Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fös 22. maí 2015 16:10
Elvar Geir Magnússon
Pepsi-deildin
Gylfi Orra: Mistök dómara eru krufin inn að beini
Ákvarðanir dómara Pepsi-deildarinnar hafa verið mikið í umræðunni í upphafi móts.
Ákvarðanir dómara Pepsi-deildarinnar hafa verið mikið í umræðunni í upphafi móts.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi Þór Orrason, formaður dómaranefndar.
Gylfi Þór Orrason, formaður dómaranefndar.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Þóroddur Hjaltalín virtist dæma ranglega sóknarbrot á mikilvægum tímapunkti í leik Fylkis og KR.
Þóroddur Hjaltalín virtist dæma ranglega sóknarbrot á mikilvægum tímapunkti í leik Fylkis og KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er rétt að það hefur verið talsvert um umdeild atvik í dómgæslunni í undanförnum leikjum en ég held einfaldlega að það sé fyrir tilviljun að nokkur slík hafi nú borið upp á svipuðum tíma svo snemma móts," segir Gylfi Þór Orrason, formaður dómaranefndar KSÍ.

Helst hefur verið rætt um að dómarar í Pepsi-deildinni hafi dæmt fullkomlega lögleg mörk af. Nýjasta atvikið kom í leik Fylkis og KR í síðustu umferð en þessu umræða hefur aldrei farið eins hátt hér á landi eins og einmitt núna.

„Fullyrt hefur verið í fjölmiðlunum að dómarar hafi gerst sekir um að "dæma af lögleg mörk", en það finnst mér ónákvæmt orðalag því ég hef ekki geta betur séð en að í umræddum atvikum hafi dómararnir, með réttu eða röngu, verið búnir að flauta á leikbrot áður en knettinum var spyrnt í markið."

„Án þess að ég sé að reyna að leggja mat á hvort dómararnir hafi þarna verið að gera mistök eða ekki þá finnst mér spekúlantarnir stundum fullyrða of mikið út frá sjónarhorni einnar upptökuvélar sem staðsett er við miðju vallarins," segir Gylfi.

„Þegar um er að ræða brot í föstum leikatriðum þá er dómurum uppálagt að beita fyrirbyggjandi aðgerðum til þess að koma í veg fyrir ólöglega notkun handleggja fyrir töku spyrnunnar og gera viðkomandi leikmönnum grein fyrir því að hann sé að fylgjast sérstaklega með þeim. Láti menn sér ekki segjast ber dómurunum að bregðast strax við því í samræmi við fyrirmæli laganna. Þannig getur meint brot hugsanlega hafa verið framið strax við töku spyrnunnar, þegar "fókus" myndavélarinnar var á sjálfum spyrnandanum, en þegar "fókus" hennar berst síðan augnabliki síðar inn á átakasvæðið í teignum þá er ekkert athugavert að sjá."

Ekki tjóir að reyna að verja það óverjanlega
Gylfi segir fólk of oft fullyrða hluti þegar kemur að rangstöðu út frá sjónvarpsupptökum frá einni myndavél við miðju vallar. Í vissum dæmum, eins og til dæmis í leik Keflavíkur og Breiðabliks, sýna þó upptökur að aðstoðardómari gerði stór mistök með því að flagga til merkis um rangstöðu.

„Ekki tjóir að reyna að verja það óverjanlega og ekki verður framhjá því litið að nokkur dæmi eru um slæmar rangstöðuákvarðanir sem vel staðsettar upptökuvélar hafa tekið af öll tvímæli um. Þessi mistök munu verða krufin inn að beini í dómarahópnum í þeim tilgangi að reyna að læra af þeim," segir Gylfi.

Virði skoðanir séfræðinga
Margir telja að dómararnir hafi farið illa af stað á Íslandsmótinu og gæði dómgæslunnar séu ekki í takti við gæði fótboltans. Þessi umræða kom meðal annars upp í síðustu Pepsi-mörkum.

„Þó ég virði skoðanir sérfræðinganna sem telja að gæði íslenskrar dómgæslu hafi sett niður í ár, þá hefur mín bjargfasta skoðun um að gæði hennar hafi í gegnum tíðina haldist nokkuð vel í hendur við gæði knattspyrnunnar sem hér er leikin ekki breyst. Ég virði líka skoðanir þeirra sem halda því fram að gæði íslensku "fótboltaspekúlantanna" séu síðri en frægra erlendra kollega þeirra, þó ég sé jafn ósammála þeim skoðunum."
„Knattspyrnuhreyfingin verður einfaldlega að sætta sig við að mistök dómara muni hér eftir sem hingað til verða hluti af leiknum, hér heima sem úti í hinum stóra heimi. Verkefnið í bráð og lengd felst í því að reyna að fækka mistökunum eins mikið og frekast er mögulegt. Við það verkefni koma palladómar og fordæmingar um störf og hæfileika dómaranna hins vegar að litlu gagni."

Ekki á færi neinna aukvisa
Gylfi segir að dómarar Pepsi-deildarinnar hafi mætt vel undirbúnir til leiks eftir að hafa æft undir handleiðslu þrekþjálfara í allan vetur. Allir hafi staðist þrekpróf vandræðalaust.

„Ég get jafnframt fullvissað þig um það að eru gerðar miklar kröfur til líkamlegs atgervis okkar dómara sem er ekki á færi neinna aukvisa að standast," segir Gylfi.

„Þá er KSÍ stöðugt að reyna að efla faglega þáttinn hjá dómurunum með reglulegum námskeiðum, ráðstefnum og "klippufundum", en þar hefur samstarfið við Stöð 2 haft mjög jákvæð áhrif því dómarar Pepsi-deildar fá nú aðgang að upptökum af leikjum sínum strax daginn eftir leik. Þessar upptökur nýta þeir sér síðan, undir handleiðslu sinna nýju lærimeistara, Kristins Jakobssonar og Magnúsar Þórissonar, til að brjóta leikina til mergjar og læra af eigin mistökum og mistökum félaganna."
Athugasemdir
banner
banner