Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 15. febrúar 2017 11:19
Elvar Geir Magnússon
Spænskir fjölmiðlar hakka Luis Enrique í sig
"Þetta er ekki Barca" segir á forsíðu Sport.
Mynd: Sport
Luis Enrique.
Luis Enrique.
Mynd: Getty Images
Þó leikmenn Barcelona hafi ekki sloppið frá gagnrýni eftir 4-0 tapið gegn Paris Saint-Germain er það aðallega stjóri liðsins, Luis Enrique, sem kastað hefur verið fyrir ljónin í fjölmiðlum.

Mjög ólíklegt er að Barcelona nái að komast í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar en ekkert lið hefur náð að snúa svona stóru tapi við í keppninni.

Margir fjölmiðlar á Spáni efast um þjálfarahæfni Enrique þrátt fyrir árangur Börsunga síðustu tvö ár. Á yfirstandandi tímabili hefur liðið oft á tíðum verið ósannfærandi.

Fréttamaður TV3 sagði í útsendingu í gærkvöldi að Enrique hafi líklega ekki horft á leikinn því hann hafi ekki gert neinar taktískar breytingar til að reyna að svara þróun hans.

Í skoðunarpistli í blaðinu Sport, höfuðstöðvar blaðsins eru í Barcelona, segir að liðið sé „skip sem hafi strandað án skipstjóra". Marca lýsti leiknum sem „katastrófu".

Hver verður næsti stjóri?
Enrique hefur unnið átta titla síðan hann tók við sem stjóri Barcelona 2014 en hann mun líklega yfirgefa Nývang í lok tímabilsins. Samningur hans er að renna út í sumar og ýmis merki um að hann sé kominn með leið á þeirri pressu sem fylgir starfinu.

Þá er óánægja með leikstíl liðsins og talað um að Enrique hafi beygt út frá hugmyndafræðinni sem var í gangi. Hann stóli sig á hæfileika þriggja fremstu leikmanna.

En hver verður næsti stjóri Barcelona? Á Spáni er Argentínumaðurinn ástríðufulli Jorge Sampaoli talinn líklegastur en hann hefur gert magnaða hluti með Sevilla. Aðrir sem hafa verið nefndir eru meðal annars núverandi aðstoðarþjálfari Juan Carlos Unzue, Thomas Tuchel hjá Dortmund, Unai Emery hjá PSG og Eusebio Sacrista hjá Real Sociedad. Sá síðastnefndi spilaði fyrir Barcelona og þjálfaði svo B-liðið, líkt og Enrique og Pep Guardiola.

Talað hefur verið um Xavi sem framtíðarstjóra Barcelona, mann sem geti komið með Barca leikstílinn aftur. Komandi sumar er þó ekki rétti tímapunkturinn fyrir Xavi sem er enn að spila fyrir Al Sadd í Katar.
Athugasemdir
banner