Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 24. nóvember 2014 13:30
Elvar Geir Magnússon
Ancelotti hefur miklar áhyggjur af stöðu ítalska boltans
Carlo Ancelotti.
Carlo Ancelotti.
Mynd: Getty Images
Ítalski þjálfarinn Carlo Ancelotti segist hafa miklar áhyggjur af stöðu ítölsku deildarinnar, hann segist sjá enn skýrar hvað staðan er slæm frá Spáni þar sem hann er þjálfari Real Madrid.

„Allar deildirnar eru að þróast og taka skref fram á við nema sú ítalska, hún stendur í stað. Áhuginn er í lágmarki og maður sér San Siro tóman. Það er sorglegt," segir Ancelotti.

„Við erum að framleiða unga og tæknilega góða leikmenn, það er ekki vandamálið. Deildin hefur samt afar lítinn sjarma og er ekki aðlaðandi fyrir stóra leikmenn að koma hingað."

Ancelotti segir að ítalska knattspyrnusambandið þurfi að leita inn á við. Vandamálið sé meðal annars varðandi leikvangana. Á Ítalíu tíðkast það að borgirnar eigi vellina en ekki félögin þó undantekningar séu á því, til dæmis á Juventus sinn leikvang.

„Félögin þurfa að eiga leikvangana. Manchester United græðir 180 milljónir evra á sínum velli en AC Milan 20 milljónir. Real Madrid er sífellt að fjárfesta í eigin ímynd og er með safn sem 3 milljónir heimsækja árlega," segir Ancelotti.

Hann segir að það gæti haft mikið að segja ef Ítalíu tekst að landa stórmóti.

„Það varð sprenging á áhuga í Þýskalandi eftir HM 2006 og það mun gerast í Frakklandi eftir Evrópumótið 2016."
Athugasemdir
banner
banner
banner