Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 07. ágúst 2017 12:45
Elvar Geir Magnússon
Spáin fyrir enska - 20. sæti: Swansea
Lykilmaðurinn.
Lykilmaðurinn.
Mynd: Getty Images
Paul Clement, stjóri Swansea.
Paul Clement, stjóri Swansea.
Mynd: Getty Images
Tammy Abraham er spennandi leikmaður.
Tammy Abraham er spennandi leikmaður.
Mynd: Getty Images
Fernando Llorente.
Fernando Llorente.
Mynd: Getty Images
Flautað verður til leiks í ensku úrvalsdeildinni á föstudagskvöld. Í vikunni kynnum við liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í spánni er gert ráð fyrir því að Gylfi fari frá Swansa og liðið hafni í neðsta sæti.

Lokastaða síðasta tímabils: 15. sæti
Markahæstur á síðasta tímabili: Fernando Llorente (15)

Þurfa að spjara sig án Gylfa
Án íslenska landsliðsmannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar hefði Swansea fallið á síðasta tímabili. Án hans á þessu tímabili mun liðið fara niður samkvæmt spá Fótbolta.net. Gylfi var allt í öllu og það voru spyrnur hans sem héldu lífi í velska liðinu.

Swansea er lið sem hefur tapað einkennum sínum. Tíu ár eru síðan Roberto Martínez tók við stjórn liðsins og byggði upp leikstíl sem einkenndi liðið næstu árin á eftir. Liðið spilaði fallegan áhorfendavænan fótbolta sem gerði stuðningsmennina stolta og fyllti aðra öfund. Michael Laudrup byggði ofan á þennan leikstíl og margir heilluðust af Swansea.

En þessi leikstíll er orðinn að minningunni. Þrír stjórar og tvær lotur með Alan Curtis sem bráðabirgðastjóra síðan í byrjun 2016 hafa skapað óstöðugleika. Höfuð leikmanna voru sett í þeytivindu þegar Francesco Guidolin, Bob Bradley og svo Paul Clement reyndu allir að koma sínum hugmyndafræðum og leikaðferð inn í liðið á síðasta tímabili.

Óánægja er með nokkrar vafasamar ákvarðanir bandarískra eiganda félagsins og nú þegar nokkrir dagar eru í deildina eru víða veikir hlekkir í liði Swansea, bæði í vörn og sókn. Liðinu vantar meira bit fram á við og áreiðanlegan miðvörð.

Stjórinn: Paul Clement
Swansea virðist hafa hárréttan mann við stjórnvölinn. Eftir að Clement tók við batnaði skipulag liðsins til mikilla muna. Liðið fékk á sig 44 mörk fyrri hluta tímabils en 26 seinni hlutann. Clement hefur lært mikið af því að starfa með taktíska snillingnum Carlo Ancelotti og er alltaf tilbúinn með plan B og plan C þegar hlutirnir eru ekki að ganga upp.

Hvað þarf að gerast?
Liðið fékk á sig fleiri mörk heldur en Sunderland sem féll á síðasta tímabili. Clement þarf að halda áfram að ná að binda saman vörnina til að Swansea eigi möguleika á að halda áfram í deild þeirra bestu. Í Fernando Llorente hafa þeir flottan markaskorara en fleiri þurfa að leggja hönd á plóginn og liðið þarf að eiga fleiri skot á mark andstæðingana. Hvernig mun Llorente vegna án Gylfa? Swansea þarf að styrkja lið sitt áður en félagaskiptaglugganum verður lokað um mánaðamótin.

Lykilmaður: Alfie Mawson
Bjartasta framtíðarvon Swansea er varnarmaðurinn ungi. Duglegur, sterkur og gríðarlega metnaðarfullur. Er að þróast í harðan leiðtoga en þessi 23 ára leikmaður hefur þroskast mikið á einu ári og hefur sett sér það markmið að verða fyrirliði enska landsliðsins einn daginn.

Fylgist með: Tammy Abraham
19 ára sóknarmaður sem kom á láni frá Chelsea. Mun hann hleypa meira lífi í sóknarleik Swansea? Spennandi leikmaður sem hefur spilað fyrir yngri landslið Englands og skoraði grimmt fyrir Bristol City á lánssamningi í Championship-deildinni á síðasta tímabili. Nú er það hans að sýna hversu hratt hann hefur vaxið.

Komnir:
Erwin Mulder (Heerenveen) Frjáls sala
Tammy Abraham (Chelsea) Lán
Roque Mesa (Las Palmas) £11m
Cian Harries (Coventry City)

Farnir:
Marvin Emnes
Bafetimbi Gomis (Galatasaray)
Borja Baston (Malaga) Lán
Jordi Amat (Real Betis) Lán
Jack Cork (Burnley)
Connor Roberts (Middlesbrough) Lán
Modou Barrow (Reading)

Þrír fyrstu leikir: Southampton (Ú), Man Utd (H) og Crystal Palace (Ú)

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10.?
11 ?
12. ?
13. ?
14. ?
15. ?
16. ?
17. ?
18. ?
19. ?
20. Swansea 16 stig

Spámennirnir: Alexander Freyr Einarsson, Arnar Geir Halldórsson, Bjarni Þórarinn Hallfreðsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson og Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner