Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 17. maí 2016 11:11
Elvar Geir Magnússon
„Hann tekur aukaæfingar þegar það er bræla"
Einar Hjörleifsson, markvörður Ólsara.
Einar Hjörleifsson, markvörður Ólsara.
Mynd: .
Jónas Gestur Jónasson.
Jónas Gestur Jónasson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: .
„Maður veit eiginlega ekki hvað hægt er að segja. Þetta er ein ótrúlegasta frammistaða sem maður hefur séð lengi," segir Jónas Gestur Jónasson, formaður Víkings í Ólafsvík, um frammistöðu markvarðarins Einars Hjörleifssonar í gær.

Hinn 38 ára Einar var maður leiksins í 3-0 sigri Víkinga gegn ÍA í Pepsi-deildinni en hann stóð í markinu vegna meiðsla markvarðarins Cristian Martinez.

Einar tók hanskana aftur úr hillunni í vetur til að vera til taks og sú ákvörðun hefur heldur betur borgað sig.

„Það var gríðarlegt gæfuspor að fá hann aftur. Við láum mikið í honum í vetur því við ætluðum að vera vel mannaðir í sumar. Það er flott að fá svona reynslumikinn mann til að vera „bakköpp" fyrir okkar aðalmarkvörð," segir Jónas Gestur.

Vinnur hjá góðri útgerð
Einar er þekktur vítabani og hann varði einmitt víti í gær og kom í veg fyrir að Skagamenn minnkuðu muninn í 2-1.

„Okkur fannst þetta víti frekar vægt en maður hugsaði að það væri allavega gott að hafa Einar í rammanum. Maður hugsaði að ef það væri einhver sem gæti varið svona væri það Einar Hjörleifsson. Einari hefur gengið vel að verja víti í gegnum tíðina og hann náði að undirbúa sig gríðarlega vel fyrir þennan leik. Hann mætti vel stemmdur."

Einar er sjómaður og fór til starfa eldsnemma í morgun. Hann er á sínu tíunda tímabili með Ólsurum og hefur verið púsluspil að blanda þessu með sjómennskunni.

„Það hefur verið mikið álag á hann og alla fjölskyldu hans. Það er erfitt að segja til um hvenær báturinn fer á sjó og hvenær ekki. Hann missir af mörgum æfingum og þarf að taka sjálfur aukaæfingar. Það er gríðarlegt púsluspil en hann er að vinna hjá mjög góðri útgerð sem hefur hjálpað honum með þetta líka," segir Jónas en margoft hefur Einar stokkið beint á fótboltaæfingar eftir túra.

„Það hefur gerst oft. Ef það er bræla þá hafa menn verið í landi nokkra daga í einu því það er vont veður á sjónum. Þá er hann bara á sínum aukaæfingum. Þannig hefur hann reynt að vinna þetta."

Þorsteinn Már vonandi með í næsta leik
Ólsarar hafa heldur betur farið vel af stað í Pepsi-deildinni og eru með 10 stig, ósigraðir eftir fjórar umferðir. Þetta er annað tímabil félagsins í efstu deild en 2013 var liðið stigalaust að loknum fjórum umferðum.

Fyrirliði liðsins, Þorsteinn Már Ragnarsson, var ekki í leikmannahópnum í gær en hann hefur verið að glíma við meiðsli. Jónas vonast til að Þorsteinn verði með gegn Fjölni í næstu umferð á sunnudaginn.

„Hann hefur verið slæmur í kálfanum en við vonum að hann verði leikfær í næsta leik. Það verður bara að koma í ljós," segir Jónas Gestur.
Athugasemdir
banner
banner
banner