða: http://www.afturelding.is
Lokastaða í fyrra: 11.sæti í 1.deild

Mjög miklar breytingar hafa átt sér stað í Mosfellsbæ frá því á síðasta tímabili. Aftureldingu gekk illa í fyrra en liðið vann einungis þrjá leiki í fyrstu deildinni og féll um leið aftur í aðra deild. Ólafur Ólafsson hætti með liðið síðastliðið haust eftir fjögurra ára starf og Izudin Daði Dervic tók við stjórnartaumunum hjá Mosfellingum.

Margir leikmenn yfirgáfu Aftureldingu síðastliðið haust og einungis fjórir leikmenn eru eftir í leikmannahópnum frá því í fyrra. Af þeim leikmönnum sem fóru eru margir máttarstólpar sem hafa leikið stórt hlutverk hjá liðinu undanfarin ár en nokkrir þeirra ákváðu að reyna sig í fyrstu og úrvalsdeildinni.

Til að fylla í skarð þeirra sem fóru hefur Afturelding ákveðið að gefa heimamönnum tækifæri en þeir hafa ekki verið fyrirferðamiklir í liðinu undanfarin ár. Hvíti riddarinn sem er varalið hjá Aftureldingu endaði í þriðja sæti í þriðju deildinni í fyrra og stór hluti úr þeim leikmannahópi er núna kominn í Aftureldingu. Alls hafa tólf leikmenn úr Hvíta riddaranum skipt yfir í Aftureldingu en um er að ræða unga og óreynda stráka sem eru allir 23 ára eða yngri.

Að auki hefur Afturelding fengið nokkra unga stráka úr öðrum félögum. Til að mynda Fannar Baldvinsson og Sölva Þrastarson frá Fylki og nú síðast framherjann Gísla Frey Brynjarsson sem kom á láni frá ÍA fyrir helgi.

Af þeim fjórum leikmönnum sem eru eftir úr leikmannahópnum í fyrra eru tveir reyndir varnarmenn, Gunnar Davíð Gunnarsson og hinn írski John Andrews. Að auki er færeyski U21 árs landsliðsmaðurinn Wentzel Steinarr Ragnarsson ennþá hjá Aftureldingu en hann mun væntanlega gegna mun stærra hlutverki í liðinu í ár heldur en áður.

Gengi Aftureldingar hefur verið upp og ofan á undirbúningstímabilinu og erfitt er að meta hvernig liðinu á eftir að ganga í sumar. Liðið sigraði þrjá fyrstu leiki sína í Lengjubikarnum örugglega en tapaði síðan gegn Hvöt og BÍ/Bolungarvík í síðustu tveimur leikjunum og missti um leið af sæti í undanúrslitunum.

Segja má að Mosfellingar séu núna komnir á sama stað og þeir voru á fyrir nokkrum árum. Endurnýjun er að eiga sér stað í leikmannahópnum og það gæti tekið tíma að byggja upp nýtt lið. Afturelding var í annarri deildinni frá 2004-2008 áður en liðið komst upp í fyrstu deild og stoppaði stutt við þar. Mosfellsbær er stórt bæjarfélag sem ætti að hafa burði til að eiga félag í tveimur efstu deildunum en stuðningsmenn Aftureldingar gætu þurft að bíða þolinmóðir eftir því að félagið komist aftur í fyrstu deildina.

Styrkleikar: Miklu fleiri heimamenn eru í liðinu en undanfarin ár og það gæti hjálpað Aftureldingu en stemningin fyrir fótboltanum í Mosfellsbæ hefur verið að aukast hægt og rólega undanfarin ár. Margir af ungu leikmönnum liðsins hafa spilað lengi saman og það ætti að teljast kostur.

Veikleikar: Liðið er nánast alveg nýtt síðan í fyrra og máttarstólpar hafa horfið á braut. Leikmannahópurinn er mjög ungur og reynsluleysi gæti háð liðinu. Á undirbúningstímabilinu skorti Aftureldingu stöðugleika en það er vandamál sem hefur áður verið til staðar hjá liðinu.

Þjálfari: Izudin Daði Dervic (Fæddur: 1963):

Izudin Daði Dervic á farsælan feril að baki sem leikmaður en hann lék með KR, FH, Val, Leifri og Selfossi á sínum tíma. Auk þess lék hann fjórtán A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Izudin Daði tók við Haukum sumarið 2004 og stýrði liðinu til haustsins 2005. Hann hafði síðan verið í fríi frá þjálfun áður en að hann var ráðinn þjálfari Aftureldingar síðastliðið haust.


Lykilmenn: Arnór Þrastarson, John Andrews, Wentzel Steinarr Ragnarsson Kamban.

Þrír fyrstu leikir sumarsins: Höttur (Úti), Víðir (Heima), Víkingur Ó. (Úti)


Komnir:
Alexander Aron Brynjarsson frá Hvíta riddaranum
Arnór Þrastarson frá Hvíta riddaranum
Axel Lárusson frá Hvíta riddaranum
Atli Freyr Gunnarsson frá Hvíta riddaranum
Birgir Freyr Ragnarsson frá Hvíta riddaranum
Bjarni Herrera Þórisson frá Augnablik
Fannar Baldvinsson frá Fylki
Gísli Freyr Brynjarsson frá ÍA á láni
Guðmundur Arnar Sigurðsson frá Víkingi R.
Guðmundur Kristinn Pálsson frá Hvíta riddaranum
Hörður Már Kolbeinsson frá Hvíta riddaranum
Magnús Már Einarsson frá Hvíta riddaranum
Sigurbjartur Sigurjónsson frá Hvíta riddaranum
Sindri Már Kolbeinsson frá Hvíta riddaranum
Skarphéðinn Magnússon frá Dalvík/Reyni
Snorri Helgason frá Hvíta riddaranum
Steinar Ægisson frá Hvíta riddaranum
Sölvi Þrastarson frá Fylki

Farnir:
Albert Ásvaldsson hættur
Andri Björn Sigurðsson í ÍH
Axel Ingi Magnússon í Hamar
Arnar Harðarson hættur
Gestur Ingi Harðarson í Leikni R.
Helgi Ólafur Axelsson hættur
Jón Fannar Magnússon í Björninn
Kjartan Páll Þórarinsson í Þrótt
Magnús Einarsson hættur
Milan Djurovic í Ægi
Rannver Sigurjónsson í Breiðablik
Sigurður Helgi Harðarson í Leikni R.
Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson í Hamar
Örn Kató Hauksson til Noregs


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. KS/Leiftur 148 stig
8. Höttur 99 stig
9. Víðir Garði 80 stig
10. ÍH 73 stig
11. Hamar 50 stig
12. KV 35 stig
banner
banner
banner
banner