Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 22. mars 2018 12:00
Magnús Már Einarsson
Túfa: Litlir fiskar sem þarf að setja hægt og rólega út í sjóinn
Túfa á hliðarlínunni.
Túfa á hliðarlínunni.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Hallgrímur Jónasson kom til KA í vetur.
Hallgrímur Jónasson kom til KA í vetur.
Mynd: KA
Túfa í KA jakkafötunum.
Túfa í KA jakkafötunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Emil Lyng gæti komið aftur til KA.
Emil Lyng gæti komið aftur til KA.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
KA vann alla fimm leiki sína í riðlakeppni Lengjubikarsins og stemningin er góð á Akureyri fyrir sumarið. Framundan er leikur gegn Grindavík í undanúrslitum Lengjubikarsins í næstu viku og í kjölfarið æfingaferð til Spánar.

„Ég er búinn að vera mjög ánægður með hvernig hefur gengið hjá okkur. Strákarnir eru að æfa vel. Núna er þriðja árið síðan ég og mínir menn tóku við liðinu og maður finnur núna að allir hlutir hvað varðar taktík og leikstíl eru á hreinu," sagði Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, við Fótbolta.net.

„Við höfum ekki fengið marga nýja leikmenn inn en þeir sem hafa komið hafa fallið vel inn. Stemningin í hópnum hefur líka aldrei verið betri en núna í vetur."

Varnarmaðurinn reyndi Hallgrímur Jónasson kom til KA eftir að hafa spilað í Svíþjóð og Danmörku síðan árið 2009.

„Haddi er einn af þeim sem þjálfarar gætu kallað hægri hönd inni á vellinum. Hann hefur gefið ungu strákunum mikinn kraft. Hann hefur verið lengi atvinnumaður og er reynslumikill. Við erum með tólf stráka af 22 manna hóp sem eru fæddir 1998 og síðar og þeir hafa líkt og aðrir náð þessu atvinnumanna hugarfari. Þeir mæta mikið fyrr á æfingar en þarf, fara í ræktina, rúlla og slíkt. Það var mjög ánægjulegt að fá Hadda inn í þetta."

Reyna að búa til leikmenn fyrir Pepsi-deildina
Af ungu strákunum sem Túfa nefnir hafa leikmenn eins og Daníel Hafsteinsson (fæddur 1999) og Frosti Brynjólfsson (fæddur 2000) verið að fá tækifæri í byrjunarliðinu í Lengjubikarnum sem og Sæþór Olgeirsson (fæddur 1998) sem kom frá Völsungi eftir að hafa skorað 23 mörk í 2. deildinni í fyrra.

„Við erum komnir á þann stað að við verðum hægt og rólega að búa til fleiri Pepsi-deildar leikmenn. Það eru ekki margir uppaldir KA-menn sem spila í úrvalsdeildinni og jafnvel í 1. deildinni líka. Við erum með flottan kjarna fæddan 1998-2000 og ég sé fyrir mér að nokkrir af þeim verði með gott hlutverk í sumar."

„Þeir hafa sýnt í vetur að það eru miklar framfarir hjá þeim. Þeir eru litlir fiskar sem þarf að setja hægt og rólega út í sjóinn því annars verða þeir étnir. Við erum að gera þetta skynsamlega og á næstu árum mun sjást að það eru að koma flottir strákar úr yngri flokka starfinu okkar."


Túfa útilokar ekki að KA fái frekari liðsstyrk áður en kemur að fyrsta leik gegn Fjölni þann 28. apríl.

„Það eru tíu leikmenn sem byrjuðu tímabilið í fyrra sem eru farnir og sex af þeim voru að spila nánast alla leiki. Við höfum fengið fjóra í staðinn. Cristian Martines, Hadda, Sæþór frá Völsungi og bakvörðinn Milan sem var að meiðast."

„Við erum með augun opin og ef það kemur eitthvað upp sem styrkir hópinn klárlega þá skoðum við það. Við höfum fengið fáa leikmenn undanfarin ár en við höfum fengið leikmenn sem hafa hjálpað klúbbnum að stíga fram á við. Ef við finnum svoleiðis menn þá erum við klárir í það. Það eru ennþá sex vikur í mót og við sjáum hvernig þetta þróast allt saman."


Ennþá í sambandi við Emil Lyng
Danski sóknarmiðjumaðurinn Emil Lyng skoraði níu mörk í Pepsi-deildinni í fyrra en hann gekk til liðs við skoska B-deildarfélagið Dundee í janúar. KA er þó ennþá í sambandi við hann fyrir sumarið enda er samningur Emils í Skotlandi einungis út tímabilið. Hins vegar er Dundee í baráttu um sæti í umspili og því óvíst hvenær Emil verður laus.

„Mótið hjá þeim klárast í lok apríl en þá er eftir umspil. Við getum ekki stólað á hann fyrr en við sjáum um miðjan apríl hvernig þetta þróast hjá Dundee. Fyrsta sætið fer beint upp en þeir eiga ekki möguleika á því og því fara þeir mögulega í umspil. Kannski detta þeir út strax í fyrstu umferð þar eða fara áfram. Við erum í sambandi við hann og sjáum hvernig þetta þróast. Það er ekkert útilokað en við metum stöðuna aftur í lok apríl," sagði Túfa.

Setja markmið á Spáni
KA endaði í sjöunda sæti í Pepsi-deildinni í fyrra eftir þrettán ára dvöl í næstefstu deild þar á undan. Túfa segir að markmiðið fyrir komandi tímabil verði sett á blað í æfingaferð á Spáni í byrjun apríl.

„Ég er þannig þjálfari að ég er að vinna vinnu til að það gangi vel. Það sama á við hjá alla hjá félaginu. Við erum mjög ánægðir með að þetta gangi vel en það er margt sem má bæta fram að móti. Í fyrra vorum við heilt yfir ánægðir en við vorum óheppnir með meiðsli. Ef meiðslin hefðu ekki komið þá held ég að við hefðum endað hærra. Núna erum við að klára langt undirbúningstímabil og þegar við komum út til Spánar ætlum við að setja okkur skýr markmið fyrir sumarið. Það sást í nokkrum leikjum í fyrra að okkur skortir reynslu í þessari deild. Aðalmarkmiðið hjá okkur er að ná stöðugleika í efstu deild og búa til leikmenn sem geta verið góðir í Pepsi-deildinni," sagði Túfa að lokum.
Athugasemdir
banner
banner