Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
banner
   fös 26. apríl 2024 22:06
Ívan Guðjón Baldursson
Bjarki Steinn með dýrmætt sigurmark
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Miðjumaðurinn Mikael Egill Ellertsson var í byrjunarliði Venezia sem tók á móti Cremonese í afar mikilvægum toppbaráttuslag í B-deild ítalska boltans í kvöld.

Gestirnir frá Cremonese leiddu eftir bragðdaufan fyrri hálfleik og ákvað þjálfari Feneyinga að gera taktíska skiptingu á liði heimamanna í leikhlé. Kantmaðurinn Bjarki Steinn Bjarkason kom þá inn fyrir Mikael og voru Feneyingar búnir að jafna leikinn tveimur mínútum síðar þegar Joel Pohjanpalo og Christian Gytkjær komu saman til að skora skandinavískt markt.

Bjarki Steinn lét svo til sín taka á 76. mínútu leiksins þegar hann gerði sér lítið fyrir og skoraði það sem reyndist svo vera sigurmarkið. Bjarki tryggði þar með gríðarlega mikilvæg stig fyrir Venezia sem er í öðru sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina.

Hjörtur Hermannsson var þá ónotaður varamaður er Pisa gerði 2-2 jafntefli við Catanzaro og er liðið í harðri baráttu um síðasta umspilssætið fyrir lokaumferð tímabilsins.

Í efstu deild kvenna lék Sara Björk Gunnarsdóttir allan leikinn í 0-2 tapi Juventus á heimavelli gegn Inter.

Leikurinn var þýðingarlítill í ljósi þess að Juve er öruggt með annað sæti deildarinnar og Inter ekki að berjast um neitt.

Í belgíska boltanum tapaði Íslendingalið Eupen heimaleik í fallbaráttunni gegn Charleroi, þar sem Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn og lagði upp mark. Alfreð Finnbogason var ekki með vegna meiðsla.

Tapið þýðir að Eupen er svo gott sem fallið niður í næstefstu deild.

Að lokum gerði Willem II jafntefli gegn Groningen í næstefstu deild hollenska boltans. Willem er svo gott sem búið að vinna deildina og tryggja sér sæti í efstu deild fyrir næstu leiktíð.

Rúnar Þór Sigurgeirsson var ónotaður varamaður í jafnteflinu í kvöld.

Venezia 2 - 1 Cremonese
0-1 Franco Vazquez ('24)
1-1 Christian Gytkjær ('48)
2-1 Bjarki Steinn Bjarkason ('76)

Pisa 2 - 2 Catanzaro

Juventus 0 - 2 Inter

Eupen 1 - 2 Charleroi

Willem II 1 - 1 Groningen

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner