Smith Rowe og Nelson á förum - Chelsea náði samkomulagi við Aston Villa - Úrvalsdeildarfélög keppast um Abraham - Arsenal vill Nico Williams -...
   mið 22. maí 2024 16:43
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Mikill heiður og stolt - „Ástríðan mín liggur fyrir Íslandi"
Icelandair
Davíð Snorri var þjálfari U21 landsliðsins á árunum 2021-2024.
Davíð Snorri var þjálfari U21 landsliðsins á árunum 2021-2024.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hér er Davíð Snorri að fara yfir málin með Þorsteini Halldórssyni á æfingu íslenska kvennalandsliðsins á EM.
Hér er Davíð Snorri að fara yfir málin með Þorsteini Halldórssyni á æfingu íslenska kvennalandsliðsins á EM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ástríðan mín er hér'
'Ástríðan mín er hér'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Snorri mun aðstoða Åge Hareide.
Davíð Snorri mun aðstoða Åge Hareide.
Mynd: Mummi Lú
'Ég vil standa mig á þeim stað sem ég er og reyni að vera í núinu'
'Ég vil standa mig á þeim stað sem ég er og reyni að vera í núinu'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jörundur Áki og Toddi.
Jörundur Áki og Toddi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Fyrsta verkefni er að koma sér eins hratt og hægt er inn í hlutina. Þetta snýst um að vera eins vel undirbúinn og hægt er þegar Þjóðadeildin byrjar því það þarf að nýta hana gríðarlega vel'
'Fyrsta verkefni er að koma sér eins hratt og hægt er inn í hlutina. Þetta snýst um að vera eins vel undirbúinn og hægt er þegar Þjóðadeildin byrjar því það þarf að nýta hana gríðarlega vel'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég hef alltaf verið mjög stoltur af því að vinna í kringum og þjálfa landsliðin'
'Ég hef alltaf verið mjög stoltur af því að vinna í kringum og þjálfa landsliðin'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Snorri Jónasson var í dag tilkynntur sem nýr aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins. Hann tekur við hlutverkinu sem Jóhannes Karl Guðjónsson sinnti áður en hann tók við sem þjálfari danska félagsins AB.

Fótbolti.net ræddi við Davíð Snorra í dag.

„Það er fyrst og fremst mikill heiður að það hafi verið leitað til mín og ég er mjög stoltur. Ég hef alltaf verið mjög stoltur af því að vinna í kringum og þjálfa landsliðin. Ég hlakka til komandi verkefna," sagði Davíð Snorri.

Hann var spurður út í ferlið, samtölin sem áttu sér stað áður en hann tók svo starfið að sér.

„Fljótlega eftir að Jói hætti þá höfðu Åge, Jöri og Toddi samband við mig. Ég ræði við Åge um ákveðna hluti og svo um meira praktíska hluti við Jöra og Todda. Ég þurfti að fá verkefnið á borðið: hvað menn vildu fá út úr þessu starfi og hvort það hentaði mér. Ég vildi fá að vita hvert verkefnið væri nákvæmlega. Þegar ég var kominn með allt fyrir framan mig þá var þetta engin spurning."

Age Hareide er landsliðsþjálfari Íslands, Jörundur Áki Sveinsson - Jöri - er yfirmaður fótboltamála og Þorvaldur Örlygsson - Toddi - er formaður KSÍ.

Verkefnið, er þetta sama starf og Jói Kalli var að sinna eða er einhver breyting?

„Ég á fyrst og fremst að hjálpa leikmönnunum og Åge að verða betri og liðinu að verða betra. Það er hlutverk aðstoðarþjálfarans. Síðan vildi ég fá að vita varðandi sjálfan mig hérna innanhúss. Ég var að þjálfa U21 landsliðið og í öðrum málum. Ég vildi vita hvernig það lægi. Eina breytingin á minni vinnu er að í staðinn fyrir að þjálfa U21 landsliðið þá er ég aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla."

Hver eru þessi önnur mál?

„Ég er stuðningur við alla þjálfara hér innanhúss varðandi æfingar og uppsetningu á ferðum - leiði ýmsa hugmyndavinnu í því að reyna koma strúktúrnum okkar niður á blað."

Skilur við U21 á góðum stað
Hvernig er að vera ekki lengur þjálfari U21 landsliðsins?

„Mér þykir ofboðslega vænt um U21 landsliðið og öll yngri landsliðin. Ég er mjög stoltur af því hvað við höfum gert undanfarin ár hér öll saman. Yngri landsliðin hafa aldrei verið á betri stað en þau eru í dag ef við horfum á heildarpakkann, búið að vinna gríðarlega góða vinna síðustu ár."

„Það á eftir að reyna á það hvernig það er að vera ekki lengur U21 landsliðsþjálfari, það er langt í næsta verkefni Það sem kannski róar mann er að það er búið að vinna vel í öllu þar, bæði starfsfólk og leikmenn, bæði í síðustu keppni og núna. Liðið og umhverfið í kringum liðið er á mjög góðum stað. Riðillinn er galopinn, við eigum þrjá heimaleiki í haust og það eru mjög spennandi tímar framundan. Mér finnst gott að liðið sé á góðum stað, finnst það mikilvægt."


„Það er alltaf markmiðið og því ber alltaf að fagna"
Í A-landsliðinu eru margir leikmenn sem Davíð hefur þjálfað bæði í U21 landsliðinu og þar á undan í unglingalandsliðunum. Er gaman að sjá hversu margir sem þú hefur þjálfað hafa tekið stökkið upp?

„Það er alltaf markmiðið með yngri landsliðunum að reyna hjálpa leikmönnunum inni í þessu landsliðsumhverfi. Leikmenn spila ákveðna leiki og þróast í sínum félögum, en svo erum við mjög fastheldnir í því hvað menn gera þegar menn koma í landsliðin. Það að sjá yngri leikmenn fara upp stigann okkar og komast í A-landsliðið - það er alltaf markmiðið og því ber alltaf að fagna. Það hefur verið ánægjulegt að sjá marga leikmenn fara í gegn. Margir hverjir eru rétt að byrja og sumir eru komnir lengra. Það eru mjög spennandi tímar framundan og ég samgleðst öllum sem komast í A-landsliðið, það er risastórt afrek og mikill heiður. Svo er bara að standa sig."

Ástríðan liggur fyrir Íslandi
Til lengri tíma, hvað er það sem þig langar að gera? Langar þig einhvern tímann að fara aftur í félagsliðaboltann?

„Ástríðan mín í dag liggur dálítið hér, hún liggur fyrir Íslandi. Maður veit aldrei í þessum heimi hvar þú endar, þú verður bara að leggja þig fram þar sem þú ert hverju sinni, reyna gera vinnuna þína vel. Ástríðan mín er hér, ég hef ofboðslega gaman af landsliðsþjálfun, gaman af því vinna hérna, góð dýnamík í öllu sem við erum að gera og maður finnur að maður er að bæta sig á hverjum degi. Það er mjög mikilvægt. Ég er glaður og ástríðan mín liggur hér eins og staðan er í dag."

Veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér
Undirritaður hefur heyrt kallað eftir því að Davíð fari aftur í félagsliðaboltann, fari að þjálfa leikmenn úti á velli á hverjum degi. Áður en hann var ráðinn til KSÍ var hann aðalþjálfari Leiknis með Frey Alexanderssyni og svo aðstoðarþjálfari Stjörnunnar. Hann fékk símtalið frá KR síðasta haust en fór ekki í viðræður við félagið.

Langar þig ekkert að fara þjálfa leikmenn á hverjum einasta degi hjá félagsliði?

„Landsliðsþjálfarastarfið er öðruvísi, ég er kominn á mitt sjöunda ár hérna. Í mínu starfi hef ég ekki verið bundinn við bara eitt verkefni, ég hef ekki bara verið að þjálfa eitt landslið. Ég er búinn að taka þátt í mjög mörgum verkefnum. Þó að U21 landsliðið sé mín helsta ábyrgð, þá er ég búinn að taka þátt í fjölmörgum verkefnum og þjálfa mjög mikið á öðrum stöðum. Maður heldur sér gangandi hvað það varðar. Ég reyni að gera vel. Það sem ég hef hér er að þegar við æfum þá erum við með góða umgjörð og í hvert skipti góða leikmenn, það er skemmtilegt. Ástríðan mín liggur hér núna, en ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég vil standa mig á þeim stað sem ég er og reyni að vera í núinu."

Vilja vera eins vel undirbúnir fyrir Þjóðadeildina og hægt er
Framundan hjá A-landsliðinu eru tveir vináttuleikir í júní, fyrst leikur gegn Englandi og svo leikur gegn Hollandi. Báðir fara þeir fram ytra. Hvað átt þú að gera fram að leikjunum?

„Það er nóg að gera. Ég þarf dálítið að setja mig inn í allt, mun t.d. verða í samskiptum við Jóa Kalla á morgun um ýmsa hluti, um hvernig hann er búinn að vera vinna þetta. Ég flýg í fyrramálið til Osló og verð í tvo daga með Åge, þar munum við fara yfir komandi verkefni; æfingaleikina og svo Þjóðadeildina. Við förum yfir hvernig við ætlum að nálgast þessa tvo leiki nákvæmlega. Ég þarf að setja mig inn í hvernig undirbúningurinn til þessa fyrir leikina hefur verið. Fyrsta verkefni er að koma sér eins hratt og hægt er inn í hlutina. Þetta snýst um að vera eins vel undirbúinn og hægt er þegar Þjóðadeildin byrjar því það þarf að nýta hana gríðarlega vel."

Þjóðadeildin hefst svo í september. Ísland er í B-deild og verður í riðli með Svarfjallalandi, Tyrklandi og Wales.

Lætur aðra dæma um hvort þetta sé skref upp á við
Er skref upp á við að fara úr því að verða U21 landsliðsþjálfari í að vera aðstoðarþjálfari A-landsliðsins?

„Þetta er öðruvísi vinna. Mér finnst mjög stórt og mikill heiður að hafa verið U21 landsliðsþjálfari. Skref upp á við eða ekki, þetta er bara starf sem hentaði mér og ég læt aðra dæma um hvort þetta sé skref upp á við. Fyrir mér er þetta verkefni sem mér fannst ég geta sinnt og hef ástríðu fyrir að sinna. Þess vegna tók ég það að mér. Ég skil við U21 landsliðið á góðum stað. Það mun pottþétt koma góður þjálfari í U21 landsliðið sem vonandi gerir betri hluti en ég."

„Hvað er stærra og hvað er ekki. Þú getur horft á einhvern stiga og A-landsliðið er alltaf sá staður sem við erum að koma fólki á. Núna var einhver tími, það losnaði staða, menn vildu að ég tæki það að mér, ég skoðaði það og það passaði mér. Þess vegna ákvað ég að stökkva á það,"
sagði Davíð Snorri að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner