Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
   þri 16. apríl 2013 21:30
Brynjar Ingi Erluson
Hörður Björgvin maður leiksins er Juventus varð bikarmeistari
Hörður Björgvin Magnússon varð í kvöld ítalskur bikarmeistari
Hörður Björgvin Magnússon varð í kvöld ítalskur bikarmeistari
Mynd: Úr einkasafni
Napoli 1 - 2 Juventus
0-1 Stefano Padovan ('57 )
1-1 Soma Novothny ('87 )
1-2 Federico Mattiello ('107 )
Rautt spjald: Matteo Gerbaudo ('109, Juventus), Federico Mattiello ('120, Juventus)

Vara- og unglingalið Juventus varð í kvöld ítalskur bikarmeistari eftir að hafa lagt Napoli að velli með tveimur mörkum gegn einu á San Paolo leikvanginum.

Tveir leikir eru spilaðir í úrslitunum, en liðin gerðu 1-1 jafntefli á Juventus Stadium í fyrri leiknum. Juventus komst í fyrra í úrslit bikarsins, en þurfti að lúta í gras fyrir AS Roma.

Það var þó annar bragur á Juventus í kvöld. Spennan magnaðist eftir rólegan fyrri hálfleik, en Hörður Björgvin Magnússon fékk tækifæri til þess að koma gestunum yfir eftir hornspyrnu en markvörður Napoli varði frá honum.

Stuttu síðar fékk Juventus vítaspyrnu. Stefano Beltrame var þá felldur innan teigs og dæmdi dómarinn vítaspyrnu. Stefano Padovan steig á punktinn og skoraði örugglega.

Það leit allt út fyrir sigur Juventus þangað til á 87. mínútu er Soma Novothny jafnaði metin með laglegum skalla eftir þunga sókn heimamanna. Það þurfti því að fara með leikinn í framlengingu þar sem Juventus stóð uppi sem sigurvegari.

Federico Mattiello skoraði sigurmarkið á 107. mínútu áður en Matteo Gerbaudo var rekinn af velli á 109. mínútu, en hann hafði komið inna á sem varamaður í leiknum. Mattiello var síðan vikið af velli þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir leiktímann. Lokatölur í leiknum því 1-2, Juventus í vil sem vann viðureignina samanlagt 3-2.

Hörður Björgvin lék allan leikinn í liði Juventus og var valinn maður leiksins af lýsendum leiksins á SportItalia, en hann lék í vörninni. Þetta er því hans annar titill hjá Juventus, en hann vann Viareggio-mótið með liðinu í fyrra.
Athugasemdir
banner