Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 13. apríl 2018 11:30
Magnús Már Einarsson
Gulli Jóns: Þetta er umdeilt innan leikmannahópsins
Mynd: Þróttur R.
Mynd: Fótbolti.net - Hilmar Þór
Óli Þórðar og Gulli Jóns.
Óli Þórðar og Gulli Jóns.
Mynd: Návígi
„Ég bjóst ekki við þessu á þessum tímapunkti. Það er mjög óvanalegt að lið skipti um þjálfara svona stuttu fyrir mót," sagði Gunnlaugur Jónsson við Fótbolta.net í dag en hann var í gær ráðinn þjálfari Þróttar.

Gregg Ryder hætti óvænt sem þjálfari Þróttar í vikunni eftir faglegan ágreining við stjórn félagsins. Þróttur leitaði til Gunnlaugs og hann ákvað að taka slaginn.

„Mér leist ekkert á þessa tímasetningu fyrst en eftir að hafa lagst aðeins yfir þetta þá finnst mér þetta vera spennandi áskorun og ég held að það séu ákveðnir möguleikar í henni. Þetta er umdeilt innan leikmannahópsins, einhvejir eru sáttir og einhverjir eru ósáttir. Núna er það okkar að beisla þessa orku og fá hana með okkur inn í mótið."

„Ég hef lítið séð af liðinu en ég kannast við flesta þessa leikmenn og tel þetta vera vel skipað lið. Gregg er klárlega búinn að gera frábæra hluti þarna."


Farinn að hljóma eins og Ragnar Reykás
Gunnlaugur ætlaði að taka sér frí frá fótbolta eftir að hann hætti sem þjálfari ÍA seint á síðasta tímabili.

„Ég er farinn að hljóma eins og Ragnar Reykás," sagði Gulli léttur. „Það stóð til að reyna að taka frí frá þessu í sumar. Þetta hefur verið ágætis vetrarfrí frá fótboltanum og það var kærkomið að losna úr áreitinu. Þegar það kemur gott tilboð þá er spennandi að fara í atið aftur og taka slaginn. Ég kann vel við þessa deild eftir að hafa þjálfað lungann af ferli mínum í Inkasso-deildinni. Ég er spenntur þó að ég fái ekki þetta eðlilega sumarfrí sem flestir þekkja."

Þróttur endaði í 3. sæti í Inkasso-deildinni í fyrra en Gunnlaugur segir erfitt að meta möguleikna fyrir sumarið.

„Ég renni blint í sjóinn með það. Ég hef lítið séð til liðanna í Inkasso-deildinni í vetur því ég hef ekki verið að undirbúa lið þar. Við eigum bikarleik í næstu viku og við þurfum að vinna hann. Þá fáum við annan bikarleik sem er eini undirbúningur okkar saman fyrir mót. Það er ekki hægt að spá fyrir um hvar Þróttur mun enda í sumar fyrr en líða tekur á mótið."

Framhaldið á Návígi kemur í ljós
Undanfarnar vikur hafa hlaðvarpsþættirnir hlaðvarpsþættirnir Návígi í umsjón Gulla slegið í gegn á Fótbolta.net. Verður framhald á þeim?

„Í fyrstu ætlaði ég bara að gera sex þætti. Ég var með fimm stærstu þjálfara landsins í huga og svo ætlaði ég að taka Eið Smára. Sökum þess að Eiður Smári er úti um allt þessa stundina þá ákvað hann að taka ekki þátt að þessu sinni. Við fengum Veigar Pál í staðinn og hann gerði upp sinn feril í frábæru viðtali."

„Þættirnir hafa vakið mikla athygli svo ég ákvað að taka einn þátt til viðbótar og enda fyrstu seríuna á alvöru sprengju með Óla Þórðar. Sem betur fer var kallinn klár í slaginn og hann brást ekki."

„Framhaldið verður að koma í ljós. Það fer mikill tími í að undirbúa þessa þætti og ég útiloka ekkert. Þegar þættirnir vekja það mikla athygli að allir kjaftaútvarpsþáttir landsins fjalla um hann og skopmyndateiknari Fréttablaðsins er farinn að teikna myndir eftir honum þá þurfa menn að semja um kaup og kjör að nýju. Það er eins gott að Borgun íhugi betra tilboð,"
sagði Gunnlaugur.

Gunnlaugur er einn af mörgum gömlum jöxlum sem ætla að spila með Ámanni gegn Fram í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins á morgun.

„Ég er gríðarlega spenntur. Liðið hefur ekkert komið saman en við erum hvergi bangnir. Það vantar ekki reynsluna í þetta lið en það er spurning hvort ákveðnir menn hefðu mátt æfa betur undanfarnar vikur," sagði Gunnlaugur léttur.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner