Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 1. deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. HK 63 stig
11. Þróttur 60 stig
12. Grótta 42 stig
10. HK
Heimasíða: hk.is
Lokastaða í fyrra: 8. sæti í 1. deild
HK var það lið sem olli hvað mestum vonbrigðum á síðasta leiktímabili. Þegar á hólminn var komið reyndist liðið einfaldlega ekki nægilega sterkt. Liðið hafði fallið úr efstu deild tímabilið á undan og byrjaði svo ágætlega í 1. deildinni en fljótlega fór að halla undan fæti. Á endanum varð áttunda sæti niðurstaðan. Þjálfarar og fyrirliðar spá HK enn neðar í sumar þó liðið ætti að bjarga sér frá falli.
Hvað segir Garðar Gunnar? Garðar Gunnar Ásgeirsson er álitsgjafi síðunnar um 1. deild karla. Garðar hefur verið sérfræðingur útvarpsþáttar Fótbolta.net um neðri deildirnar síðustu ár. Hann þjálfaði á sínum tíma meistaraflokk Leiknis í Breiðholti með góðum árangri.
HK er félag sem minnir mig oft mikið á Þrótt. Það er vel staðið að málum, flott umgjörð og góðir yngri flokkar. Það virðist þó vanta að gera meistaraflokkinn að alvöru liði.
Styrkleikar: Þeir hafa nokkra einstaklinga sem geta klárað leiki. Þeir hafa Eyþór Helga Birgisson sem getur skorað mörk upp úr engu en hefur verið mikið meiddur í vetur. Hólmbert Friðjónsson og Vilhjálmur Darri Einarsson eru líka leikmenn sem spila fram á við og geta gert hluti upp á eigin spýtur. Hervé Aka'a er grimmur leikmaður sem er lykilmaður í vörninni en er aðeins villtur.
Veikleikar: Síðan liðið féll úr úrvalsdeildinni hefur það misst kjarnann. Það hefur reynst þeim erfitt að fylla í þau skörð sem hafa myndast eftir brotthvarf lykilmanna. Það sem ég hef séð til liðsins í vetur finnst mér það ekki vera nægilega skipulagt og ef það lagast ekki kemur það til með að vera í miklu basli. Rétt eins og Þróttarar virðast HK-ingar ekki vera í góðu formi. Þeir töpuðu öllum leikjum vetrarins og markatalan í Lengjubikarnum var 3-23. Ef við skoðum bara seinni hálfleik var markatalan 2-17.
Lykilmenn: Hervé Aka'a, Hafsteinn Briem og Eyþór Helgi Birgisson.
Gaman að fylgjast með: Hólmbert Friðjónsson. Stór, sterkur og tæknilega mjög góður. Virkilega hættulegur strákur. Ég spái því að hann verði mjög góður í sumar, búi sér til nafn og verði eftirsóttur í lok sumars.
Líklegt byrjunarlið í upphafi móts:
Þjálfarinn
Tómas Ingi Tómasson þreytti frumraun sína sem aðalþjálfari á síðasta tímabili og heldur áfram með HK á þessu. Hann segist hafa lært mikið á síðasta ári og mætir því reynslunni ríkari til leiks. Tómas var mjög góður leikmaður á sínum tíma en sjónvarpsáhorfendur hafa fengið að njóta fótboltavisku hans á Stöð 2 Sport síðustu ár. Auk þess að þjálfa HK er hann aðstoðarþjálfari U21-landsliðsins.
Komnir:
Aron Bjarnason frá Hvöt
Ásgeir Aron Ásgeirsson frá ÍBV
Frosti Bjarnason frá Hvöt
Ólafur Þór Berry frá Reyni Sandgerði
Vilhjálmur Darri Einarsson frá KR
Farnir:
Almir Cosic
Hörður Árnason í Stjörnuna
Jónas Grani Garðarsson hættur
Ragnar Mar Sigrúnarson í Víking Ólafsvík
Þórður Birgisson í KS/Leiftur
Fyrstu leikir HK 2011:
13. maí: HK - ÍA
19. maí: Leiknir - HK
28. maí: HK - KA