Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
banner
   þri 09. janúar 2018 12:00
Magnús Már Einarsson
Veigar: Vaknaði og áttaði mig á því að þetta var komið gott
Veigar í leik með Stjörnunni sumarið 2016.
Veigar í leik með Stjörnunni sumarið 2016.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Veigar í leik með Víkingi síðastliðið sumar.
Veigar í leik með Víkingi síðastliðið sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
„Ég fékk hringingu frá Rúnari (Páli Sigmundssyni) og hann sagðist endilega vilja fá mig inn í teymið. Þetta gekk síðan fljótt fyrir sig frá því að hann hringdi í mig og þangað til að ég skrifaði undir," sagði Veigar Páll Gunnarsson við Fótbolta.net í dag.

Hinn 37 ára gamli Veigar hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna en hann er kominn inn í þjálfarateymi Stjörnunnar. Á síðasta tímabili var Veigar hjá FH fyrri hlutann og Víkingi R. síðari hluta sumars.

„Það var spurning hvort ég myndi halda áfram hjá Víkingi og taka eitt tímabil í viðbót hjá Loga (Ólafssyni). Það fjaraði hægt og rólega út og síðan vaknaði maður einn daginn og áttaði sig á því að þetta var komið gott."

„Ég var farinn að finna fyrir því sjálfur að þetta er orðið of erfitt. Maður hangir ekki almennilega með og maður hugsaði að maður vildi ekki líta illa út á vellinum. Ég vildi hætta á réttum tíma."


Veigar varð á ferlinum norskur meistari með Stabæk sem og Íslandsmeistari með bæði KR og Stjörnunni. Þá skoraði hann sex mörk í 34 landsleikjum.

„Ég er ótrúlega sáttur við ferilinn og stoltur af mínum ferli. Ég sé ekki eftir neinu og finnst ég hætta á réttum tíma. Það verður sárt að kveðja það að vera leikmaður en maður heldur áfram í fótboltanum á öðrum vettvangi. Maður er ennþá með tærnar í boltanum," sagði Veigar sem er spenntur að taka til starfa hjá Stjörnunni.

„Stjarnan er uppeldisklúbburinn minn og ég bý nánast við hliðina á Stjörnuheimilinu. Þetta er eitthvað sem maður sá fyrir sér gerast einhverntímann á þjálfaraferlinum að vera hjá Stjörnunni og ég fæ þetta í fyrsta tækifæri sem þjálfari. Þetta er fullkomið fyrir mig," sagði Veigar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner