Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 1. deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. ÍA 237 stig
2. Selfoss 200 stig
3. Leiknir 199 stig
4. Fjölnir 192 stig
5. Haukar 145 stig
6. Víkingur Ó. 122 stig
7. ÍR 116 stig
8. BÍ/Bolungarvík 105 stig
9. KA 103 stig
10. HK 63 stig
11. Þróttur 60 stig
12. Grótta 42 stig
1. ÍA
Heimasíða: kfia.is
Lokastaða í fyrra: 5. sæti í 1. deild
Skagamönnum er spáð sigri í 1. deildinni þriðja árið í röð. Síðustu tvö ár hefur liðið valdið miklum vonbrigðum þegar út í alvöruna er komið. Liðið byrjaði síðasta tímabil mjög illa og náði ekki sigri fyrr en í sjöttu umferð. ÍA náði betur saman á lokasprettinum og hafnaði í fimmta sætinu. Á undirbúningstímabilinu hefur þeim gulu gengið mjög vel og virðast komnir með réttu blönduna af reynsluboltum og yngri leikmönnum. Þeir fljúga upp í sumar ef spáin rætist.
Skagamenn virðast vera búnir að ná að móta hörkulið eftir mögur ár. Það sem hefur einkennt liðið undanfarin ár er að það hefur verið frábært á undirbúningstímabilinu en ekki náð að skila því inn í deildina.
Styrkleikar: Þeir eru með betra lið í höndunum núna en þeir hafa verið með síðustu tvö ár. Byrjunarliðið er hörkugott og þeir hafa besta senter deildarinnar í Gary Martin, hann er jafnvel besti framherji landsins. Þeir hafa góðan markvörð og reynslumikið miðvarðapar.
Veikleikar: Það er stór spurning hvernig þeir ná að komast inn í sumarið eftir mjög góðan vetur. Veikleikar liðsins eru í raun sálræns eðlis. Undanfarin tvö ár hafa efni staðið til að þeir yrðu góðir yfir sumarið. Það verður spennandi að sjá hvort þeir falli á stóra prófinu þriðja árið í röð eða ekki.
Lykilmenn: Reynir Leósson, Heimir Einarsson og Gary Martin.
Gaman að fylgjast með: Andri Adolphsson og Ragnar Leósson. Þá verður gaman að sjá miðjumanninn Mark Doninger sem var hjá Newcastle. Ég hlakka til að sjá hvernig hann kemur inn í þetta.
Líklegt byrjunarlið í upphafi móts:

Þjálfarinn
Þórður Þórðarson lék sem markvörður ÍA á sínum tíma en hann tók við þjálfun liðsins á miðju tímabili 2009 þegar Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir létu af störfum. Fram að því hafði hann verið þeim bræðrum innan handar sem aðstoðarþjálfari.
Komnir:
Dean Martin frá KA
Mark Doninger frá Írlandi
Reynir Leósson frá Val
Farnir:
Andri Júlíusson í Fram
Árni Thor Guðmundsson í fríi frá fótbolta
Fyrstu leikir ÍA 2011:
13. maí: HK - ÍA
19. maí: ÍA - Þróttur
28. maí: Selfoss - ÍA