Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 1. deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. ÍA 237 stig
2. Selfoss 200 stig
3. Leiknir 199 stig
4. Fjölnir 192 stig
5. Haukar 145 stig
6. Víkingur Ó. 122 stig
7. ÍR 116 stig
8. BÍ/Bolungarvík 105 stig
9. KA 103 stig
10. HK 63 stig
11. Þróttur 60 stig
12. Grótta 42 stig
2. Selfoss
Heimasíða: umfs.is
Lokastaða í fyrra: 12. sæti í efstu deild
Selfyssingar höfnuðu í neðsta sæti Pepsi-deildarinnar í fyrra undir stjórn Guðmundar Benediktssonar. Efsta deildin var stærri biti en margir Selfyssingar gerðu sér grein fyrir og var snemma ljóst að róðurinn yrði ansi þungur. Á Selfossi leggjast menn þó ekki í volæði heldur er stefnan sett á að fara beint upp aftur undir stjórn Loga Ólafssonar. Jóhann Ólafur Sigurðsson, markvörður liðsins, sagði í viðtali í vikunni að liðið væri ívið sterkara en á sama tíma í fyrra.
Hvað segir Garðar Gunnar? Garðar Gunnar Ásgeirsson er álitsgjafi síðunnar um 1. deild karla. Garðar hefur verið sérfræðingur útvarpsþáttar Fótbolta.net um neðri deildirnar síðustu ár. Hann þjálfaði á sínum tíma meistaraflokk Leiknis í Breiðholti með góðum árangri.
Selfyssingar eru komnir niður aftur eftir aðeins eins árs veru í úrvalsdeild. Þeir gerðu góða hluti með því að ráða strax til sín þekktan og góðan þjálfara áður en einhver sundrung skapaðist í leikmannahópnum eftir fallið. Þeir sýndu klókindi í því að ráða Loga Ólafsson sem er þjálfari sem trekkir að.
Styrkleikar: Hafa náð að halda öflugum leikmönnum í liðinu þrátt fyrir fallið. Eru með kjarna sem spilaði í úrvalsdeild í fyrra, eru með marga heimamenn og eru að byggja sitt lið á gömlum grunni. Hafa öfluga vængmenn og Viðar Örn Kjartansson mun skora í sumar.
Veikleikar: Selfyssingar hafa í raun ekki neina augljósa veikleika. Ef ég þyrfti samt að nefna eitthvað þá tel ég að varnarleikurinn sé smá spurningamerki.
Lykilmenn: Babacar Sarr, Einar Ottó Antonsson og Viðar Örn Kjartansson.
Gaman að fylgjast með: Spennandi verður að sjá hve öflugir Stefán Ragnar Guðlaugsson og Jón Daði Böðvarsson verða í sumar. Þá verður fróðlegt að sjá hvernig útlendingarnir koma inn í þetta en ég hef sérstaklega heyrt góða hluti um Babacar Sarr frá Senegal.
Líklegt byrjunarlið í upphafi móts:
Þjálfarinn
Logi Ólafsson var ráðinn þjálfari Selfyssinga í október en hann skrifaði þá undir tveggja ára samning. Logi er einn reyndasti þjálfari landsins, hann býr á Arnarhóli í Gaulverjabæjarhreppi og hefur samhliða þjálfun síðustu ár verið íþróttakennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Á þjálfaraferli sínum hefur hann meðal annars stýrt KR, Víkingi, ÍA, FH, KF Nörd og A-landsliðum karla og kvenna.
Komnir:
Auðun Helgason frá Grindavík
Babacar Sarr frá Senegal
Endre Ove Brenne frá Noregi
Ibraim Ndiaye frá Senegal
Joe Tillen frá Fram
Sena Abdalha frá Senegal
Sidy Sow frá Senegal
Farnir:
Davíð Birgisson í Hauka (Var á láni)
Guðmundur Þórarinsson í ÍBV
Guessan Bi Herve
Gunnar Rafn Borgþórsson hættur
Ingólfur Þórarinsson í Víking R.
Jean Stephane YaoYao
Viktor Unnar Illugason í Breiðablik
Fyrstu leikir Selfoss 2011:
13. maí: Selfoss - Fjölnir
19. maí: Grótta - Selfoss
28. maí: Selfoss - ÍA