Bayern vill Bernardo Silva - Skotlmark Man Utd og Liverpool vill fara til Real - Ensk félög horfa til Kimmich
   lau 08. júní 2024 14:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Sky Sports 
Miklar áhyggjur af fimm leikmönnum Englands
Harry Kane var sýnilega ekki upp á sitt besta í gær.
Harry Kane var sýnilega ekki upp á sitt besta í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Foden átti virkilega dapran dag í gær. Íslenska liðið gerði honum lífið leitt.
Foden átti virkilega dapran dag í gær. Íslenska liðið gerði honum lífið leitt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bukayo Saka kom inn á í seinni hálfleik í gær.
Bukayo Saka kom inn á í seinni hálfleik í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rob Dorsett, reynslumikill fréttamaður hjá Sky Sports, ritar grein í dag þar sem hann segir að Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, hafi miklar áhyggjur af fimm leikmönnum liðsins núna þegar átta dagar eru í fyrsta leik á EM.

England tapaði mjög óvænt gegn Íslandi í vináttulandsleik í gær. Það var þeirra síðasti leikur fyrir EM.

Dorsett segir að hann sjái ekki betri miðju eða sóknarlínu hjá neinum af andstæðingum Englands á mótinu. England sé enn líklegasta liðið til að vinna mótið - á blaði.

Svo segir hann að hann hafi aldrei séð enskan hóp jafn illa undirbúinn fyrir stórmót. Dorsett nefnir að of margir lykilmenn Englands séu að glíma við meiðsli, hafi ekki verið að spila nóg eða séu algjörlega búnir á því.

Harry Kane, Phil Foden, Jude Bellingham, Bukayo Saka og John Stones eru leikmennirnir sem Dorsett fjallar um. „Fimm leikmenn í heimsklassa sem England reiðir sig svo mikið á - enginn af þeim er að fara inn í mótið í góðu formi."

Kane missti af síðustu þremur leikjum Bayern Munchen á tímabilinu vegna meiðsla í baki. „Þau meiðsli eru klárlega enn að hrjá hann. Hann hefur skorað 49 mörk fyrir Bayern og England á tímabilinu í 52 leikjum. Það er mikið leikjaálag fyrir mann sem verður 31 árs í næsta mánuði og er að glíma við meiðsli. Hann hefur ekki spilað allar mínúturnar í fimm vikur."

Phil Foden var besti leikmaður úrvalsdeildarinnar á liðnu tímabili. „Hann varð meira og meira einangraður og kom alltaf minna og minna út úr honum þegar leið á leikinn í gær. Foden hefur einungis einu sinni áður spilað í þessu hlutverki (fremstur á miðjunni), það var í nóvember þegar Bellingham var meiddur. Þá átti hann líka erfiðan dag og England gerði jafntefli við Norður-Makedóníu. Mín tilfinning er að Southgate sé að klóra sér í hausnum varðandi hvers vegna Foden nær ekki að sýna sömu frammistöðu með Englandi og Manchester City."

Jude Bellingham hefur átt ótrúlegt tímabil. Hann vann Meistaradeildina með Real Madrid fyrir viku síðan. „Hann hefur spilað 101 leik fyrir England og félagslið sitt á síðustu tveimur tímabilum. Southgate er meðvitaður um að Bellingham er gjörsamlega búinn á því - þess vegna gaf hann honum viku frí til að ná sér. Er vika nógu langur tími? Tölfræði Bellingham seinni hluta tímabilsins er langt frá því að vera jafn öflug og fyrri hlutann. Hann skoraði einungis þrjú mörk í síðustu þrettán leikjunum með Real. Orkustigið er lægra."

Bukayo Saka er gulldrengur Englands og hefur verið eitt af fyrstu nöfnunum á blað síðustu ár. „En hann er líka í vandræðum með formið. Hann missti af síðasta leik Arsenal á tímabilinu og hefur ekki náð að taka fullan þátt í æfingum með landsliðinu. Hann spilaði 25 mínútur í gær og náði ekki að hafa áhrif á leikinn. Það gæti verið erfitt að velja Saka í liðið fram yfir Cole Palmer ef Saka sýnir ekki að hann sé 100% klár."

John Stones er lykilmaður í vörn Englands sem hefur verið helsti veikleiki enska liðsins. „Vegna meiðsla í vörninni eru áhyggjurnar enn meiri. Harry Maguire tekur ekki þátt í mótinu og Stones þarf núna að vera reynsluboltinn. Hann byrjaði einungis einn leik með Man City frá því um miðjan mars. Hann þurfti leiki til að bæta leikformið, en varð fyrir því óláni að leikmaður Íslands lenti á sér. Stones þurfti því að fara af velli í hálfleik. Það eru einhverjar efasemdir um að hann nái ekki leiknum gegn Serbíu, en nýjustu fregnir eru jákvæðari. Marc Guehi er næst reynslumestur af miðvörðunum, með 11 landsleiki."
Athugasemdir
banner
banner
banner