Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 30. mars 2015 08:00
Elvar Geir Magnússon
skrifar frá Frankfurt
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
73 dagar - Niðurtalning hafin
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
Sjón sem við sjáum vonandi eftir 73 daga.
Sjón sem við sjáum vonandi eftir 73 daga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Færri komast að en vilja á toppslaginn.
Færri komast að en vilja á toppslaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það munu miklu færri en vilja komast að á Laugardalsvellinum þann 12. júní þegar Ísland fær Tékkland í heimsókn og fær tækifæri til að hefna ófaranna í Plzen. Allt hráefni er til staðar til að búa til ógleymanlegan dag.

Leiðin á EM er orðin enn greiðfærari eftir úrslit helgarinnar og vonandi munu veðurguðirnir spila með þetta föstudagskvöld í sumar. Baráttan um þátttökurétt í Frakklandi er hörð og barátta íslenskra stuðningsmanna um miðana á leikinn gegn Tékkum verður ekki síður hörð.

Vonandi mun völlurinn fyllast af fólki sem lætur vel í sér heyra. Fólkið sem fer á fótboltaleiki með sama hugarfari og þegar það fer í leikhús getur horft á leikinn á RÚV. Sem betur fer eru Íslendingar að þroskast sem fótboltaþjóð og flestir búnir að læra að það er ekkert feimnismál að taka lagið á vellinum.

Nú þegar er maður farinn að skynja spennu hjá fólki fyrir leiknum og því ekki seinna vænna að hefja niðurtalningu: Það eru 73 dagar í þetta!

Ferðalag sem var þess virði að leggja á sig
Íslenska landsliðið er orðið ótrúlega gott. Staðan í riðlinum sýnir augljóslega það skipulag og aga sem það býr yfir. Liðið vinnur sem ein heild og markatalan 12-2 eftir fimm leiki segir meira en mörg orð.

Það er stórskemmtilegt að sjá liðið spila og forréttindi að fá að fylgja því og kynnast um leið nýjum löndum eins og Kasakstan. Land sem maður hefði aldrei heimsótt nema í þessum tilgangi. Menningin allt önnur en maður þekkir og upplifunin ólýsanleg.

Allt ferðalagið og fyrirhöfnin var svo sannarlega þess virði. Gæsahúðin þegar Eiður Smári braut ísinn og að fá að sjá tvo stórkostlega leikmenn í sögu íslenska boltans saman á vellinum: Gylfa og Eið. Leikmenn sem búa yfir gæðum og útsjónarsemi sem langflestir geta bara leyft sér að dreyma um.

Margir eiga skilið að spila
Jákvæður hausverkur er hugtak sem oft skýtur upp kollinum í fótboltaumfjöllun. Það er vel hægt að nota það yfir leikmannavalið sem Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerback hafa úr að velja.

Það voru fleiri en ellefu leikmenn sem áttu skilið að byrja leikinn á laugardaginn. Menn sem hafa staðið sig vel með landsliðinu upp á síðkastið eða eru heitir og hafa verið að gera fína hluti með félagsliðum sínum. Það þarf ekki annað en að skoða bekkinn til að sjá það.

En í boltanum er það þannig að það fá bara ellefu að byrja og í mótsleikjum geta mest þrír varamenn fengið mínútur. Ég er vonandi ekki að segja ykkur nýjar fréttir.

Samkeppnin í liðinu er mikil og næsta verkefni er leikur gegn Eistlandi á morgun. Vináttulandsleikur þar sem búast má við ansi mörgum breytingum, jafnvel ellefu á byrjunarliðinu frá leiknum gegn Kasakstan.

Þar fá menn sem eru að banda á dyrnar tækifæri á að taka skrefið nær. Menn eru pottþétt ákveðnir í að sýna sig enda allir meðvitaðir um sameiginlegan draum um hvernig eyða eigi sumrinu 2016.
Athugasemdir
banner
banner
banner