Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
   lau 23. mars 2013 08:30
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
76 daga bið
Hugsum ekki strax um brasilískar strendur
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Tekkland
Lars Lagerback hefur 76 daga til að undirbúa næsta leik.
Lars Lagerback hefur 76 daga til að undirbúa næsta leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð







Leikmenn íslenska landsliðsins hafa yfirgefið Lúbljana eftir að hafa náð að skila verkefninu frá sér með því að innbyrða þrjú stig í æsispennandi en ansi kaflaskiptum leik.

Fyrir leik þótti mörgum sem fólk væri að fara fram úr sér í bjartsýni en staðreyndin er sú að með núverandi leikmannahóp má fólk alveg gera vonir um góð úrslit. Það er einfaldlega raunhæft.

Ég var spurður að því eftir leikinn í gær hvort ég teldi það raunhæfan möguleika að Ísland færi á HM í Brasilíu. Það er allt hægt í fótbolta en langhlaupið er bara rétt svo hálfnað. Hugsanir um strendur Brasilíu mega bíða en á meðan eigum við að gleðjast yfir því að vel gengur og liðið er með í baráttunni nú þegar liðið á fimm leiki eftir, þar af þrjá heimaleiki.

Það er skemmtileg barátta framundan.

„Við ætlum okkur áfram," sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson eftir leik í gær. Liðið stefnir hátt og ekki er farið leynt með markmiðin enda möguleikinn svo sannarlega til staðar.

Það var magnað að vera meðal örfárra Íslendinga á leiknum í gær. Fyrri hálfleikurinn fer ekki í sögubækurnar en sá síðari var taumlaus skemmtun. Andartökin þegar Gylfi skoraði mörkin voru mögnuð. Skyndilega sló þögn á áhorfendur meðan fjórir íslenskir fjölmiðlamenn stukku upp úr sætum sínum.

Hversu kaflaskiptur leikurinn var gerði að verkum að flóknara var að gefa einkunnir en oftast áður. Það er ekki venjan hjá Fótbolta.net að gefa þjálfurum einkunnir en ef svo væri þá hefði Lars Lagerback skorað ansi hátt í gær. Hlutirnir voru ekki að ganga í fyrri hálfleiknum og sá sænski brást við á hárréttan hátt.

Það sem upp úr stendur eftir leikinn er ótrúlegt mark Gylfa, frábær innkoma Eiðs Smára og svo að sjálfsögðu frammistaða Hannesar í markinu en alls ekki mátti sjá á hans leik að hann spilar heima þar sem undirbúningstímabil er í gangi. Fyrir mót var talað um markvörsluna sem veikasta hlekk Íslands en Hannes hefur afsannað það.

Hópurinn virðist mjög vel samstilltur og leikgleði skín af liðinu.

Þegar vel gengur þá verður biðin eftir næsta leik enn lengri. Það eru 76 dagar í að við mætum Slóvenum aftur, þá á Laugardalsvellinum. Niðurtalningin er hafin. Það verður skyldumæting fyrir alla íslenska fótboltaáhugamenn föstudagskvöldið 7. júní.

Samir Handanovic, markvörður Slóveníu, getur glaðst yfir því að Gylfi verður í banni í þeim leik en Ísland á fleiri vopn í búrinu. Fleiri vopn en íslenska karlalandsliðið hefur nokkurn tímann átt.
Athugasemdir
banner
banner