Man Utd vill fá Watkins - Helmingslíkur á að Ten Hag verði áfram - PSG hefur áhuga á Mateta
banner
   fim 02. maí 2024 16:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáin fyrir 2. deild kvenna: Fyrri hluti (7. - 13. sæti)
Álftanesi er spáð sjöunda sætinu.
Álftanesi er spáð sjöunda sætinu.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Augnablik féll með aðeins fjögur stig í fyrra.
Augnablik féll með aðeins fjögur stig í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kjartan Stefánsson stýrir Augnabliki.
Kjartan Stefánsson stýrir Augnabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KH fagnar marki í vetur.
KH fagnar marki í vetur.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Ingólfur Sigurðsson þjálfar KH.
Ingólfur Sigurðsson þjálfar KH.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Rakel Sjöfn Stefánsdóttir, leikmaður Dalvíkur/Reynis, hér í leik gegn Breiðabliki í fyrra.
Rakel Sjöfn Stefánsdóttir, leikmaður Dalvíkur/Reynis, hér í leik gegn Breiðabliki í fyrra.
Mynd: Sigurður Ingi Pálsson
Justine Christensen og Kristján Arnar, þjálfari Vestra.
Justine Christensen og Kristján Arnar, þjálfari Vestra.
Mynd: Vestri
Chloe Hennigan gekk í raðir Vestra.
Chloe Hennigan gekk í raðir Vestra.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Sindra er spáð tólfta sæti.
Sindra er spáð tólfta sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Smára er spáð botnsætinu.
Smára er spáð botnsætinu.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Keppni í 2. deild kvenna hefst á laugardaginn með leik KR og Vestra á Meistaravöllum. Við fengum alla þjálfara í deildinni til að skila inn spá núna stuttu fyrir mót. Þjálfarar liðanna voru beðnir að raða liðunum niður 1-12 í spá og slepptu sínu liði. Við byrjum á að fara yfir liðin sem enduðu í neðri hlutanum í þessari spá.

Það er búið að gera breytingar á fyrirkomulaginu í 2. deild sem verður áhugavert að fylgjast með. Þrettán lið mæta til leiks og er leikin einföld umferð. Í seinni hluta mótsins er keppni skipt upp í þrjá hluta og spila efstu fimm liðin sín á milli um tvö sæti í Lengjudeildinni.

7. sæti: Álftanes (74 stig)
Lokastaða í fyrra 8. sæti í 2. deild
Álftanes endaði á þeim stað í fyrra þar sem þeim var spáð fyrir mót; liðinu var spáð sjöunda sæti en endaði að lokum í áttunda sæti. Álftanes er með gríðarlega ungt lið en þarna fá aðallega ungar stelpur úr Stjörnunni tækifæri til að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokksfótbolta. Liðið endaði í þriðja sæti af fimm liðum í riðli sínum í Lengjubikarnum og það er búist við því að liðið verði í baráttu um miðja deild, og verði ekki langt frá því að komast í efsta hluta þegar deildinni er skipt.

Lykilmenn: Lovísa Rós Lárusdóttir, Eydís María Waagfjörð og Júlía Margrét Ingadóttir.

Gaman að fylgjast með: Klara Kristín Kjartansdóttir (fædd árið 2009).

Þjálfarinn segir - Axel Örn Sæmundsson
„Við ætlum okkur klárlega að afsanna þessa spá og vera ofar í töflunni góðu. Við erum með ungt og spennandi lið sem að á eftir að gera góða hluti í sumar! Það verður góð stemming á Álftanesinu í sumar!"

8. sæti: Augnablik (71 stig)
Lokastaða í fyrra: 10. sæti í Lengjudeildinni
Eftir að hafa verið í nokkur ár í Lengjudeildinni og gert þar fína hluti, þá féll Augnablik með aðeins fjögur stig úr 18 leikjum í fyrra. Liðið vann einn leik allt sumarið og það gekk allt á afturfótunum. Augnablik átti aldrei möguleika á því að halda sér uppi. Augnablik er venslafélag Breiðabliks og fá ungar Blikastelpur þarna tækifæri til að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki áður en þær fara annað hvort upp í meistaraflokk Blika eða þá í meistaraflokk hjá öðru félagi. Meðalaldurinn er ekki hár hjá Augnabliki en elstu leikmenn liðsins í Lengjubikarnum í vetur voru fæddir 2007. Kjartan Stefánsson er tekinn við þjálfun liðsins og þar er liðið að fá inn mjög góðan þjálfara sem hefur talsverða reynslu.

Lykilmenn: Eva Steinsen Jónsdóttir, Sunna Kristín Gísladóttir og Ágústa Þ Andersen Willumsdóttir.

Gaman að fylgjast með: Viktoría Fjóla Sigurjónsdóttir (fædd árið 2007).

Þjálfarinn segir - Kjartan Stefánsson
„Nei, það kemur okkur ekki mikið á óvart að okkur er spáð áttunda sæti þetta tímabilið þótt við myndum auðvitað vilja enda ofar og höfum trú á því að við getum afsannað þessa spá."

„Við erum búin að missa meiri hlutann af leikmannahóp síðasta tímabils og erum að treysta á ungar efnilegar uppaldar Blikastelpur sem eru gríðarlega góðar í fótbolta og geta náð langt í framtíðinni að okkar mati. Við erum búnir að vera ánægðir með spilamennsku okkar liðs í vetur, verið góður stígandi í leikjunum og fullt af flottum frammistöðum sem á pottþétt eftir að skila sér á vellinum í sumar."

„Við teljum að 2. deildin sé sterkari en mörgum grunar í sumar, fullt af flottum liðum og stórum klúbbum eins og KR, Haukar og Fjölnir svo einhver dæmi sé nefnd sem ætla sér stóra hluti í deildinni. Það verða pottþétt margir skemmtilegir og spennandi leikir í þessari deild vonandi verðum við á flottum stað í henni eins og við höfum trú á."

„Það mætti segja að eftir erfitt síðasta tímabil þá var byrjað á einhverjum núll punkti í haust þegar við komum inn og teljum við að liðið sé á flottri vegferð sem á bara eftir að verða betri og við hlökkum mikið til að byrja þetta Íslandsmót."

9. sæti: KH (51 stig)
Lokastaða í fyrra: 9. sæti í 2. deild
Þriðja venslafélagið í röð á þessum lista, en KH er spáð níunda sæti deildarinnar eftir að hafa endað þar í fyrra. Knattspyrnufélag Hlíðarenda er staður fyrir ungar Valsstelpur að taka fyrstu skrefin í meistaraflokksbolta. Í KH-liðinu eru margar efnilegar stelpur sem eru að koma upp úr barna- og unglingastarfinu á Hlíðarenda. Fótboltakonur á borð við Kötlu Tryggvadóttur, Aldísi Guðlaugsdóttur og Sigríði Theódóru Guðmundsdóttur hafa tekið sín fyrstu skref með KH og eru þær núna að spila á mun hærra stigi. Ingólfur Sigurðsson og Magni Jóhannes Þrastarson stýra liðinu og munu reyna að hjálpa stelpunum í liðinu að þróa sinn leik áfram.

Lykilmenn: Kolbrún Arna Káradóttir, Hafdís María Einarsdóttir og Ísold Hallfríðar Þórisdóttir.

Gaman að fylgjast með: Ágústa María Valtýsdóttir (fædd árið 2008).

Þjálfarinn segir - Ingólfur Sigurðsson
„Ég hef enga sérstaka skoðun á spánni. Það eina sem hún segir mér er að það er stutt í að mótið byrji sem er fagnaðarefni. Ég er mjög sáttur með leikmannahópinn okkar og Magna, meðþjálfara minn. Leikmennirnir hafa komið mér virkilega á óvart. Við munum leggja upp með að spila góðan fótbolta, njóta þess að spila og taka framförum. Þá munum við enda á flottum stað í deildinni."

10. sæti: Dalvík/Reynir (39 stig)
Lokastaða í fyrra: Voru ekki með
Það er alltaf skemmtilegt að sjá ný lið mæta til leiks í kvennaboltanum. Það er mikill uppgangur í fótboltanum á Dalvík og núna mætir Dalvík/Reynir til leiks með kvennalið í fyrsta sinn í áraraðir. „Þetta eru dalvískar stelpur sem hafa sýnt þessu mikinn áhuga. Undanfarin ár hafa verið stelpur frá Dalvík í Þór/KA og þær eru driffjöðurinn í þessu, að keyra þetta áfram. Þær vilja gefa þessu tækifæri. Þetta eru stelpur sem eru fyrir sunnan í skóla og vilja kannski ekki vera í Bestu deildinni. Þetta er hugmyndin; að nota þessar eldri stelpur ásamt þeim yngri og stelpum af Norðurlandinu," sagði Kristinn Þór Björnsson, framkvæmdastjóri Dalvíkur/Reynis, við Vísi. Framherjinn Rakel Sjöfn Stefánsdóttir er augljós stjarna hjá þessu nýja liði. Hún lék 7 leiki í Bestu deildinni í fyrra með Tindastóli og á yfir 20 meistaraflokksleiki með Þór/KA. Rakel er fædd og uppalin á Dalvík en skipti yfir í KA 15 ára gömul.

Lykilmenn: Harpa Hrönn Sigurðardóttir, Rós Dís Stefánsdóttir og Rakel Sjöfn Stefánsdóttir.

Gaman að fylgjast með: Úlfhildur Embla Klemenzdóttir (fædd árið 2006).

Þjálfarinn segir - Jóhann Már Kristinsson
„Spáin kemur mér ekki mikið á óvart þar sem við erum glænýtt verkefni sem hófst í janúar og við tókum ekki þátt í neinun undirbúningsmótum. En við erum með flottan og samheldin hóp sem ég er gríðarlega ánægður með innan sem utan vallar og ætlum að reyna við efri hlutann í töflunni."

11. sæti: Vestri (31 stig)
Lokastaða í fyrra: Voru ekki með
Annað nýtt lið í þessari deild er Vestri. Karlaliðið var að komast upp í Bestu deildina og það er gaman að sjá kvennaliðið mæta núna til leiks. Vestri er frekar mikið óskrifað blað en liðið tók ekki þátt í Lengjubikarnum né Mjólkurbikarnum. Kristján Arnar Ingason mun þjálfa liðið og fær það verkefni að enduruppbyggingu meistaraflokks kvenna sem síðast spilaði á Íslandsmóti 2013. „Það er mikið ánægjuefni að knattspyrnudeild Vestra skuli aftur tefla fram kvennaliði með góðum fyrirmyndum fyrir yngri knattspyrnuiðkendur ásamt því að heimastelpur geta nú spilað fyrir sitt lið í sinni heimabyggð," sagði í tilkynningu Vestra í vetur. Hin írska Chloe Hennigan skipti á dögunum frá ÍBV í Vestra. Eins og kom fram í frétt í júlí á síðasta ári þá lék hún með unglingaliðum Tottenham og þó að ævintýrið í Eyjum hafi ekki gengið upp má ætla að hún verði öflugur leikmaður í 2. deild.

Lykilmenn: Chloe Hennigan, Lára Ósk Albertsdóttir og Rachel Neumann.

Gaman að fylgjast með: Justine Christensen (fædd árið 1998)

Þjálfarinn segir - Kristján Arnar Ingason
„Haukar eru lang líklegasta liðið til að klára þessa deild, eru með þétttan og góðan hóp. KR er náttúrulega með tvö reynslubolta úr fótboltanum og hafa verið dugleg að safna í gott lið. Svo er bara spurning hvaða Einherji fær fyrir sumarið, hafa styrkt liðið með erlendum leikmönnum og einnig geta Fjölniskonur gert tilkall til að fara upp. Á von á að hin liðin verði að berjast innbyrðis um sætin á eftir. Markmið Vestra er að stabílisera meistaraflokk kvenna hér fyrir Vestan. Gera samkeppnishæft lið í 2. deild og vinna svo áfram með það."

12. sæti: Sindri (29 stig)
Lokastaða í fyrra: 10. sæti í 2. deild
Sindri frá Höfn í Hornafirði er spáð næst neðsta sæti deildarinnar, líkt og í fyrra. Sindra var spáð áttunda sæti fyrir tímabilið í fyrra en þær enduðu að lokum í tíunda sæti. Sindri hefur frá 2019 leikið í 2. deild kvenna og endaði liðið hæst í þriðja sæti. Sindri tók ekki þátt í Lengjubikarnum í vetur en spilaði á dögunum gegn Fjölni í Mjólkurbikarnum. Sá leikur endaði með 8-0 sigri Fjölnis, en Fjölniskonum er spáð í efri hlutann í þessari deild. Í liðinu eru margar ungar stelpur af svæðinu í bland við aðeins reynslumeiri leikmenn.

Lykilmenn: Fanney Rut Guðmundsdóttir, Emilía Alís Karlsdóttir og Elín Ása Hjálmarsdóttir.

Gaman að fylgjast með: Íris Ösp Gunnarsdóttir (fædd árið 2009).

Þjálfarinn segir - Jóhann Bergur Kiesel
„Þetta kemur kannski ekkert svakalega á óvart ef við tökum mið af síðasta sumri og hversu fáa fótboltaleiki við höfum spilað síðan þá. Markmið liðsins er að halda áfram að bæta okkur sem einstaklingar og sem lið ásamt því að gera betur en á síðasta tímabili."

13. sæti: Smári (23 stig)
Lokastaða í fyrra: 11. sæti í 2. deild
Að lokum er það Smári úr Kópavogi sem endaði í neðsta sæti deildarinnar í fyrra en þær voru þá að spila sitt fyrsta tímabil í deildinni. Stór hluti hópsins ólst upp í Breiðabliki, og eru þá líka búnar að stíga upp úr Augnabliki sem er meira fyrir yngri leikmenn. Svo eru þarna líka leikmenn sem koma úr öðrum félögum eins og til dæmis Minela Crnac, sem er fædd og uppalin á Ólafsvík og lék með Snæfellsnesi í yngri flokkunum. Hún er af bosnísku bergi brotin og hefur spilað yngri landsleiki með Bosníu. Minela er hávaxin og sterk með góðan skotfót. Það gekk ekki vel hjá Smára í Lengjubikarnum og mjög illa á síðasta tímabili, þannig að það er líklega ekki skrítið að þeim sé spáð neðsta sætinu.

Lykilmenn: Anna Kolbrún Ólafsdóttir, Margrét Mirra D. Þórhallsdóttir og Auður Erla Gunnarsdóttir.

Gaman að fylgjast með: Minela Crnac (fædd árið 2003)

Þjálfarinn segir - Ísak Þór Ólafsson
„Spáin er skemmtileg viðbót við umfjöllunina um deildina. Markmiðið okkar er náttúrulega að eiga betra tímabil heldur en í fyrra."
Athugasemdir
banner
banner
banner