Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   mán 07. ágúst 2017 12:45
Elvar Geir Magnússon
Spáin fyrir enska - 20. sæti: Swansea
Lykilmaðurinn.
Lykilmaðurinn.
Mynd: Getty Images
Paul Clement, stjóri Swansea.
Paul Clement, stjóri Swansea.
Mynd: Getty Images
Tammy Abraham er spennandi leikmaður.
Tammy Abraham er spennandi leikmaður.
Mynd: Getty Images
Fernando Llorente.
Fernando Llorente.
Mynd: Getty Images
Flautað verður til leiks í ensku úrvalsdeildinni á föstudagskvöld. Í vikunni kynnum við liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í spánni er gert ráð fyrir því að Gylfi fari frá Swansa og liðið hafni í neðsta sæti.

Lokastaða síðasta tímabils: 15. sæti
Markahæstur á síðasta tímabili: Fernando Llorente (15)

Þurfa að spjara sig án Gylfa
Án íslenska landsliðsmannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar hefði Swansea fallið á síðasta tímabili. Án hans á þessu tímabili mun liðið fara niður samkvæmt spá Fótbolta.net. Gylfi var allt í öllu og það voru spyrnur hans sem héldu lífi í velska liðinu.

Swansea er lið sem hefur tapað einkennum sínum. Tíu ár eru síðan Roberto Martínez tók við stjórn liðsins og byggði upp leikstíl sem einkenndi liðið næstu árin á eftir. Liðið spilaði fallegan áhorfendavænan fótbolta sem gerði stuðningsmennina stolta og fyllti aðra öfund. Michael Laudrup byggði ofan á þennan leikstíl og margir heilluðust af Swansea.

En þessi leikstíll er orðinn að minningunni. Þrír stjórar og tvær lotur með Alan Curtis sem bráðabirgðastjóra síðan í byrjun 2016 hafa skapað óstöðugleika. Höfuð leikmanna voru sett í þeytivindu þegar Francesco Guidolin, Bob Bradley og svo Paul Clement reyndu allir að koma sínum hugmyndafræðum og leikaðferð inn í liðið á síðasta tímabili.

Óánægja er með nokkrar vafasamar ákvarðanir bandarískra eiganda félagsins og nú þegar nokkrir dagar eru í deildina eru víða veikir hlekkir í liði Swansea, bæði í vörn og sókn. Liðinu vantar meira bit fram á við og áreiðanlegan miðvörð.

Stjórinn: Paul Clement
Swansea virðist hafa hárréttan mann við stjórnvölinn. Eftir að Clement tók við batnaði skipulag liðsins til mikilla muna. Liðið fékk á sig 44 mörk fyrri hluta tímabils en 26 seinni hlutann. Clement hefur lært mikið af því að starfa með taktíska snillingnum Carlo Ancelotti og er alltaf tilbúinn með plan B og plan C þegar hlutirnir eru ekki að ganga upp.

Hvað þarf að gerast?
Liðið fékk á sig fleiri mörk heldur en Sunderland sem féll á síðasta tímabili. Clement þarf að halda áfram að ná að binda saman vörnina til að Swansea eigi möguleika á að halda áfram í deild þeirra bestu. Í Fernando Llorente hafa þeir flottan markaskorara en fleiri þurfa að leggja hönd á plóginn og liðið þarf að eiga fleiri skot á mark andstæðingana. Hvernig mun Llorente vegna án Gylfa? Swansea þarf að styrkja lið sitt áður en félagaskiptaglugganum verður lokað um mánaðamótin.

Lykilmaður: Alfie Mawson
Bjartasta framtíðarvon Swansea er varnarmaðurinn ungi. Duglegur, sterkur og gríðarlega metnaðarfullur. Er að þróast í harðan leiðtoga en þessi 23 ára leikmaður hefur þroskast mikið á einu ári og hefur sett sér það markmið að verða fyrirliði enska landsliðsins einn daginn.

Fylgist með: Tammy Abraham
19 ára sóknarmaður sem kom á láni frá Chelsea. Mun hann hleypa meira lífi í sóknarleik Swansea? Spennandi leikmaður sem hefur spilað fyrir yngri landslið Englands og skoraði grimmt fyrir Bristol City á lánssamningi í Championship-deildinni á síðasta tímabili. Nú er það hans að sýna hversu hratt hann hefur vaxið.

Komnir:
Erwin Mulder (Heerenveen) Frjáls sala
Tammy Abraham (Chelsea) Lán
Roque Mesa (Las Palmas) £11m
Cian Harries (Coventry City)

Farnir:
Marvin Emnes
Bafetimbi Gomis (Galatasaray)
Borja Baston (Malaga) Lán
Jordi Amat (Real Betis) Lán
Jack Cork (Burnley)
Connor Roberts (Middlesbrough) Lán
Modou Barrow (Reading)

Þrír fyrstu leikir: Southampton (Ú), Man Utd (H) og Crystal Palace (Ú)

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10.?
11 ?
12. ?
13. ?
14. ?
15. ?
16. ?
17. ?
18. ?
19. ?
20. Swansea 16 stig

Spámennirnir: Alexander Freyr Einarsson, Arnar Geir Halldórsson, Bjarni Þórarinn Hallfreðsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson og Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.
Athugasemdir
banner