Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 08. ágúst 2017 10:15
Elvar Geir Magnússon
Spáin fyrir enska - 13. sæti: Bournemouth
Lykilmaðurinn.
Lykilmaðurinn.
Mynd: Getty Images
Eddie Howe hefur gert magnaða hluti.
Eddie Howe hefur gert magnaða hluti.
Mynd: Getty Images
Nathan Ake er kominn aftur.
Nathan Ake er kominn aftur.
Mynd: Getty Images
Asmir Begovic markvörður.
Asmir Begovic markvörður.
Mynd: Getty Images
Flautað verður til leiks í ensku úrvalsdeildinni á föstudagskvöld. Í vikunni kynnum við liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Bournemouth er næst í röðinni.

Lokastaða síðasta tímabils: 9. sæti
Markahæstur á síðasta tímabili: Josh King (16)

Létu vaða
Eddie Howe náði eftirtektarverðum árangri með Bournemouth á síðasta tímabili þegar hann stýrði liðinu í 9. sætið. Besti árangur í 118 ára sögu félagsins. Það sem var líka eftirtektarvert var með hvaða hætti þessi árangur náðist.

Minni lið hafa oft náð góðum árangri með öguðum varnarsinnuðum leikstíl sem snýst um að pirra stóru strákana. En Howe og Bournemouth náðu þessum árangri með því að „láta vaða" og spila sóknarbolta. Það skilaði sér í sigrum eins og 6-1 gegn Hull og 4-3 gegn Liverpool.

Það gleymist samt að liðið fór ansi neðarlega í febrúar eftir röð slæmra úrslita. Sjö leiki í röð fékk liðið á sig tvö mörk eða meira í leik.

Á endanum fékk liðið á sig 67 deildarmörk á á tímabilinu, aðeins tveimur mörkum færra en fallbyssufóður Sunderland. Þó við viljum ekki að skemmtanagildið minnki hjá Bournemouth þá er það augljóst að liðið þarf að spila agaðri varnarleik. Það er algjörlega óvíst að leikaðferð síðasta tímabils muni virka eins vel núna.

Árangur Bournemouth byggist að miklu leyti á góðri liðsheild og fjölskyldustemningu innan félagsins. Einingin innan klefans þarf að halda sér. Heimavöllur liðsins er sá minnsti í deildinni, það er neikvætt fjárhagslega en auðvelt er að búa til góða stemningu á vellinum og það getur liðið nýtt sér.

Stjórinn: Eddie Howe
Þrátt fyrir ungan aldur er Howe búinn að næla sér í ansi mikla reynslu í stjórastólnum hjá Bournemouth. Þar hefur hann setið frá 2008, fyrir utan eitt ár með Burnley. Hann hefur komið Bournemouth upp um tvær deildir á þessum tíma og skilað liðinu alla leið í efri helming ensku úrvalsdeildarinnar.

Hvað þarf að gerast?
Varnarleikurinn er augljós akkilesarhæll Bournemouth og það þarf að binda öftustu línu betur saman. Fremst á vellinum var Josh King algjör lykilmaður og skoraði 16 af 33 mörkum sínum á ferlinum á síðasta tímabili. Það er mikilvægt fyrir Bournemouth að halda honum og að hann haldist heill. Í markið er mættur Asmir Begovic sem er nýorðinn 30 ára og er kominn á hátind ferils síns. Hann er kannski eitthvað ryðgaður eftir bekkjarsetuna hjá Chelsea en ætti að vera fljótur að finna taktinn.

Lykilmaður: Steve Cook
Eins og áður sagði er það samheldnin og liðsheildin sem er helsti styrkur Bournemouth. Cook endurspeglar það. Þessi 26 ára varnarmaður hefur bætt sig á hverju ári. Hann hefur spilað í utandeildinni, C-deildinni, B-deildinni og núna í úrvalsdeildinni. Er landsleikur fyrir England næsta þrep?

Fylgist með: Nathan Ake
Lék frábærlega með Bournemouth áður en Chelsea kallaði hann til baka úr láni. Ake var sárt saknað og gengi Bournemouth hrapaði eftir að hann fór. Howe var tilbúinn að opna veskið og borga 20 milljónir punda fyrir að fá Ake alfarið til félagsins og það segir sitt um það hve mikils metinn þessi 22 ára miðvörður er.

Komnir:
Asmir Begovic (Chelsea)
Jermain Defoe (Sunderland)
Nathan Ake (Chelsea)
Connor Mahoney (Blackburn Rovers)

Farnir:
Ryan Allsop (Blackpool) Lán
Lewis Grabban (Sunderland) Lán

Þrír fyrstu leikir: West Brom (Ú), Watford (H) og Man City (H)

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10.?
11 ?
12. ?
13. Bournemouth 76 stig
14. West Bromwich Albion 69 stig
15. Crystal Palace 65 stig
16. Watford 40 stig
17. Burnley 33 stig
18. Brighton 31 stig
19. Huddersfield 24 stig
20. Swansea 16 stig

Spámennirnir: Alexander Freyr Einarsson, Arnar Geir Halldórsson, Bjarni Þórarinn Hallfreðsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson og Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.
Athugasemdir
banner
banner