Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fim 22. júní 2017 11:00
Magnús Már Einarsson
Seyðisfjarðarvöllur ónothæfur - „Allt tengt vellinum gert með hálfum hug"
Svona leit völlurinn út í gær eftir tveggja tíma rigningu.
Svona leit völlurinn út í gær eftir tveggja tíma rigningu.
Mynd: Rúnar Freyr Þórhallsson
Mynd: Rúnar Freyr Þórhallsson
Birkir Pálsson fyrirliði Hugins.
Birkir Pálsson fyrirliði Hugins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikmenn og aðstandendur Hugins á Seyðisfirði eru orðnir langþreyttir á lélegu ástandi Seyðisfjarðarvallar. Huginn hefur ekki ennþá spilað heimaleik á Seyðisfirði í 2. deildinni á þessu ári og horfurnar eru ekki góðar fyrir framhaldið.

Heimaleikir Hugins undanfarin ár
2017 - 0 af 4 á Seyðisfirði
2016 - 7 af 11 á Seyðisfirði
2015 - 5 af 11 á Seyðisfirði

Grasið hefur verið seint að koma til á Seyðisfjarðarvelli undanfarin ár en aðalvandamálið er þó að vatn rennur ekki í gegnum völlinn. Eftir rigningu er völlurinn því líkari sundlaug en fótboltavelli.

„Þegar völlurinn var upphaflega gerður var það í raun ekki gert nógu vel, allt tengt vellinum hefur í raun verið gert með hálfum hug, t.d. reynt að spara pening með því að gera hlutina ekki 100% og þegar allt kemur til alls hefur eflaust verið eytt meiri pening í að reyna að "redda" hlutunum," sagði Birkir Pálsson, fyrirliði Hugins við Fótbolta.net.

Huginn féll úr Inkasso-deildinni í fyrra en þá spilaði liðið sjö af ellefu leikjum sínum á Seyðisfirði. Útlitið er verra í ár.

„Í ár hefur ekkert verið gert, í gær var verið að slá völlinn í annað skiptið í sumar, það hefur kannski verið hent einhverjum fræum á hann. Í fyrra var gert eitthvað til að standast kröfur til að geta spilað í 1. deild, varamannaskýli stækkuð, keypt ný mörk og vallarklukka. Ásamt því voru rifin trérunnar við völlinn og skipt um einhver frárennslirör."

„Það hefur ekkert gert fyrir völlinn sjálfan þar sem vatn rennur í raun ekki í gegnum hann. Ef það rignir, situr allt vatnið í grasinu. Því miður þá er ég mjög svartsýnn á að við munum spila leik á Seyðisfirði í sumar, það má helst ekki rigna það sem eftir líður sumri til að við gætum spilað "heima"."


Heimaleikir í hálftíma fjarlægð
Huginn hefur undanfarin ár spilað heimaleiki á gervigrasvellinum í Fellabæ, rétt hjá Egilsstöðum, þegar Seyðisfjarðarvöllur er óleikfær. Um það bil hálftíma akstur er frá Seyðisfirði yfir í Fellabæ.

„Það hefur töluverð áhrif að geta ekki spilað sína heimaleiki á Seyðisfirði. Flestir geta eflaust tekið undir að það sé erfitt að koma á Seyðisfjörð og spila þar. Stuðningsmenn eru mun nær vellinum og myndast mun meiri stemmning í "stúkunni" sem skilar sér oftar en ekki út á völlinn til leikmanna."

„Svo verður það nú að segjast að gervigrasið á Fellavelli er löngu komið til ára sinna, í síðustu tveimur leikjum okkar þar höfum við misst tvo menn í alvarleg meiðsli. Gunnar Wigelund sleit krossband og í síðasti leik meiddist Aaron Redford, því miður gætu þau meiðsli verið álíka alvarleg. Það kemur í ljós í myndatöku í dag,"
sagði Birkir.

Leikmenn reyna að laga völlinn
Huginsmenn eru mjög ósáttir við að bæjaryfirvöld hafi ekkert gert fyrir völlinn. Birkir fyrirliði ritaði langan pistil um málið á Facebook fyrr í sumar. Á 17. júní hátíð á Seyðisfirði hélt Birkir ávarp þar sem hann kom einnig inn á stöðu vallarins.

Á laugardaginn ætla leikmenn Hugins að hittast og reyna að gera sitt til að laga völlinn.

„Við leikmenn og hluti úr stjórn ætlum okkur að bora holur í völlinn þannig að vatnið sem liggur efst í honum hafi einhverja leið til að komast í burtu," sagði Birkir.

Í gær var Seyðisfjarðarvöllur sleginn en síðan kom rigning í tvo tíma. Völlurinn leit svona út í kjölfarið!

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner