Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   þri 03. maí 2011 09:00
Elvar Geir Magnússon
Spá þjálfara og fyrirliða í 1.deild karla: 12. sæti
Sóknarmaðurinn Magnús Bernhard er lykilmaður hjá Gróttu.
Sóknarmaðurinn Magnús Bernhard er lykilmaður hjá Gróttu.
Mynd: Eyjólfur Garðarsson
Grótta leikur heimaleiki sína á gervigrasi.
Grótta leikur heimaleiki sína á gervigrasi.
Mynd: Eyjólfur Garðarsson
Liðið er með gríðarlega öflugan markvörð í Kristjáni Finnbogasyni.
Liðið er með gríðarlega öflugan markvörð í Kristjáni Finnbogasyni.
Mynd: Fótbolti.net - Þórdís Inga Þórarinsdóttir
Mynd: Eyjólfur Garðarsson
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 1. deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. Grótta 42 stig


12. Grótta
Heimasíða: grottasport.is
Lokastaða í fyrra: 10. sæti í 1. deild

Grótta var í harðri fallbaráttu síðasta sumar en slapp við fall í lokaumferð. Ef spáin fyrir þetta ár rætist verður það þó hlutskipti liðsins á næsta ári að leika í 2. deild. Það er útlit fyrir erfitt sumar hjá Seltyrningum og má búast við því að markvörðurinn reyndi Kristján Finnbogason muni hafa nóg að gera í rammanum.

Hvað segir Garðar Gunnar? Garðar Gunnar Ásgeirsson er álitsgjafi síðunnar um 1. deild karla. Garðar hefur verið sérfræðingur útvarpsþáttar Fótbolta.net um neðri deildirnar síðustu ár. Hann þjálfaði á sínum tíma meistaraflokk Leiknis í Breiðholti með góðum árangri.

Það verður gaman að fylgjast með Gróttu undir stjórn Sigurðar Helgasonar sem tók við af Ásmundi Haraldssyni í fyrra.

Styrkleikar: Maður hefur tekið eftir því í vetur að skipulag liðsins er mun betra en það hefur verið. Það er ekki mikið af stjörnum í liðinu en liðið er samheldið og menn leggja sig alla fram. Gróttumenn eru í töluvert betra formi en í fyrra og spila heimaleikina á gervigrasi sem hjálpar alltaf eitthvað.

Veikleikar: Þeim vantar einfaldlega meiri gæði í leikmannahópinn sinn. Liðið er samansett af strákum sem eru allir frekar jafnir en það vantar fleiri leikmenn sem standa upp úr og rífa liðið á næsta stig.

Lykilmenn: Kristján Finnbogason, Knútur Rúnar Jónsson og Magnús Bernhard Gíslason.

Gaman að fylgjast með: Það eru tveir strákar sem vert er að fylgjast með í Gróttuliðinu. Það eru Jón Kári Eldon og Viggó Kristjánsson. Jón Kári er leikmaður uppalinn hjá KR sem hefur spilað með Hamar og Hvöt undanfarin ár, stór og sterkur og tekur mikið til sín. Viggó er framherji fæddur 1993 og fékk sína eldskírn í fyrra. Hann er góður leikmaður.



Líklegt byrjunarlið í upphafi móts:


Þjálfarinn
Refurinn Sigurður Helgason tók við Gróttu af Ásmundi Guðna Haraldssyni í fyrra og bjargaði liðinu frá falli úr 1. deildinni með því að ná í eitt stig í lokaleiknum gegn Njarðvík í þremur leikjum. Sigurður hefur þjálfað í tæp 30 ár og meðal annars flesta flokka Gróttu, KS og KR. Hann byrjaði þjálfun hjá knattspyrnudeild Gróttu haustið 2006 en hafði áður þjálfað hjá Gróttu á árinum 1991-1994.


Komnir:
Andri Björn Sigurðsson frá ÍR
Guðmundur Marteinn Hannesson byrjaður aftur
Jón Hafsteinn Jóhannsson frá Völsungi
Jón Kári Eldon frá KR
Tómas Emil Guðmundsson frá BÍ/Bolungarvík

Farnir:
Agnar Sigurjónsson fluttur til Svíþjóðar
Ásmundur Guðni Haraldsson KFG
Dan Howell í KA
Elvar Freyr Arnþórsson í Augnablik
Jóhann Páll Ástvaldsson í Völsung
Tómas Emil Guðmundsson meiddur
Tihomir Drobnjak
Vignir Benediktsson í Breiðablik (Var á láni)



Fyrstu leikir Gróttu 2011:
13. maí: Þróttur R. - Grótta
19. maí: Grótta - Selfoss
28. maí: Víkingur Ó. - Grótta