Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
   þri 10. maí 2011 09:00
Elvar Geir Magnússon
Spá þjálfara og fyrirliða í 1.deild karla: 5. sæti
Haukar leika heimaleiki sína á gervigrasi á Ásvöllum.
Haukar leika heimaleiki sína á gervigrasi á Ásvöllum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásgeir Þór Ingólfsson er lykilmaður í sóknarleiknum.
Ásgeir Þór Ingólfsson er lykilmaður í sóknarleiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 1. deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. Haukar 145 stig
6. Víkingur Ó. 122 stig
7. ÍR 116 stig
8. BÍ/Bolungarvík 105 stig
9. KA 103 stig
10. HK 63 stig
11. Þróttur 60 stig
12. Grótta 42 stig

5. Haukar
Heimasíða: haukar.is
Lokastaða í fyrra: 11. sæti í efstu deild

Haukum gekk ekki vel í Pepsi-deildinni í fyrra og féllu beint niður aftur. Þeir munu ekki ná að endurheimta sæti sitt þar ef spá þjálfara og fyrirliða gengur eftir. Haukaliðið hefur misst mjög öfluga leikmenn sem léku með því í fyrra þegar það vann 4 af 22 leikjum sínum í efstu deild. Haukar leika að nýju á heimavelli sínum á Ásvöllum en aðalvöllur liðsins er gervigras. Nýr þjálfari er tekinn við stjórnartaumunum.

Hvað segir Garðar Gunnar? Garðar Gunnar Ásgeirsson er álitsgjafi síðunnar um 1. deild karla. Garðar hefur verið sérfræðingur útvarpsþáttar Fótbolta.net um neðri deildirnar síðustu ár. Hann þjálfaði á sínum tíma meistaraflokk Leiknis í Breiðholti með góðum árangri.

Haukar gætu átt erfitt tímabil framundan eftir að hafa fallið úr úrvalsdeildinni síðasta sumar. Ég tel að fimmta sætið yrði mjög ásættanlegur árangur hjá liðinu.

Styrkleikar: Þeir koma til með að spila heimaleikina á gervigrasi og það telur alltaf. Þeir hafa nokkuð magn af uppöldum strákum í sínu liði sem leggja sig virkilega vel fram fyrir klúbbinn og það mun nýtast þeim vel.

Veikleikar: Þeir hafa misst lykilpósta úr liði sínu, menn sem voru feykigóðir hjá þeim síðasta sumar. Þar má nefna menn eins og Guðjón Lýðsson, Arnar Gunnlaugs og Hilmar Geir Eiðsson sem eru allt leikmenn sem myndu labba inn í hvaða 1. deildarlið sem er. Ég tel Hauka ekki hafa gæðin sem þarf til að fylla upp í þessi skörð.

Lykilmenn: Kristján Ómar Björnsson, Hilmar Trausti Arnarsson og Ásgeir Þór Ingólfsson.

Gaman að fylgjast með: Davíð Birgisson er ótrúlega lunkinn leikmaður og klókur en hefur ekki alltaf nennt þessu. Ef hann verður með hausinn í lagi þá kemur hann með að vera mjög drjúgur fyrir Hauka. Þá er Aran Nganpanya, efnilegur strákur fæddur 1994, athyglisverður leikmaður sem spennandi verður að sjá hvort fái sín tækifæri.



Líklegt byrjunarlið í upphafi móts:


Þjálfarinn
Öskur Magnúsar Gylfasonar munu heyrast hátt og vel á Ásvöllum í sumar. Hann tók við Haukum eftir að Andri Marteinsson hélt til Víkinga í vetur. Magnús er mjög reynslumikill þjálfari sem hefur þjálfað Víkinga, KR og ÍBV auk þess sem hann hefur þjálfað yngri landslið Íslands. Þá hefur hann getið sér gott orð sem fótboltasérfræðingur á Stöð 2 Sport. „Framtíðarmarkmið mitt er að gera Hauka að úrvalsdeildarliði," sagði Magnús þegar hann tók við Haukum.

Komnir:
Aron Freyr Eiríksson frá FH
Aron Már Smárason frá Fjarðabyggð
Davíð Birgisson frá KR
Ísak Örn Þórðarson frá Keflavík
Þór Steinar Ólafs frá Augnablik

Farnir:
Alejandro Garcia Canedo
Amir Mehica í Fjarðabyggð
Arnar Bergmann Gunnlaugsson í Fram
Grétar Atli Grétarsson í Stjörnuna (var á láni)
Guðjón Pétur Lýðsson í Val
Jamie McCunnie í Grindavík
Magnús Björgvinsson í Grindavík


Fyrstu leikir Hauka 2011:
14. maí: Víkingur Ó. - Haukar
21. maí: Haukar - BÍ/Bolungarvík
28. maí: ÍR - Haukar
banner
banner
banner