Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 09. nóvember 2017 12:30
Magnús Már Einarsson
Lára Kristín: Liðið er að toppa núna
Lára Kristín Pedersen.
Lára Kristín Pedersen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég tel okkur eiga góðan möguleika á að ná í úrslit gegn þeim," segir Lára Kristín Pedersen, miðjumaður Stjörnunnar, um leikinn gegn Slavia Prag í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.

Um er að ræða fyrri leik liðanna en flautað verður til leiks klukkan 18:00 á Stjörnuvelli.

„Æfingar hafa gengið vel og það er góð stemning í hópnum. Liðið er í raun að toppa núna, sem hægt er að horfa á sem neikvæðan hlut varðandi Íslandsmótið en jákvæðan í ljósi þess að við erum enn inn í þessu móti," sagði Lára en Stjarnan endaði í 4. sæti í Pepsi-deildinni í sumar.

Meira en mánuður er síðan Pepsi-deildin kláraðist. Í byrjun síðasta mánaðar sló Stjarnan út rússneska liðið Rossiyanka en síðan þá hefur staðið yfir undirbúningur fyrir leikinn í kvöld.

„Það hefur gengið ágætlega. Það eru þrjár vikur frá síðasta leik og höfum við nýtt þann tíma í að þétta liðið enn betur, innan og utan vallar. Þetta er að sjálfsögðu frábrugðið því sem við erum vanar en þetta hefur gengið vel."

Íslenska landsliðið gerði jafntefli við Tékka í undankeppni HM á dögunum. Margir leikmenn Slavia Prag eru í tékkneska landsliðinu.

„Við vitum að þær eru mjög vel skipulagðar og fastar fyrir. Meira en helmingur byrjunarliðsins spilaði á móti íslenska landsliðinu nú á dögunum og kom það vel í ljós þar, sem og í þeim leikjum sem við höfum skoðað með þeim."

Lára er bjartsýn á að fá góðan stuðning í stúkunni í kvöld. „Já það er ég. Það er lítið sem ekkert um að vera í íslenskum fótbolta þessa dagana og sé ég því ekkert því til fyrirstöðu að margir láti sjá sig á þennan leik og styðji okkur í þessu," sagði Lára að lokum við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner