Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 21. nóvember 2017 07:00
Elvar Geir Magnússon
Alfreð: Það var gefið grænt ljós á gott partí
Icelandair
Alfreð fagnar á Ingólfstorgi.
Alfreð fagnar á Ingólfstorgi.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Ísland á HM!
Ísland á HM!
Mynd: Anna Þonn
„Þegar maður var yngri fannst manni allt tal um reynslu vera einhver klisja, maður gat ekki tengt við það," segir landsliðssóknarmaðurinn Alfreð Finnbogason þegar hann rifjar upp heimaleikinn gegn Kosóvó í undankeppni HM, lokaleik riðilsins þar sem Ísland tryggði sér þátttökurétt í Rússlandi með 2-0 sigri.

Alfreð hefur gengið í gegnum magnaðan tíma með íslenska landsliðinu og veit það vel í dag að reynslan skiptir máli.

„Þarna held ég að reynslan í því að fara í stóra leiki með landsliðinu hafi sýnt sig. Það er annað að fara í stóra leiki með félagsliðinu og landsliðinu. Vinir þínir, fjölskyldan, amma og afi... það er allir að tala um leikinn."

„Það er erfitt að stilla spennustigið. Ég man fyrir Króatíuleikinn úti þegar við vorum einum leik frá HM. Maður var í símanum allan tímann að skoða og gat ekki sofið. Maður fann það svo í leiknum að maður hafði enga orku, spennan var búin að taka alla orkuna. Núna þá slekkur maður á símanum og veit að það er ekkert mikilvægt að fara að gerast þar. Maður náði í orku frá gömlum sigrum. Það þarf ekki mikið til að Ísland fari á flug og það gerðist þarna."

Alfreð rifjaði upp leiðina á HM ásamt Hannesi Þór Halldórssyni í hljóðvarpsþættinum Leiðin til Rússlands sem birtist á Fótbolta.net í gær. Hannes segir að það hafi verið erfitt að stilla spennustigið fyrir leikinn mikilvæga gegn Kosóvó.

„Þetta var mjög óþægilegur leikur til að fara í. Maður er aldrei rólegur fyrr en dómarinn hefur flautað af. Þrátt fyrir að ég hafi gengið í gegnum þetta allt saman átti ég í vandræðum með að stilla spennustigið fyrir þennan leik. Leikdagsfiðringurinn kom miklu fyrr en venjulega, hann var kominn daginn áður. Þetta var óþægilegur leikur að fara í en þvílíkur léttir, fyrst þegar Gylfi skorar og svo þegar leik lýkur," segir Hannes.

Eftir að sætið á HM var tryggt fögnuðu strákarnir okkar með íslensku þjóðinni á Ingólfstorgi áður en þeir héldu í partí.

„Ef menn fagna ekki þegar þeir tryggja sér sæti á HM með Íslandi þá þarf eitthvað að skoða menn! Það var grænt ljós á gott partí. Það var mjög skemmtilegt og úr varð gott kvöld. Það er líka mjög skemmtilegt að hitta strákana í þessu umhverfi inn á milli," segir Alfreð.

Árangur Íslands hefur vakið mikla athygli um allan heim, þar á meðal í Þýskalandi þar sem Alfreð spilar fyrir Augsburg.

„Þjóðverjar elska Ísland og árangurinn á EM kveikti áhugann á Íslandi enn meira. Það var spennufall eftir að við komumst á HM og ég var ekki að finna mig alveg fyrstu tvo leikina á eftir. Maður þurfti að núllstilla sig og komast á lappir. Það hefur verið mikil fjölmiðlaathygli og hún á bara eftir að aukast."

Smelltu hér til að hlusta á þáttinn
Athugasemdir
banner
banner