Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fim 10. ágúst 2017 17:30
Elvar Geir Magnússon
Spáin fyrir enska - 1. sæti: Man City
Lykilmaðurinn.
Lykilmaðurinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Argentínumaðurinn Sergio Aguero.
Argentínumaðurinn Sergio Aguero.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pep Guardiola við stjórnvölinn.
Pep Guardiola við stjórnvölinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markvörðurinn Ederson.
Markvörðurinn Ederson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Flautað verður til leiks í ensku úrvalsdeildinni á föstudagskvöld. Í vikunni höfum við verið að kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Við ljúkum þessu á liðinu sem spáð er Englandsmeistaratitlinum, Manchester City.

Lokastaða síðasta tímabils: 3. sæti
Markahæstur á síðasta tímabili: Sergio Aguero (33)

Sjá einnig:
Hlustaðu á Manchester City Innkastið

Verða allir glaðir?
Manchester City mætti á Laugardalsvöllinn á dögunum rétt til að sýna okkur Íslendingum hverju við eigum von á þetta tímabilið í ensku úrvalsdeildinni. Liðið gjörsamlega rúllaði yfir West Ham og vann 3-0 sigur í síðasta æfingaleik sínum fyrir mót. City hefur litið óhemju vel út á undirbúningstímabilinu og andstæðingarnir ekki átt nein svör.

Þegar þú ert með leikmenn eins og Gabriel Jesus, Sergio Aguero, Kevin De Bruyne og Leroy Sane í þínum röðum er það bara ávísun á mörk. Svo má ekki gleyma matreiðslumeisturunum David Silva og Yaya Toure. Þá er Ilkay Gundogan að snúa úr meiðslum, Bernardo Silva var keyptur og ekki má gleyma Raheem Sterling sem var meðal markaskorara á Laugardalsvelli.

Það þarf ekki annað en að lesa þessa upptalningu til að skilja af hverju Manchester City er spáð Englandsmeistaratitlinum.

Samkeppnin er rosaleg innan hópsins og það er ákveðið verkefni fyrir Pep Guardiola og hans afar fjölmenna teymi aðstoðarmanna að halda öllum þessum hæfileikaríku sóknarleikmönnum ánægðum. Verður Gabriel Jesus sóknarmaður númer eitt eða Sergio Aguero? Eða notar Pep leikaðferð þar sem þeir báðir leiða sóknarlínuna?

Stjórinn: Pep Guardiola
Þessi mikli snillingur fékk að finna fyrir því á sínu fyrsta tímabili í ensku úrvalsdeildinni. Það gekk misjafnlega vel að stilla sama strengi en hans handbragð á liðinu ætti að vera orðið meira núna. Fótboltaheili sem stýrir sínum mönnum eins og strengjabrúðum, bæði á æfingum og í leikjum. Stjóri sem er alltaf tilbúinn að breyta um leikkerfi. Hann ætlar ekki að fara í gegnum annað titlalaust tímabil hjá City.

Hvað þarf að gerast?
Varnarleikurinn varð liðinu að falli á síðasta tímabili og það er erfitt að stóla á miðvörðinn frábæra Vincent Kompany sem er ansi gjarn á að koma sér á meiðslalistann. Það þarf að koma meira öryggi yfir varnarleikinn og fækka mistökunum. Markmannsmálin voru vandræði en Pep vonar að Ederson leysi þau. Manchester City skoraði aðeins 37 mörk á Etihad leikvanginum á síðasta tímabili. Það er 18 mörkum færra en meistararnir á Chelsea skoruðu á Stamford Bridge. Nú ætti liðið að hafa Gabriel Jesus allt tímabilið til að létta ábyrgðinni á Sergio Aguero.

Lykilmaður: Gabriel Jesus
Brasilíumaðurinn tvítugi er ofurstjarna í framleiðslu. Hann mætti með látum í ensku úrvalsdeildina og bauð upp á sjö mörk í tíu úrvalsdeildarleikjum. Sóknarmaður sem getur brugðið sér í allra kvikinda líki. Hann kemur svo sannarlega með nýjar víddir í sóknarleik City. Ótrúlega hæfileikaríkur en líka mjög vinnusamur. Það er í raun magnað að á markaði dagsins hafi hann bara kostað 27 milljónir punda.

Fylgist með: Ederson
Það var mikið í umræðunni þegar Claudio Bravo hafði fengið á sig 16 mörk úr 24 skotum. Ákveðnum lágpunkti var náð í 4-0 tapi gegn Everton þar sem Everton átti fjögur skot á markið. Pep Guardiola keypti Ederson á 35 milljónir punda frá Benfica og vonar að hann muni standa sig betur en Bravo. Áhugaverður Brasilíumaður með húðflúr á hálsinum og hann er tilbúinn að vaða út úr markinu ef á þarf að halda, eins og Manuel Neuer hefur gert frægt.

Komnir:
Bernardo Silva (Monaco)
Ederson (Benfica)
Kyle Walker (Tottenham Hotspur)
Danilo (Real Madrid)
Benjamin Mendy (Mónakó)

Farnir:
Pablo Zabaleta (West Ham)
Gael Clichy (Istanbul Baseksehir)
Jesus Navas (Sevilla)
Willy Caballero (Chelsea)
Bacary Sagna (látinn fara)
Nolito (Sevilla)
Joe Hart (West Ham United) Lán
Aleksandar Kolarov (Roma)
Kelechi Iheanacho (Leicester)
Fernando (Galatasaray)

Þrír fyrstu leikir: Brighton (Ú), Everton (H) og Bournemouth (Ú)

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.

Spáin:
1. Manchester City 176 stig
2. Manchester United 168 stig
3. Chelsea 165 stig
4. Liverpool 150 stig
5. Arsenal 142 stig
6. Tottenham 140 stig
7. Everton 128 stig
8. Southampton 111 stig
9. West Ham 110 stig
10. Stoke 89 stig
11 Leicester 85 stig
12. Newcastle 82 stig
13. Bournemouth 76 stig
14. West Bromwich Albion 69 stig
15. Crystal Palace 65 stig
16. Watford 40 stig
17. Burnley 33 stig
18. Brighton 31 stig
19. Huddersfield 24 stig
20. Swansea 16 stig

Spámennirnir: Alexander Freyr Einarsson, Arnar Geir Halldórsson, Bjarni Þórarinn Hallfreðsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson og Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.
Athugasemdir
banner
banner