Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 18. september 2017 13:33
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
„Mjög erfitt að toppa það sem Eiður hefur gert"
Eiður í leik með landsliðinu.
Eiður í leik með landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður Smári Guðjohnsen var meðal umræðuefna í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 á laugardaginn. Eiður tilkynnti það opinberlega á dögunum að hann er búinn að leggja skóna á hilluna.

Arnar Grétarsson var gestur en hann lék með Eiði í landsliðinu á sínum tíma.

„Það verður mjög erfitt að nálgast það sem Eiður hefur gert. Að fara til Chelsea og verða meistari þar, fara svo til besta knattspyrnufélags í heiminum, ásamt Real Madrid, þegar þeir voru með allar þessar stjörnur. Hann nær að vinna Spánarmeistaratitilinn og verða Evrópumeistari," segir Arnar.

„Ég held að fólk sé ekki að átta sig fullkomlega á þessu. Fótbolti er vinsælasta íþróttagrein í heiminum og það er með ólíkindum að komast í topp elítuna. Allir sem komast til Barcelona eru framúrskarandi leikmenn, þar er bara rjóminn. Þeir taka bara allra bestu mennina."

„Við höfum átt frábæra fótboltamenn; pabba hans, Ásgeir Sigurvins, Albert Guðmunds og fleiri. En þetta afrek er svakalegt. Að fara frá Chelsea til Barcelona er erfitt að toppa."

„Við erum með frábæran knattspyrnumann í dag í Gylfa Sigurðssyni og hann er núna kominn í stærra félag. Ég er rosalega hrifinn af honum, hann er frábær innan vallar sem utan. En þegar horft er á félagsliðin þá er töluverður munur á því að spila með frábærum liðum eins og Tottenham og að spila með toppliði eins og Chelsea og vera meðal bestu manna þar," segir Arnar.

„Eiður er þannig að hann er ekki alltaf að ota sínum tota, hann er frekar rólegur og hefur yfirleitt látið verkin tala á vellinum."

Arnar var yfirmaður fótboltamála hjá AEK Aþenu þegar Eiður lék fyrir félagið. Þar lenti Eiður í erfiðum meiðslum.

„Þeir sem unnu með honum þar sögðust ekki hafa upplifað það oft að vinna með svona fagmanni, hvað hann lagði á sig þegar hann var meiddur og var að koma til baka. Hann var rosalega duglegur. Til að komast á þennan stað þarftu að leggja mikið á þig. Menn fæðast með hæfileika en það þarf að vinna fyrir þessu öllu," segir Arnar.

Sjá einnig:
Hlustaðu á hringborðsumræðurnar með Tómasi, Elvari og Arnari
Athugasemdir
banner
banner