Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 1. deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. HK 63 stig
11. Þróttur 60 stig
12. Grótta 42 stig
10. HK
Heimasíða: hk.is
Lokastaða í fyrra: 8. sæti í 1. deild
HK var það lið sem olli hvað mestum vonbrigðum á síðasta leiktímabili. Þegar á hólminn var komið reyndist liðið einfaldlega ekki nægilega sterkt. Liðið hafði fallið úr efstu deild tímabilið á undan og byrjaði svo ágætlega í 1. deildinni en fljótlega fór að halla undan fæti. Á endanum varð áttunda sæti niðurstaðan. Þjálfarar og fyrirliðar spá HK enn neðar í sumar þó liðið ætti að bjarga sér frá falli.
HK er félag sem minnir mig oft mikið á Þrótt. Það er vel staðið að málum, flott umgjörð og góðir yngri flokkar. Það virðist þó vanta að gera meistaraflokkinn að alvöru liði.
Styrkleikar: Þeir hafa nokkra einstaklinga sem geta klárað leiki. Þeir hafa Eyþór Helga Birgisson sem getur skorað mörk upp úr engu en hefur verið mikið meiddur í vetur. Hólmbert Friðjónsson og Vilhjálmur Darri Einarsson eru líka leikmenn sem spila fram á við og geta gert hluti upp á eigin spýtur. Hervé Aka'a er grimmur leikmaður sem er lykilmaður í vörninni en er aðeins villtur.
Veikleikar: Síðan liðið féll úr úrvalsdeildinni hefur það misst kjarnann. Það hefur reynst þeim erfitt að fylla í þau skörð sem hafa myndast eftir brotthvarf lykilmanna. Það sem ég hef séð til liðsins í vetur finnst mér það ekki vera nægilega skipulagt og ef það lagast ekki kemur það til með að vera í miklu basli. Rétt eins og Þróttarar virðast HK-ingar ekki vera í góðu formi. Þeir töpuðu öllum leikjum vetrarins og markatalan í Lengjubikarnum var 3-23. Ef við skoðum bara seinni hálfleik var markatalan 2-17.
Lykilmenn: Hervé Aka'a, Hafsteinn Briem og Eyþór Helgi Birgisson.
Gaman að fylgjast með: Hólmbert Friðjónsson. Stór, sterkur og tæknilega mjög góður. Virkilega hættulegur strákur. Ég spái því að hann verði mjög góður í sumar, búi sér til nafn og verði eftirsóttur í lok sumars.
Líklegt byrjunarlið í upphafi móts:

Þjálfarinn
Tómas Ingi Tómasson þreytti frumraun sína sem aðalþjálfari á síðasta tímabili og heldur áfram með HK á þessu. Hann segist hafa lært mikið á síðasta ári og mætir því reynslunni ríkari til leiks. Tómas var mjög góður leikmaður á sínum tíma en sjónvarpsáhorfendur hafa fengið að njóta fótboltavisku hans á Stöð 2 Sport síðustu ár. Auk þess að þjálfa HK er hann aðstoðarþjálfari U21-landsliðsins.
Komnir:
Aron Bjarnason frá Hvöt
Ásgeir Aron Ásgeirsson frá ÍBV
Frosti Bjarnason frá Hvöt
Ólafur Þór Berry frá Reyni Sandgerði
Vilhjálmur Darri Einarsson frá KR
Farnir:
Almir Cosic
Hörður Árnason í Stjörnuna
Jónas Grani Garðarsson hættur
Ragnar Mar Sigrúnarson í Víking Ólafsvík
Þórður Birgisson í KS/Leiftur
Fyrstu leikir HK 2011:
13. maí: HK - ÍA
19. maí: Leiknir - HK
28. maí: HK - KA