Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 09. desember 2014 13:30
Elvar Geir Magnússon
Átján ára strákur gæti spilað með Chelsea á morgun
 Ruben Loftus-Cheek í leik með U19 liði Englands.
Ruben Loftus-Cheek í leik með U19 liði Englands.
Mynd: Getty Images
Búast má við því að Jose Mourinho, stjóri Chelsea, gefi ýmsum hvíld á morgun þegar liðið mætir Sporting Lissabon í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Chelsea hefur þegar tryggt sér efsta sæti riðilsins.

Eftir tap gegn Newcastle um liðna helgi er mikilvægt fyrir Chelsea að ná sigri gegn Hull um komandi helgi.

John Terry verður hvíldur á morgun en hann æfði ekki í dag. Það sama gildir um Eden Hazard og Willian.

Á fréttamannafundi sem er nýlokið var átján ára strákur, Ruben Loftus-Cheek, viðstaddur ásamt Mourinho. Loftus-Cheek var fyrirliði unglingaliðs Chelsea sem vann bikarkeppnina fyrr á þessu ári.

„Það er ótrúlegt fyrir mig að fá að æfa með aðalliðinu. Ég hef verið hérna síðan ég var átta ára. Það hefur mikla þýðingu fyrir mig að fá að æfa með þessu liði og eldri leikmenn hjálpa manni mikið," segir Loftus-Cheek.

Mourinho vildi ekki staðfesta að Loftus-Cheek muni spila leikinn á morgun.

„Fyrir mánuði spilaði hann í Meistaradeild unglinga gegn Sporting Lissabon. Þið getið ímyndað ykkur muninn, spila fyrir framan þúsund manns og mæta svo aðalliðinu fyrir framan 45 þúsund áhorfendur," segir Mourinho.

„Í hvert sinn sem hann mætir á æfingar þá sýnir hann mér þau gæði sem hann býr yfir og þann metnað sem hann hefur. Þetta er enskur leikmaður sem er algjörlega búinn til hjá Chelsea og gæti orðið leikmaður aðalliðsins. Það er frábært að geta gefið svona krökkum tækifæri."

Mourinho segir að tapið gegn Newcastle hafi ekki nein sálræn áhrif á liðið en segist ánægður með að geta notað tækifærið og hvílt menn. Hann segir þó að Diego Costa muni byrja leikinn á morgun.
Athugasemdir
banner
banner